Hvernig beygist fjórir?

Beyging töluorðsins fjórir er í nokkuð föstum skorðum en þó má finna ýmis dæmi um tilbrigði í henni. Stundum er talað um fjóran og hálfan vinning og þótt orðið beygist venjulega aðeins sterkt kemur fyrir að það sé beygt veikt, hinir fjóru stóru. En helstu tilbrigðin eru í þeim myndum sem hafa stofninn fjögur-, þ.e. nefnifalli og þolfalli í hvorugkyni og svo eignarfalli allra kynja. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er eignarfallið sagt vera annaðhvort fjögurra eða fjögra. Í fornu máli var eignarfallið fjögurra (eða fiogurra) en myndin fjögra er komin til þegar á fimmtándu öld og verður síðar yfirgnæfandi – í Íslenzkri málmyndalýsingu Halldórs Kr. Friðrikssonar frá 1861 er hún ein gefin en myndin fjögurra ekki nefnd.

Þetta breytist á 20. öld. Í Islandsk Grammatik Valtýs Guðmundssonar frá 1922 er eignarfallsmyndin fjögra talin fyrst og síðan fjögurra, en fjegra haft í sviga. Samkvæmt tímarit.is er fjögra mun algengari mynd framan af en árið 1942 er fjögurra orðin algengari og síðan hefur sífellt dregið sundur með myndunum, og fjögra er nú orðin sárasjaldgæf. Ekki er gott að átta sig á því hvers vegna þessi breyting verður en e.t.v. hefur verið unnið gegn myndinni fjögra í kennslu. Til þess gæti bent að í Málfarsbankanum segir: „Eignarfallsmyndin fjögra á síður við í ritmáli.“ Ekki er ljóst á hverju það gildismat byggist, og báðar myndirnar eru gefnar athugasemdalaust í Íslenskri málfræði Björns Guðfinnssonar.

Í Íslenzkri málfræði Jakobs Jóh. Smára frá 1932 er myndin fjögurra höfð fyrst og svo fjögra, en síðan segir að eignarfallið sé „nú oft fjegra eða jafnvel fjagra (í tali), sem er myndað eftir „spök – spakra“. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er sagt að ritmyndinni fjagra bregði fyrir „í nýlegum textum“. Elsta dæmi um hana á tímarit.is er þó frá 1909 og dæmi eru um hana frá öllum áratugum 20. aldar, alls um 80, en sennilega hefur hún lengi verið mun útbreiddari í talmáli eins og orð Jakobs Jóh. Smára benda til, þótt hún hafi lítið komist á prent. Til þess bendir einnig það að af 490 dæmum um hana í Risamálheildinni eru 450 af samfélagsmiðlum þar sem málsniðið er mun óformlegra og nær töluðu máli.

Myndin fjagra er í sjálfu sér mjög eðlileg. Upphaflega hljóðið er þarna e en ö-ið í fjögurra er tilkomið fyrir áhrif u í næsta atkvæði (hljóðbreyting sem nefnist klofning). Þegar þetta u fellur brott í styttri myndinni fjögra er upphaflega forsendan fyrir ö-inu ekki lengur fyrir hendi og myndin fjagra liggur beint við, og styðst auk þess við beygingu lýsingarorða eins og Jakob Jóh. Smári benti á. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir að ritmyndirnar fjegra og fégra komi fyrir í eignarfalli en séu „nú mjög fágætar“. Það hafa þær reyndar alltaf verið – að viðbættri myndinni fjegurra eru innan við 30 dæmi um þær á tímarit.is, og aðeins sex í Risamálheildinni. Þær myndir eru því eiginlega horfnar, en fjagra sprelllifandi.

Nefnifall og þolfall í hvorugkyni var fjögur í fornu máli og er það oftast enn, en myndinni fégur (eða fjegur) bregður þó fyrir. Hún kom til um 1600 við afkringingu ö sem varð e á eftir j í ýmsum orðum eins og mjöl > mél, smjör > smér, kjöt > ket o.fl. Í Skírni 1923 segir Jóhannes L.L. Jóhannsson „myndirnar fjegur, mjel o.fl. enn með góðu lífi […]. Eg er ekki sá málhreinsill að eg amist við, að talað sé um orðmyndir, sem illa þykja rithæfar, ef þær í sannleika fyrirfinnast í talmáli.“ Í Íslandi 1929 segir aftur á móti að þessar myndir séu „ljótar og hafa allt af þótt órithæfar“, og í Alþýðublaðinu 1967 segir: „En ekki hef ég vitað fyrr að tíðkaðist að skrifa „fjegur“ fyrir „fjögur“ þótt sá framburður sé algengur.“

Í Þjóðviljanum 1960 sagði Árni Böðvarsson: „Ket og kjöt, smér og smjör, mél og mjöl eru allt jafnrétt orð. […] Sama er að segja um fégur og fjögur […]. Myndirn[ar] með é eru miklu fátíðari í tali en engu að síður fullgott ritmál.“ Í gildandi Ritreglum segir: „Valfrjálst er hvort ritað er smér, fégur eða smjer og fjegur. Ritháttur með je endur­speglar að í þessum orðum hefur gamalt orðið je (sbr. smjör, fjögur). Ritháttur með é er hins vegar í samræmi við almenna reglu um táknun hljóðasambandsins je.“ Á tímarit.is eru um 130 dæmi um fjegur/fégur en um 40 þeirra eru úr vísum þar sem orðmyndin er rímbundin og allnokkur úr málfræðilegri umfjöllun um hana. Í Risamálheildinni eru aðeins um 30 dæmi um orðmyndina.

Auk algengustu beygingarmynda töluorðsins fjórir hafa hér verið nefndar fleirtölumyndirnar fégur/fjegur og eignarfallsmyndirnar fjögra, fégra/fjegra, fjegurra og fjagra. Af þessum myndum virðist fégur/fjegur vera viðurkennd, þar eð þær myndir eru nefndar í Ritreglum og Íslenskri stafsetningarorðabók, og einnig fjögra, þótt sú mynd þyki síðri en fjögurra samkvæmt Málfarsbankanum. Myndin fjagra er hins vegar hvergi nefnd sem viðurkennd mynd í orðabókum eða málfræðibókum, svo að ég viti. En í ljósi aldurs hennar og tíðni, og þess að hún er í raun alveg regluleg og auðskýranleg, finnst mér engin ástæða til annars en telja þetta fullgilda eignarfallsmynd töluorðsins fjórir.