Ögurstund

Orðið ögurstund er skemmtilegt dæmi um gamalt orð sem hefur nýlega verið endurvakið. „Það verður ögurstund á morgun. Annað hvort ná menn þessu saman eða ekki“ hafði Fréttablaðið eftir Vilhjálmi Birgissyni 1. desember. Þetta er ævagamalt orð, kemur fyrir í síðasta erindi Völundarkviðu, og í Íslenskri orðsifjabók segir Ásgeir Blöndal Magnússon að talið hafi verið að það merkti þar ‚angursstund‘ eða ‚frygðar- eða lostastund‘. Í Lexicon Poeticum er merkingin hins vegar talin óviss en líklega 'ulykkesstund' eða 'byrdefuld, trykkende stund'. Í Íslenskri orðabók er það sagt merkja 'stund sem er þrungin mikilvægi, örlagarík stund' og þannig er það oftast notað í nútímamáli eins og dæmið hér í upphafi sýnir.

Ásgeir Blöndal skrifaði grein um orðið í Sjötíu ritgerðir helgaðar Jakobi Benediktssyni árið 1977, en þar sagðist hann fyrst hafa rekist á orðið í nútímamáli hjá Matthíasi Johannessen í Morgunblaðinu 1971. Þar segir Matthías: „Ögurstund er ekki hjá Blöndal. Það er vestfirzkt. Ég lærði það af Jóni Ormari á Sauðárkróki sem allt veit. Það merkir víst: kyrrðin í hafinu rétt eftir háflæði eða háfjöru.“ Ásgeir spurðist svo fyrir um orðið og kom í ljós að það var víða þekkt í töluðu máli. Um þetta sagði Matthías síðar, í Morgunblaðinu 1990: „Ég hirti ögurstund af vörum manns norður í landi og Ásgeir Blöndal Magnússon fjallaði um það sérstaklega af því tilefni. Upprisið úr Eddu er það nánast orðið tízkuorð nú um stundir.“

Það eru orð að sönnu. Á tímarit.is eru aðeins 39 dæmi um orðið fram til 1972, en árið 1973 koma allt í einu 270 dæmi! Skýringin er sú að það haust var verið að sýna leikrit eftir Edward Albee sem á íslensku nefndist „Ótrygg er ögurstundin“ (virðist reyndar hafa heitið „Á ögurstund“ fram undir frumsýningu) og flest dæmin eru úr auglýsingum um sýningar á því. Orðið var þá svo ókunnuglegt að ástæða þótti til að skýra það í fréttum af frumsýningu leikritsins. Þýðandi þess var Thor Vilhjálmsson, sem á þannig heiðurinn af að koma orðinu aftur í almenna notkun. Eftir að hætt var að sýna leikrit Albees datt notkun orðsins niður fyrst um sinn en fór fljótlega að aukast aftur, sérstaklega á tíunda áratugnum og eftir aldamótin.

Í bókinni Orð að sönnu aðhyllist Jón G. Friðjónsson skýringu Lexicon poeticum að merking orðsins í Völundarkviðu sé 'ógæfustund; þungbær og þrúgandi stund' „og kann hún að vera undanfari nútímamerkingarinnar 'úrslitastund, örlagastund'“ segir Jón. Í þeirri merkingu er orðið mjög algengt síðustu þrjá áratugina, ekki síst í íþróttalýsingum og umfjöllun um ýmiss konar samningaviðræður. Stundum getur líka tognað á ögurstundinni eins og fram kom í dag í svari Kristjáns Þórðar Snæbjarnarson forseta ASÍ við spurningu Ríkisútvarpsins „Það er talað um að þið séuð á ögurstundu – er hún núna?“ Kristján svaraði: „Þessi ögurstund er búin að vera í gangi í svolítinn tíma og hún er enn þá svolítið í gangi, það myndi ég segja.“