Posted on Færðu inn athugasemd

Gerandi ofbeldis – gerandi minn

Nafnorðið gerandi hefur fleiri en eitt hlutverk. Í málfræði táknar það „þann sem gerir eitthvað, framkvæmir einhvern verknað, vinnur eitthvert verk“ eins og segir í íðorðasafni í málfræði í Íðorðabankanum. Í þessari merkingu er orðið hlutlaust, notað með fjölbreyttum sögnum – tala, kyssa, vinna, borða, lesa, berja, meiða, drepa taka allar með sér geranda. En auk þess hefur orðið lengi verið notað í lagamáli og dómum um fólk sem brýtur eitthvað af sér eða hagar sér á refsiverðan hátt – talað er um gerendur í fjársvikamálum, þjófnaðarmálum, morðmálum og ýmsum öðrum tegundum afbrota. Síðast en ekki síst er talað um gerendur í kynferðisbrotamálum en notkun orðsins á því sviði hefur aukist mjög á undanförnum árum.

Í tengslum við notkun orðsins gerandi um fólk sem brýtur eitthvað af sér hefur orðið áhugaverð breyting á setningafræðilegri hegðun þess. Nú tekur það iðulega með sér nafnorð í eignarfalli sem lýsir því hvers eðlis umrædd meingerð er – talað er um geranda eineltis, geranda ofbeldis, geranda afbrots, geranda árásar og fleira í þeim dúr, og í kjölfar bankahrunsins 2008 var líka iðulega talað um gerendur hrunsins. Þessi notkun orðsins virðist ekki nema svona þrjátíu ára gömul. Elstu dæmi sem ég finn um hana eru frá 1991 og örfá dæmi eru til frá tíunda áratug síðustu aldar. Notkunin hefst hins vegar að ráði um aldamót og hefur farið stöðugt vaxandi síðan samfara aukinni umræðu um mál af þessu tagi.

Það er auðvitað algengt að nafnorð sem eru mynduð af sögnum með viðskeytinu -andi (upphaflega lýsingarháttur nútíðar) taki með sér eignarfallsorð. Við tölum um eiganda hússins, notendur þjónustunnar, lesendur blaðsins o.s.frv. Í þeim tilvikum tekur samsvarandi sögn oft sams konar nafnorð sem andlag – við tölum um að eiga húsið, nota þjónustuna, lesa blaðið o.s.frv. En því er ekki til að dreifa með sögnina gera – við segjum ekki *gera einelti, *gera ofbeldi, *gera hrunið eða neitt slíkt. Það er þó ekki einsdæmi að orð myndað með -andi samsvari viðkomandi sögn ekki að þessu leyti. Við tölum t.d. um nemendur skólans þótt ekki sé talað um að *nema skólann. Tengsl -andi-orðs við eignarfallsorðið geta verið mismunandi.

En eignarfall með orðinu gerandi getur líka haft annað hlutverk en að lýsa eðli meingerðarinnar – það getur líka staðið fyrir þolanda hennar, einkum í eineltis- og kynferðisbrotamálum. Nú er t.d. sagt ég hætti að óttast geranda minn, hann gat horfst í augu við gerendur sína, þó er hún enn hrædd við geranda sinn, það er verið að hylma yfir með geranda hennar o.s.frv. Þessi notkun eignarfalls með gerandi er mjög nýleg – elsta dæmi sem ég fann um hana er frá 2007 en árið 2012 blossar hún upp og hefur breiðst mjög út á síðustu árum í kjölfar #metoo. Væntanlega er hún tilkomin fyrir áhrif frá hliðstæðum samböndum þar sem þolandinn er í eignarfalli eins og morðingi hans, nauðgari hennar o.fl.

Þar er þó sá munur eins og áður að samræmi er milli nafnorðsins og samsvarandi sagnar – við segjum myrða hann, nauðga henni o.s.frv. Við segjum hins vegar ekki *gera mig/mér, *gera hana/henni. Þar verður að koma eitthvað meira, annað andlag – gera mér/henni mein/miska. En þótt þarna sé ekki samræmi á milli er ástæðulaust að amast við samböndum eins og gerandi minn/hennar/hans o.s.frv. Merkingartengsl milli nafnorðs sem er höfuðorð í nafnlið og eignarfalls sem það tekur með sér geta verið með ýmsu móti. Þó sakar ekki að nefna að í orðinu meingerðamaður sem er gamalt í málinu en mjög sjaldgæft koma bæði andlögin fyrir. Það mætti hugsa sér að segja meingerðamaður minn í stað gerandi minn.

Posted on Færðu inn athugasemd

Líttu við

Í kverinu Gætum tungunnar sem kom út 1984 segir:

  • Maður sagði: Líttu við í kvöld.
  • Hann hugsaði: Líttu inn, eða Komdu við.
  • (Að líta við merkir að líta um öxl, horfa til baka; en það merkir ekki að líta inn eða koma við.)

Það er ekki einsdæmi að amast hafi verið við notkun sambandsins líta við í áðurgreindri merkingu. Gísli Jónsson gerði það t.d. í þætti sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu 1984, og Guðni Kolbeinsson sagði í Helgarpóstinum 1995: „Við getum komið við á einhverjum stað og litið inn til kunningjanna. Hins vegar megum við ekki slá þessu tvennu saman og fara að líta við hjá þeim. Líta við merkir bara að snúa höfðinu og líta um öxl.“ Í þætti sínum 1985 birti Gísli Jónsson þó bréf frá Kristjáni Jónssyni frá Garðsstöðum þar sem sagði: „„Að líta við“ merkir auðvitað að líta um öxl […] en ég kannast við það í merkingunni að ætla að koma við og þykir það ekki ljótt. Vil ég því ekki fordæma það heiftarlega.“

En á hverju byggist þessi andstaða? Vorið 1985 skrifaði ég grein í Skímu þar sem m.a. var vísað í Gætum tungunnar og sagt: „Manni er líka sagt að það megi ekki segja líta við í merkingunni 'koma við' eða 'líta inn', því að líta við merki 'líta um öxl'; en af hverju má þá nota koma við í merkingunni 'líta inn', þó að koma við merki líka 'snerta'?“ Þessu svaraði Helgi Hálfdanarson, höfundur kversins: „Við spurningu Eiríks um […] líta við og koma við hygg ég ráðlegast að leita svara í orðabók Sigfúsar Blöndals eða Árna Böðvarssonar og láta sér lynda það sem þar er sagt.“ Og bætti við: „Sambandið líta við í merkingunni koma við eða líta inn finnst hvergi í orðabók; og væri þó e.t.v. tímabært að benda á það sem málleysu.“

Það var vissulega rétt hjá Helga Hálfdanarsyni árið 1984 að líta við í merkingunni 'koma við' eða 'líta inn' fannst þá ekki í neinum orðabókum. En alkunna er að ýmis orð og merkingar sem til eru í málinu hafa ekki komist í orðabækur, og það tekur tíma fyrir ný orð og merkingar að komast þangað inn. Ljóst er að þessi merking er a.m.k. hátt í aldargömul, því að í Vísi 1930 auglýsir skóverslun: „Þegar þér þurfið á bamaskófatnaði að halda, þá gerið svo vel og líta við hjá okkur.“ Eftir 1950 verður merkingin algeng. Hún komst loks inn í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 2002, að vísu merkt !? sem táknar að hún njóti ekki fullrar viðurkenningar, en hins vegar er hún nefnd alveg athugasemdalaust í Íslenskri nútímamálsorðabók.

Eins og áður kom fram segir í Gætum tungunnarlíta við merki 'að líta um öxl, horfa til baka' og Guðni Kolbeinsson sagði: „Líta við merkir bara að snúa höfðinu og líta um öxl.“ En aðeins örfá dæmi frá seinustu árum á tímarit.is hafa þá merkingu. Hvorki Helgi né Guðni nefnir hins vegar að sambandið getur einnig tekið með sér nafnlið og hefur þá aðra merkingu sem er oftast höfð með neitun – líta ekki við einhverju í merkingunni 'vilja ekki, kæra sig ekki um, hafa ekki áhuga á, virða ekki viðlits'. Við það bætist að í fornu máli merkti sambandið líta við einhverjum 'líta á, horfa í átt til' – „Konungur leit við honum og þagði“ segir í Heimskringlu. En sú merking er að mestu eða öllu leyti horfin í nútímamáli.

Við snögga skoðun á tímarit.is sýnist mér að þótt merkingin 'líta inn, koma við' hafi ekki komist inn í aðra útgáfu Íslenskrar orðabókar 1983 hafi þetta verið algengasta merking sambandsins líta við a.m.k. frá því um 1970, og yfirgnæfandi meirihluti dæma frá þessari öld hefur þá merkingu. Ég veit ekki hvort einhvers staðar er enn verið að fetta fingur út í þessa notkun sambandsins – ég hef ekki rekist á nýlegar athugasemdir við hana og hún er t.d. ekki nefnd í Málfarsbankanum. Þótt líta við hafi vissulega aðrar merkingar líka veldur það engum misskilningi. Það væri auðvitað fráleitt að amast við merkingu sem er hátt í aldargömul í málinu og er greinilega aðalmerking sambandsins í nútímamáli.