klárlega

Nýlega sá ég amast við atviksorðinu klárlega í Málvöndunarþættinum og ekki í fyrsta skipti – það var sagt „tvímælalaust eitt af leiðinlegri orðum í nútímanum“. Mér sýnist í fljótu bragði að á milli 15 og 20 færslur í hópunum Málvöndunarþátturinn og Skemmtileg íslensk orð snúist að mestu um þetta orð, ævinlega til að kvarta undan (of)notkun þess, og iðulega spinnst af þessu langur þráður þar sem flestir þátttakenda eru á einu máli um að þetta sé ómögulegt orð. En hvað er það við orðið klárlega sem fer svona í taugarnar á fólki? Það er ekki eins og orðið sé nýtt – það kemur t.d. fyrir í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar frá 1540: „hann var svo lagfærður að hann sá allt klárlega.“ Fleiri dæmi frá svipuðum tíma eru um orðið.

Þetta var samt lengi sjaldgæft orð. Á tímarit.is eru aðeins 11 dæmi um það fram til 1930. Eftir það fjölgar dæmum svolítið og 122 bætast við fram til 1987. En þá tók orðið stökk og dæmum fjölgar töluvert fram að aldamótum en þó einkum eftir aldamót. Árin 1990-1999 eru dæmin um 500, en tíu sinnum fleiri, rúm fimm þúsund, árin 2000-2010. Það var því kannski ekki furða að sumum ofbyði, eins og þeim sem skrifaði í athugasemd á bloggsíðu Eiðs Guðnasonar árið 2010: „Mig langar að fá álit þitt Eiður á orðinu ,,klárlega“ sem er (of?) mikið notað af knattspyrnuþjálfurum og íþróttaþulum.“ Eiður svaraði: „Ég geri ekki athugasemd við orðið klárlega= hreinlega. Hinsvegar er hægt að jaska öllum orðum með því að ofnota þau.“

Í ársbyrjun 2013 mátti hins vegar lesa á bloggsíðu Eiðs: „Klárlega er tískuorð sem sennilega hverfur að mestu áður en langt um líður.“ Í sjónvarpsþættinum Orðbragð sem sýndur var síðla sama árs var henti Bragi Valdimar Skúlason einu „útjöskuðu“ orði í hverjum þætti og í einum þættinum var það einmitt klárlega sem hlaut þau örlög. Bragi sagði: „Klárlega er klárlega ofnotað orð. Þetta er svona einhvers konar poppstjörnuatviksorð sem hefur náð að smokra sér inn í málið og taka fram úr orðum eins og einmitt, auðvitað, að sjálfsögðu, og jafnvel hinu góða og gilda íslenska ókei sem er klárlega slæmt. Klárlega er ofnotað orð. Og við þurfum klárlega að losa okkur við það.“ Að svo mæltu setti hann blað með orðinu á í pappírstætara.

En ekki er alltaf hægt að setja eitthvert þeirra orða sem Bragi nefndi í stað klárlega. Í dæminu úr Nýja testamentinu sem vitnað var til hér að framan merkti orðið 'greinilega- og þá merkingu virðist það hafa í öllum dæmum vel fram á 20. öld. Um miðja öldina fara þó að sjást dæmi þar sem merkingin er eilítið önnur, eins og í Samvinnunni 1945: „Að þetta skuli ekki klárlega steindrepa þá.“ Annað dæmi er úr Íslendingi 1956: „Þegar Sjálfstæðismenn benda á einhver mál, sem þeir hafa gengist fyrir á Alþingi, nefna Framsóknarblöðin það „grobb“ ef ekki klárlega ósannindi.“ Hér merkir klárlega frekar 'hreinlega' eins og Eiður nefndi. En kringum 1970 fara að koma fram dæmi sem sýna dæmigerða notkun orðsins í nútímamáli.

Í Alþýðublaðinu 1968 segir um Gretu Garbo: „Hún mun klárlega halda sínu sjöunda innsigli.“ Í minningargrein í Morgunblaðinu 1970 segir: „Málalengingar og þref um hluti, sem lágu ljósir fyrir, áttu klárlega ekki við hann.“ Í þessum dæmum gæti merkingin verið 'greinilega' ef um ályktun höfundar væri að ræða. Samhengið sýnir hins vegar að þetta er ekki ályktun heldur staðhæfing – höfundur veit þetta. Merkingin er því fremur 'sannarlega, tvímælalaust'. Í sögu eftir Guðmund G. Hagalín í Vikunni 1971 segir: „nei, ég tek klárlega enga ábyrgð á því, að blikusvuntan þarna í norðrinu kunni ekki að hrista úr sér bráðum einhvern ósóma.“ Þetta er fyrstu persónu frásögn og því ljóst að um er að ræða staðhæfingu, ekki ályktun.

Eftir að notkun orðsins fór að aukast virðist merkingin langoftast vera 'sannarlega, tvímælalaust' eða 'örugglega'. Vissulega gæti eldri merkingin 'greinilega' líka stundum átt við vegna þess að lesanda eða áheyranda er ekki alltaf ljóst hvort um er að ræða ályktun eða staðhæfingu. Þannig er t.d. með dæmi úr DV 2021: „Símanotkun fyrir svefn hefur klárlega áhrif. Það er bæði birtan frá skjánum og svo bara áreitið sem ég held að sé enn þá mikilvægara.“ Er þetta niðurstaða byggð á einhverjum athugunum eða rannsóknum, eða er þetta staðhæfing? Það er ekki hægt að ráða af þessu dæmi þótt stærra samhengi sýni það kannski. En svo skiptir það sennilega engu máli fyrir skilning á setningunni.

Ég nota orðið klárlega mikið og átta mig ekki á því hvers vegna svona mörgum er í nöp við það. Það er gamalt í málinu og þótt merkingin hafi breyst svolítið er komin a.m.k. 50 ára hefð á þá notkun þess sem nú er algengust. Það verður ekki heldur séð að það sé að útrýma orðum eins og tvímælalaust, sannarlega, örugglega, einmitt, auðvitað og að sjálfsögðu sem flest eru mun algengari. Þótt orðinu hafi verið fargað í Orðbragði fyrir níu árum lifir það enn góðu lífi – en reyndar er rétt að nefna að samkvæmt tímarit.is virðist það hafa verið á toppnum árið 2013 og heldur vera á niðurleið síðan þótt ekki muni miklu þannig að e.t.v. hefur Orðbragð haft einhver áhrif. En ég ætla allavega að halda áfram að nota orðið.