þæginlegt

Orðmyndin þæginlegur, með n-i, í stað þægilegur hefur nokkrum sinnum verið nefnd hér. Elsta dæmi um mynd með n af þessu orði er úr Fálkanum 1962: „Aðdáun og þæginlegt slúður Barneys hafði hvetjandi áhrif á hann.“ Annars sjást slíkar myndir ekki á prenti fyrr en á árunum 1991 og 1992 þegar myndin þæginlega kemur fyrir, bæði sem lýsingarorð og atviksorð. Það er ekki fyrr en um aldamót sem þessi ritháttur fer að sjást að ráði og þó mest á allra síðustu árum. Á tímarit.is er að finna á fimmta hundrað dæma um myndir með , en sú tala er villandi vegna þess að myndirnar koma stundum fyrir í auglýsingum sem eru birtar margoft – að slíkum tilvikum frádregnum eru dæmin a.m.k. helmingi færri.

Vitanlega eru myndir með n á skjön við hefðbundinn rithátt og í Málfarsbankanum segir: „Ritað er þægilegur en ekki „þæginlegur“. En þessar myndir eru samt skiljanlegar því að eðlilegt er að málnotendur reyni að tengja liðinn þægi- við eitthvað kunnuglegt. Í Íslenskri orðsifjabók segir „forliðurinn þægi- af lo. þægur“. En þótt þægur hafi m.a. getað merkt 'hentugur' áður fyrr samkvæmt Íslenskri orðsifjabók þekkja málnotendur á 21. öld orðið eingöngu í merkingunni 'hlýðinn og stilltur' sem gefin er í Íslenskri nútímamálsorðabók. Merkingarleg tengsl orðsins þægilegur við þægur liggja því ekki í augum uppi. Aftur á móti liggur merking þægilegur mjög nálægt merkingu nafnorðsins þægindi.

Það er trúlegt að myndir með n stafi af því að málnotendur tengi þessi orð saman vegna merkingarlíkinda og telji þægi(n)legur leitt af þægindi. Þótt sú afleiðsla sé ekki sögulega rétt samkvæmt Íslenskri orðsifjabók á hún sér samt skýra hliðstæðu sem ekki er ólíklegt að hafi áhrif á skynjun málnotenda. Lýsingarorðið leiðinlegur er nefnilega komið af nafnorðinu leiðindi með brottfalli d leiðindlegur > leiðinlegur (í fornu máli er myndin leiðilegur reyndar margfalt algengari en leiðinlegur). Það er mögulegt að málnotendur hugsi sér að þægindlegur hafi orðið þæginlegur á sama hátt – merkingarleg vensl milli leiðindi og leiðinlegur eru hliðstæð venslum milli þægindi og þægi(n)legur.

Í nýrri útgáfu Risamálheildarinnar (2022) eru rúmlega 6.300 dæmi um myndir sem byrja á þæginleg-, þar af 6.070, eða rúm 96%, af samfélagsmiðlum (spjallþráðum, bloggsíðum og Twitter). Þetta sýnir að þessar myndir eru mjög útbreiddar í óformlegu málsniði þótt þær séu ekki áberandi á prenti eða í formlegum miðlum. Þótt ég ætli ekki að mæla sérstaklega með þessum myndum finnst mér fráleitt að fordæma þær og líta á þær sem dæmi um fákunnáttu þeirra sem nota þær eða hirðuleysi þeirra um málfar. Þess í stað ættum við að fagna þeim vegna þess að þær sýna okkur lifandi málkunnáttu í verki – málkunnáttu sem leitar að skýringum, finnur hliðstæður og dregur ályktanir. Er það ekki ánægjulegt?