Opnun og lokun getur verið ástand
Orðið opnunartími er tíður gestur í málfarsumræðu og bar nýlega á góma í Facebook-hópnum Málspjall. Ég hef skrifað pistil um þetta orð en finnst ástæða til að hnykkja á nokkrum atriðum í sambandi við það. Orðinu er einkum fundið tvennt til foráttu: Að það sé „ekki gott“ sem ég veit ekki alveg hvað merkir, e.t.v. ljótt – og svo að það sé „órökrétt“. Í greininni „Opnunartími – Hve lengi er verið að opna?“ í Morgunblaðinu 1988 skrifaði Árni Böðvarsson: „Við tölum um að opna og loka íláti, húsi og ýmsu fleiru. Nafnorð um þessar athafnir eru opnun og lokun. Merking þeirra er – eða á að vera – hin sama og sagnorðanna. Þá er opnunartími sá tími þegar opnað er, verið er að opna, en lokunartími þegar verið er að loka.“
Sömu rök má finna víða, t.d. í pistlum Gísla Jónssonar og Jóns G. Friðjónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu. „Ekki tekur nema andartak að opna búðina“ sagði Gísli, og opnunartími væri því „sem örskotsstund, þegar snúið er lykli eða handfang hreyft“. Og í bréfi sem Jón birti var sagt: „Þegar sagt er að opnunartími verslunar sé frá 9:00 til 18:00, þá er, stranglega til tekið, því lýst, að verið sé að opna verslunina allan liðlangan daginn, eða alls í 9 klukkustundir.“ En við þetta er ýmislegt að athuga. Tengslin milli sagna og nafnorða sem leidd eru af þeim með viðskeytinu -un eru alls ekki alltaf þau sömu – þótt merking nafnorðanna sé oftast 'það að gera' vísa þau líka stundum til ástands sem leiðir af verknaðinum.
Það er alls ekki svo að orðið opnun vísi alltaf til verknaðar eða atburðar sem taki aðeins örskotsstund. Í Morgunblaðinu 1965 segir: „Ef til vill er tímabundin opnun landhelginnar spor í þá átt.“ Í Fréttablaðinu 2013 segir: „Um tímabundna opnun er að ræða í sumar en ef vel tekst til verður áframhaldandi opnun næsta sumar.“ Í Norðurlandi 1906 er birt fjögurra erinda kvæði sem sagt er hafa verið flutt „við opnun sýningar „Iðnaðarmannafélags Akureyrarkaupstaðar“ 26. júní 1906“. Varla dettur fólki í hug að kvæðið hafi allt verið flutt á þeirri örskotsstund sem það tók að opna dyr sýningarsalarins. Hliðstæð dæmi þar sem opnun vísar til atburðar eða ástands sem stendur yfir í nokkurn tíma eru ótalmörg.
Sama gildir um lokun. Þótt það taki oftast aðeins örskotsstund að loka, rétt eins og opna, getur nafnorðið lokun vísað til verknaðar eða atburðar sem stendur yfir í nokkurn tíma. Þannig segir t.d. í Morgunblaðinu 1965: „Fyrri lokun vegarins var gerð klukkan átta í morgun að ísl. tíma og var henni aflétt klukkan ellefu.“ Í Morgunblaðinu 1979 segir: „Með ströngu eftirliti og tímabundnum lokunum veiðisvæða ætti að vera unnt að koma í veg fyrir þetta að mestu leyti.“ Í Fréttablaðinu 2021 segir: „Þá hefur mat eigna lækkað í kjölfar faraldurs, rekstrarerfiðleika og tímabundinnar lokunar.“ Í öllum þessum tilvikum, og ótalmörgum öðrum, er ljóst að lokun vísar ekki til einstaks atburðar sem tekur örskotsstund, heldur til viðvarandi ástands.
Það er sem sé ljóst að nafnorðin opnun og lokun geta vísað til verknaðar eða ástands sem stendur yfir í nokkurn tíma. Og þegar að er gáð er það ekki heldur svo að sagnirnar opna og loka vísi alltaf til einhvers sem stendur bara yfir í örskotsstund. Í Fiskifréttum 2016 segir: „Er rætt var við Ægi beið hann eftir því að ákveðið hólf eða hafsvæði yrði opnað fyrir siglingum frá kl. 17:00 til 05:00 að íslenskum tíma.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Þetta er í fjórða skipti sem þeir opna tímabundið verslun af þessu tagi.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Af þeim sökum stóð til að loka hluta Miklubrautar frá miðnætti til kl. 6 í morgun.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir „stendur til að loka göngunum frá 5. til 7 júní“. Sambærileg dæmi eru fjölmörg.
Það er því ekki nokkur leið að hafna orðinu opnunartími á þeim forsendum að það sé „órökrétt“ eða „ætti að“ merkja eitthvað annað. Það er fjöldi viðurkenndra fordæma fyrir því að bæði opna og opnun vísi til athafnar eða ástands sem stendur yfir í lengri tíma. Það er ekki heldur hægt að amast við opnunartíma á þeim forsendum að það sé hrá yfirfærsla á opening hours í ensku eins og nefnt hefur verið. Elsta dæmi um orðið er hundrað ára gamalt, frá því löngu áður en enska fór að hafa áhrif á íslensku að ráði. Miklu nær er að segja að danska orðið åbningstid liggi að baki. Eftir sem áður getur fólki auðvitað fundist orðið opnunartími ljótt og amast við því á þeim forsendum, en slík smekksatriði eru ekki til umræðu hér.