Blekkingarleikur dómsmálaráðherra

Í gær mátti sjá í fjölmiðlum óvenjuskýrt dæmi um hagræðingu stjórnvalda á tungumálinu til að slá ryki í augu almennings. Það sem hingað til hefur heitið rafbyssa heitir allt í einu rafvarnarvopn. Dómsmálaráðherra sagði um þetta: „Þetta er auðvitað byssa eins og hún lítur út. Það er skotið hlut í líkamann á manni sem að slær menn út í augnablik. En þetta er auðvitað fyrst og fremst varnarvopn […].“ En spurður um þetta orðalag segir formaður Landssambands lögreglumanna: „Við höf­um kosið að kalla þetta ekki byss­ur af því að við lít­um þannig á að þetta sé ekki síst til að verja lög­reglu­menn, að þetta sé einskon­ar sjálfs­varn­ar­vopn. En auðvitað er þetta notað til að yf­ir­buga það fólk sem stend­ur ógn á [svo].“

Í þessu felst tvenns konar afvegaleiðing eða blekking. Annars vegar mætti ráða af orðum formannsins að samsetningar af orðinu byssa séu eingöngu notaðar um vopn en því fer auðvitað fjarri. Við höfum orð eins og baunabyssa, heftibyssa, línubyssa, rásbyssa, snjóbyssa, teygjubyssa, úðabyssa, vatnsbyssa o.fl. sem ekki vísa til vopna í venjulegum skilningi þótt auðvitað megi segja að baunabyssur, teygjubyssur og vatnsbyssur séu stundum notaðar í eins konar „bardögum“. Hins vegar er látið í veðri vaka að einhver grundvallarmunur sé á „sjálfsvarnarvopnum“ og vopnum sem nota megi til árása – sem er auðvitað rugl, enda viðurkennir formaðurinn það í raun í síðustu setningunni sem hér er vitnað til.

Orðið rafbyssa er stutt, lipurt og lýsandi orð sem hefur verið talsvert notað í rúm 20 ár um það fyrirbæri sem hér um ræðir. Það er líka hlutlaust, segir ekkert til um notkunina, enda hægt að nota rafbyssur á margvíslegan hátt. Orðið rafvarnarvopn er stirt og klúðurslegt og auk þess mjög gildishlaðið. Þetta minnir svolítið á það þegar deilt var um hvað skyldi kalla bandaríska herinn á Keflavíkurflugvelli. Stuðningsmenn hans töluðu um varnarstöð og Varnarlið, sem var hið opinbera heiti, en herstöðvaandstæðingar töluðu um herstöð og herlið, enda væri þetta óneitanlega her, hver svo sem tilgangurinn með veru hans á Íslandi væri. Þessar deilur runnu út í sandinn þegar herinn fór úr landi og eru flestum gleymdar.

En ef við viljum vera nær okkur í tímanum minnir þessi blekkingarleikur líka á tal um sérstakar hernaðaraðgerðir í staðinn fyrir innrás.