Er sægur gelískra tökuorða í íslensku?

Í nýrri bók er því haldið fram að gelísk orð í íslensku skipti hundruðum eða þúsundum og gelíska hafi jafnvel verið töluð á Íslandi á undan norrænu. Í umræðu á Facebook um daginn lýsti ég efasemdum um þetta út frá þeim dæmum sem ég hafði séð úr bókinni en tók fram að ég hefði ekki lesið hana. Nú hef ég rennt í gegnum bókina – að vísu ekki lesið hana alla frá orði til orðs en leitað vandlega að rökum fyrir þessum miklu gelísku áhrifum á málið. Þau er ekki að finna í bókinni – allt er byggt á tilgátum. Þótt hundrað öftustu síður bókarinnar séu skrá um ýmiss konar íslensk orð sem gætu verið komin úr gelísku að mati höfundar eru ekki færð nein rök fyrir því og ekki vísað í neinar heimildir.

Dr. Helgi Guðmundsson prófessor emeritus hefur rannsakað þetta mál mjög mikið og kannað mikinn fjölda heimilda. Í Íslenskri orðsifjabók hefur Ásgeir Blöndal Magnússon einnig skýrt megnið af þeim orðum sem fjallað er um í bókinni Keltar á annan hátt en þar er gert. Báðir eru lærðir málfræðingar sem byggja umfjöllun sína á þekkingu á málsögu og orðsifjafræði. Tenging íslenskra orða við gelísk orð í áðurnefndri bók virðist hins vegar einkum byggð á yfirborðslíkindum í rithætti og merkingarlíkindum sem stundum eru langsótt, án tillits til framburðar, hljóðsögu og hljóðþróunar – og án nokkurs tillits til annarra skýringa sem hafa verið settar fram eða tilrauna til að hrekja þær.

Í bókinni Um haf innan fjallar Helgi um þau gelísku tökorð sem hann hefur fundið í íslensku og telur þau alls 46 – hvorki hundruð né þúsundir. Hann segir að mörg önnur orð hafi „verið talin til gelískra tökuorða, og mörgum upprunaskýringum [...] verið varpað fram án rökstuðnings. Hér er reynt að vinza úr og aðeins það tekið með, sem telst nokkuð sennilegt eða öruggt. Þó er hætt við, að hér sé frekar oftalið en vantalið.“ Í inngangi að skrá og ítarlegri umfjöllun um þessi orð segir Helgi svo: „Margs er að gæta við athugun á orðum, sem má ætla, að séu komin úr gelísku í norræn mál. Þar verður margt að koma heim, til þess að öruggt geti talizt, eða að minnsta kosti sennilegt, að þau séu tökuorð. Það er í stuttu máli þetta.

Myndir orðanna verða að koma saman. Hljóðkerfi norrænu og gelísku voru ólík, og orð breytast, þegar þau flytjast milli mála. Í sumum tilvikum svarar til hvers hljóðs í norrænu það hljóð, sem var líkast í gelísku. Ef einhver frávik eru frá því, verður að leita skýringar. Orð verða einnig að koma saman að merkingu. Stundum eru þar frávik, og þá er að reyna að finna, hvernig á því stendur. Um gelísk orð verða að vera góðar heimildir í gelísku málunum, eða einhverju þeirra, helzt gamlar. Stundum getur verið um að ræða tökuorð í gelísku úr öðrum málum. Norrænt orð getur ekki talizt tökuorð, nema það sé einangrað í norrænu og ekki sé hægt að finna norrænan uppruna þess.“

Ekkert bendir til þess að í umræddri bók hafi verið hugað að þeim forsendum sem Helgi nefnir að þurfi að vera til staðar til að hægt sé að halda því fram að um gelísk tökuorð sé að ræða. Fyrir utan það sem þar er nefnt þarf vitanlega að hafa í huga að þótt norræna og gelíska séu vissulega ekki náskyldar eru hvort tveggja indóevrópsk mál og því má búast við fjölda skyldra orða í málunum án þess að um áhrif annars á hitt sé að ræða. Þegar sameiginleg rót er í íslensku og gelísku orði svipaðrar merkingar er m.ö.o. langlíklegast að bæði orðin megi rekja beint til indóevrópsku. Þar að auki er vitað að ýmis norræn orð komust inn í gelísku á sínum tíma þannig að áhrifin geta líka verið í þá átt.

Meðal þess sem nefnt er til að rökstyðja gelísk áhrif á íslensku er að aðblástur sé „líkur í íslensku og skoskri gelísku“. Athugið að þarna er talað um skoska gelísku þótt áhrifin séu annars oftast rakin til írsku, en þar er enginn aðblástur. Reyndar hefur lengi verið talið að áhrifin séu í hina áttina, að aðblásturinn í skosk-gelísku sé tilkominn fyrir áhrif frá norrænu, en nýjar rannsóknir benda hins vegar til að aðblásturinn í skosk-gelísku sé sjálfstæð þróun. En þar fyrir utan er ekki eins og íslenska sé eina Norðurlandamálið sem hefur aðblástur. Hann er líka að finna í nokkrum norskum mállýskum, og einnig í samísku. Það kippir grundvellinum undan þeirri hugmynd að íslenski aðblásturinn sé tilkominn fyrir gelísk áhrif.

Önnur rök sem nefnd eru fyrir gelískum áhrifum á íslensku eru þessi: „Þá nota Skotar forsetningar til að afmarka eign eins og gert er á íslensku, t.d. þegar sagt er hausinn á mér, hjartað í mér. Þetta er ólíkt því sem tíðkist í hinum Norðurlandamálunum.“ En þetta er ekki heppilegt dæmi. Í fornu máli var nefnilega sagt höfuð mitt, hjarta mitt. Notkun forsetninga í slíkum tilvikum, um „órjúfanlega eign“ eins og líkamshluta og líffæri, er nýjung í íslensku. Vissulega gömul nýjung, frá 14.-15. öld, en samt sem áður þýðir þetta að ekki er hægt að nota þessa setningagerð sem rök fyrir gelískum áhrifum á íslensku vegna þess að á þeim tíma hljóta slík áhrif að hafa verið horfin fyrir löngu – ef þau voru einhvern tíma til staðar.

Það má vel vera að gelísk áhrif séu áberandi á öðrum sviðum íslenskrar sögu og menningar, t.d. í fornleifum og þjóðsögum. Um það hef ég ekki forsendur til að dæma. En það sem sagt er í umræddri bók um mikil gelísk áhrif á tungumálið stenst enga skoðun.