Tómstundaanáll ársins

Það urðu ýmis tímamót í lífi mínu á þessu ári. Þann 1. febrúar varð ég tveggja aldarþriðjunga (66 ára og átta mánaða) gamall, og 1. júní varð ég löggilt gamalmenni – 67 ára. Ég er líka endanlega hættur að vinna – fór á eftirlaun um mitt ár 2018 en í byrjun árs 2019 fór ég í hlutastarf á Árnastofnun sem landsfulltrúi CLARIN, fyrst í 40% starfi en síðar 20% þar til í september 2021. Árið 2022 var því fyrsta heila árið sem ég er ekki í neinni launavinnu. Fyrri hluta ársins fór þó dálítill tími í að sinna tveimur evrópskum samstarfsnetum í máltækni sem ég tók þátt í og fór á lokaráðstefnu þeirra í Brussel í byrjun júní, en starfstíma netanna lauk um mitt ár. Á árinu gaf Mál og menning líka út bók mína Alls konar íslenska, sem er safn hundrað þátta um íslenskt mál á 21. öld, sprottin upp úr tómstundagamni mínu.

Þegar ég fór á eftirlaun fyrir hálfu fimmta ári auglýsti ég nefnilega eftir hugmyndum um viðfangsefni í tómstundum. Ég fékk tvær tillögur – ættfræði og golf. En mér fannst ég eiginlega búinn að afgreiða hvort tveggja. Veturinn sem ég var níu ára, 1964-1965, gerði ég fátt annað en grúska í ættfræði, las Íslenzkar æviskrár og ýmis önnur ættfræðirit spjaldanna á milli og skrifaði upp ættartölur. Síðan þá hefur gutlað á mér í ættfræði þótt ég hafi ekki sinnt henni mikið. Golf hef ég að vísu ekki stundað beinlínis, en hins vegar er ég sjóaður í girðingavinnu sem er mjög svipuð – rölt í góðum félagsskap frá holu til holu í þeim tilgangi að koma einhverju ofan í holurnar. Ég sé ekki allan mun á því hvort það er golfkúla eða girðingarstaur – allavega þykist ég vera búinn að afplána þetta og golfið heillaði mig því ekki.

Niðurstaðan varð því sú að halda bara áfram að gera það sem ég hef verið að gera undanfarin 40 ár – kenna og skrifa um íslenskt mál og málfræði. Kennslan er bara í svolítið öðru formi en áður – í stað þess að felast í fyrirlestrum og samtali við nemendahóp í kennslustofu felst hún í pistlum sem ég skrifa á Facebook og heimasíðu mína, og í svörum við spurningum fólks um mál og málnotkun. Ég byrjaði á pistlaskrifum haustið 2019 og stofnaði svo sérstakan Facebook-hóp haustið 2020 til að koma skrifunum á framfæri og koma upp vettvangi fyrir spurningar og svör. Frá upphafi hef ég skrifað 533 pistla um hvaðeina sem tengist máli og málnotkun, samtals um 290 þúsund orð. Að auki hef ég skrifað fjölmargar styttri færslur, svarað ótal spurningum, og skrifað mikinn fjölda athugasemda í umræðuþráðum.

Á þessu ári hef ég skrifað 178 pistla, eða að meðaltali fjóra pistlar á viku allt árið, að frádregnu sumarfríi, jólafríi og páskafríi. Pistlarnir eru tæp 100 þúsund orð samtals og hver pistill því að meðaltali rúm 550 orð. Þessir pistlar eru ólíkir innbyrðis og misjafnlega tímafrekir í samningu – suma skrifa ég nánast viðstöðulaust upp úr mér en aðrir krefjast verulegrar rannsóknarvinnu. Ég hugsa að ekki sé fráleit ágiskun að meðaltíminn sem fer í hvern pistil séu þrír til fjórir klukkutímar. Að viðbættum þeim tíma sem fer í að skrifa styttri færslur, svara spurningum og taka þátt í umræðum sýnist mér óhætt að segja að á árinu hafi ég verið í a.m.k. hálfu starfi við þetta áhugamál og líklega vel það. Auk þess hef ég á árinu flutt ein þrettán erindi af ýmsu tagi um málfræði, en fyrir sum þeirra hef ég reyndar fengið borgað.

Ég vona að þessi skrif hafi gagnast einhverjum sem vilja fræðast um tungumálið, þessa stórkostlegu og ótrúlegu sameign okkar allra – eðli þess og notkun, sögu og tilbrigði. Og ég vona líka að skrifin gagnist íslenskunni eitthvað – auki vitund fólks um að það skiptir máli að hugsa um hana, nota hana, halda henni að börnum, velta henni fyrir sér, og ræða hana – á jákvæðan hátt, með virðingu fyrir öðru fólki og málnotkun þess. Ég vona líka að mér takist að vekja fólk og fyrirtæki til vitundar um mikilvægi þess að nota íslensku en ekki ensku þar sem þess er nokkur kostur – nokkur dæmi eru frá þessu ári um gleðilegan árangur á þessu sviði. En ég geri þetta samt fyrst og fremst vegna þess að ég hef óskaplega gaman af því og gæti ekki hugsað mér skemmtilegri tómstundaiðju.