Orðræðugreining – upprifjun

Yfirlýsingar íslenskra útgerðarfyrirtækja sem þau birta eftir að hafa lent milli tannanna á fólki vegna starfshátta sinna eru eiginlega sérstök bókmenntagrein, einkar forvitnileg fyrir áhugafólk um orðræðugreiningu – sem við ættum öll að vera, til að geta séð í gegnum hvernig stjórnvöld og valdamikil öfl beita tungumálinu sér í hag. Ég hef áður greint hér afsökunarbeiðni Gunnvarar og fyrri og seinni afsökunarbeiðni Samherja og nú bættist ein í sarpinn – yfirlýsing Brims vegna framkomu við skipverja á einum togara fyrirtækisins. Sú „afsökunarbeiðni“ birtist á vef fyrirtækisins í gær.

„Brimi þykir miður hvernig mál fyrrum starfsmanns félagsins hafa þróast en hann var sjómaður um borð á skipi félagsins á sjó úti þegar fréttir bárust af sorglegum atburði á Blönduósi fyrr á árinu þar sem fjölskylduvinir sjómannsins voru fórnarlamb árásar. Brim harmar að verkferlar félagsins hafi brugðist í þessu máli. Mikilvægt er að fyrirtækið sýni starfsfólki og aðstendum þess samúð og skilning við eins erfiðar aðstæður og komu upp í þessu tilviki. Brim mun endurskoða verkferla félagsins og viðbrögð við erfiðum áföllum starfsfólks. Að öðru leiti [svo] mun Brim ekki tjá sig um málefni einstakra starfsmanna félagsins.“

Brimi þykir miður hvernig mál fyrrum starfsmanns félagsins hafa þróast.“ Engin ábyrgð er tekin á uppsögn starfsmannsins – bara sagt að fyrirtækinu „þyki miður“ hvernig málin hafa „þróast“. Eina „þróunin“ sem varð í þessu máli var að starfsmanninum var sagt upp og það er eins og sú „þróun“ sé ekki á nokkurn hátt af völdum fyrirtækisins, hvað þá á ábyrgð þess. Þetta kemur skýrt fram í því að notuð notuð er miðmyndin þróast. Miðmyndin er hér eins og oft án geranda og þjónar þannig, eins og þolmynd, því hlutverki að koma sökudólgnum í skjól – þetta bara gerist án þess að nokkur valdi því.

Brim harmar að verkferlar félagsins hafi brugðist í þessu máli.“ Hér er notað orðið verkferlar sem er eiginlega hálfgert tískuorð og gegnir oft því hlutverki að láta fólk halda að til séu ákveðnar og fastmótaðar reglur til að bregðast við tilteknum aðstæðum. Ekkert kemur fram um hvernig þessir „verkferlar“ séu. En hvort sem þeir eru til eða ekki er ljóst að það voru ekki þeir sem brugðust – það var fólkið sem átti að vinna eftir þeim. Eðlilegt hefði verið að segja „Brim harmar að stjórnendur fyrirtækisins fóru ekki eftir verkferlum þess“ í stað þess að skjóta sér á bak við óskilgreinda „verkferla“.

Mikilvægt er að fyrirtækið sýni starfsfólki og aðstendum þess samúð og skilning við eins erfiðar aðstæður og komu upp í þessu tilviki.“ Það er auðvelt að taka undir þetta, og gott að benda á mikilvægi þess að sýna samúð og skilning. En hér er ekki nefnt að það var einmitt það sem var ekki gert í umræddu tilviki. Að setja þetta svona fram sem stefnu fyrirtækisins, án þess að nefna að framkvæmdin hafi verið þveröfug, er augljóslega gert í því skyni að skapa velvild lesenda til fyrirtækisins – fá þá til að hugsa: „Já, þetta er alveg rétt. Það er greinilegt að þetta er fyrirtæki sem ber vellíðan starfsfólksins fyrir brjósti.“

Brim mun endurskoða verkferla félagsins og viðbrögð við erfiðum áföllum starfsfólks.“ Hér eru verkferlarnir aftur gerðir að hinum raunverulega sökudólgi og sagt að þá þurfi að „endurskoða“, en fyrr í yfirlýsingunni var sagt að þeir hefðu „brugðist“. Það fer ekki alveg saman, en hvað sem því líður er ljóst að þarna eins og annars staðar í yfirlýsingunni er verið að draga athyglina frá stjórnendum fyrirtækisins og koma henni yfir á ófullkomið regluverk. En það skiptir ekki máli hversu góðir verkferlarnir eru ef ekki er farið eftir þeim. Það er það sem þarna hefði átt að leggja áherslu á.

Það vekur líka athygli að alls staðar er talað í nafni fyrirtækisins en ekki stjórnenda þess. „Brimi þykir miður“, „Brim harmar“, „Brim mun endurskoða“, „mun Brim ekki tjá sig“. Fyrirtæki er ekki manneskja. Fyrirtæki þykir ekkert miður. Fyrirtæki harmar ekkert. Fyrirtæki endurskoðar ekkert. Fyrirtæki tjáir sig ekki. Fyrirtæki ber ekki ábyrgð. Allt gengur þetta út á það að gera þá starfshætti sem gagnrýndir hafa verið ópersónulega og draga athyglina frá því að auðvitað er það fólk – stjórnendur fyrirtækisins – sem tekur þær ákvarðanir sem um er að ræða og ber ábyrgð á þeim.

En svo kemur þessi yfirlýsing ekki heldur beint frá stjórnendum Brims – á vef Vísis segir að hún hafi borist fjölmiðlum frá „almannafyrirtæki“ (væntanlega almannatengslafyrirtæki). Það er svo sem augljóst að þessi texti er saminn af fólki sem hefur það að atvinnu að beita tungumálinu á þann hátt sem gagnast viðskiptavininum best – og í sjálfu sér ekkert við það að athuga. En að lokum er rétt að benda á að þrátt fyrir að tónninn í yfirlýsingunni sé iðrunarfullur á yfirborðinu og sú tilfinning eigi að sitja eftir hjá lesendum að fyrirtækinu þyki þetta allt saman ákaflega leitt er ekki vottur af afsökunarbeiðni þarna.