Úrelt söguskoðun – úreltur málstaðall

Í fyrradag hlustaði ég á afbragðsgott viðtal við Helga Þorláksson prófessor emeritus um nýja bók hans, Á sögustöðum – sem ég þarf endilega að lesa. Þar talar hann um hversu söguskoðun rómantíkur og sjálfstæðisbaráttu á 19. öld er lífseig – um gullöldina á þjóðveldisöld, um hnignun eftir að Íslendingar misstu sjálfstæðið 1262, um það hvað erlend áhrif væru vond, o.s.frv. Þetta er skoðun sem hentaði vel í sjálfstæðisbaráttunni, að tengja saman erlent vald og hnignun annars vegar og sjálfstæði og blómaskeið hins vegar. Hún er hins vegar á ýmsan hátt röng og sagnfræðingar hafa verið að endurskoða hana frá því á sjöunda áratugnum en þjóðin er samt að miklu leyti föst í henni enn – af því að hún hentar svo mörgum, sagði Helgi.

Þessi tenging náði til allra sviða þjóðlífsins. Efnahagsleg hnignun var talin hafa tengst missi sjálfstæðis og auknu sjálfstæði myndi fylgja bættur hagur. Bestu bókmenntir Íslendinga voru líka taldar skrifaðar á þjóðveldistímanum og upp úr honum en eftir missi sjálfstæðis hefði bókmenntunum hnignað. Sama máli gegnir um tungumálið, íslenskuna. Á sama tíma og verið var að upphefja þjóðveldistímann sem efnahagslega og menningarlega gullöld var tungumál þrettándu aldar, mál gullaldarbókmenntanna, líka upphafið og gert að fyrirmynd en allar breytingar sem síðan hefðu orðið kallaðar hnignun og reynt gera þær afturrækar margar hverjar, hvort sem voru breytingar á beygingu, dönsk tökuorð eða eitthvað annað.

En eins og í sögunni er málið flóknara. Íslenskan á 12. og 13. öld var hvorki einsleit né dauðhreinsuð. Á þeim tíma voru t.d. miklar breytingar að verða á sérhljóðakerfi málsins þar sem aðgreinandi sérhljóðum fækkaði verulega. Það var ekki til nein samræmd stafsetning og enginn ritmálsstaðall, og í handritum koma fram ýmis tilbrigði í máli sem venjulegir lesendur á 21. öld hafa ekki hugmynd um, vegna þess að almenningsútgáfur forntexta fylgja þeim málstaðli sem búinn var til á 19. öld fyrir fornmálið. Ýmislegt af því sem nú er kallað „málvillur“ er þegar að finna í fornum textum, t.d. eignarfallið föðurs af faðir, lýsingarháttinn ollað í stað valdið af valda, o.m.fl. En okkur var ekki sagt þetta – af því að það hentaði ekki.

Íslandssaga Jónasar frá Hriflu mótaði söguskoðun margra kynslóða Íslendinga á 20. öld, og á sama hátt mótaði Íslensk málfræði Björns Guðfinnssonar hugmyndir Íslendinga um það hvernig íslenskan væri og ætti að vera – hugmyndir um „rétt“ mál og „rangt“ sem höfðu að verulegu leyti gullaldarmálið að fyrirmynd. Þær hugmyndir hentuðu líka mörgum. Þær hentuðu þjóðernissinnuðum stjórnmálamönnum úr ýmsum flokkum sem ömuðust við öllum erlendum áhrifum. Þær hentuðu valdhöfum sem notuðu tungumálið sem valdatæki til að halda ákveðnum þjóðfélagshópum niðri. Þær hentuðu skólayfirvöldum til að flokka nemendur. Og þær henta fólki sem er sannfært um að unga fólkið sé að fara með íslenskuna í hundana.

En hvers vegna er hin gamla söguskoðun svona lífseig? Helgi Þorláksson sagði: „Þetta bara er mjög sterk skoðun og það er svona skýr mynd og skörp – þess vegna er hún lífseig og menn bara eru ekki tilbúnir að afneita henni eða víkja frá henni og þá spyrja menn hvað kemur í staðinn – það er bara einhver upplausn og vitleysa.“ Svipað er þetta með íslenskuna. Það er einfalt og þægilegt að trúa á skiptingu í „rétt“ mál og „rangt“ – það er líka „skýr mynd og skörp“. Það er bara vesen ef farið er að halda því fram að málið sé flóknara. Þess vegna er því oft haldið fram að ef eitthvað er slakað á í leiðréttingum og umvöndunum, ef eitthvað er viðurkennt sem hefur verið talið „rangt“, þá verði afleiðingin „einhver upplausn og vitleysa“.