„Ótrúlega vinsæl, miðað við“

Nýtt jólalag Baggalúts, Myrra, hefst á línunum „Þau koma bara einu sinni á ári / ótrúlega vinsæl miðað við“. Út frá málhefð mætti eiga von á því að í næstu línu yrði nefnt eitthvert viðmið, en í staðinn kemur bara „Með öllu sínu óhófi og fári“. Vissulega kemur samanburðurinn fram þarna, þ.e. jólin eru ótrúlega vinsæl miðað við að þau koma bara einu sinni á ári – en til skamms tíma hefði samanburður komið á eftir miðað við. Vegna þess að ég er farinn að venjast því að heyra miðað við notað á þennan hátt, þ.e. án nokkurs samanburðar, kippti ég mér ekkert upp við þetta en hélt áfram að hlusta á þetta ágæta lag. Mér fannst samt ómaksins vert að skoða nánar þessa málnotkun og reyna að grafast fyrir um uppruna hennar.

Þótt það sé ekki langt síðan ég fór að taka eftir þessu er það ekki nýtt í óformlegu máli – a.m.k. tuttugu ára gamalt. Elsta dæmið í Risamálheildinni er af spjallvefnum Huga frá því árið 2002: „en darkness er cold og flestir sem ég veit af eru með frekar hátt cold resist miðað við, ég t.d er með um 31.%.“ Það er kannski ekki alveg ljóst hvernig á að greina þessa setningu og sama gildir um dæmi af spjallvefnum Bland 2003: „Ég er í 40% fæðingarorlofi líka með tæpar 93.000- á mánuði eftir skatta, held að ég sé á ágætis launum miðað við..“ Hér er endað á tveimur punktum sem gæti bent til þess að höfundur hafi talið eðlilegt að þarna kæmi eitthvert framhald, einhver viðmiðun, þótt hún sé ekki sett fram.

En ótvíræð dæmi koma fljótlega eftir þetta. Á spjallvefnum Málefnin var skrifað 2004: „Mér fannst maðurinn koma vel fyri[r] miðað við.“ Á Bland var skrifað 2004: „Hann sefur frá 12 á miðnætti til 12 á hádegi með því að vakna einu sinni til að drekka og fá hreina bleiu, stundum tvisvar, svo mér finnst ég fá góðan nætursvefn miðað við.“ Á sama spjallvef var skrifað 2005: „þá er alltaf hægt að koma með annan sem hefur það fínt, miðað við“ og „ég var á lyfjum en er það ekki í dag, hef náð nokkuð góðri heilsu miðað við.“ Eftir þetta fer dæmum um miðað við án eftirfarandi viðmiðs smátt og smátt fjölgandi á samfélagsmiðlum og í fréttum þar sem haft er orðrétt eftir viðmælendum – einkum er sambandið svona miðað við algengt.

Þetta sýnir að þessi málnotkun er orðið algeng í óformlegu máli, en í prentuðum miðlum hefur hún hins vegar verið mjög sjaldgæf fram undir þetta. Að vísu kemur fyrir dæmi í Morgunblaðinu 2005: „Förum við hins vegar seinni leiðina má segja að The Brothers Grimm sé barasta ágætis bíómynd, svona miðað við.“ En annars finn ég ekki dæmi fyrr en í Fréttablaðinu 2018: „Dóttir hans er þó við ágæta heilsu, miðað við.“ Ýmsum finnst þetta greinilega óeðlilegt – í DV 2018 segir viðmælandi: „Svo reyndar hef ég einu sinni fengið að heyra frá eldri konu sem ég var að afgreiða: „Þú talar mjög góða íslensku, svona miðað við.“ Ég hugsaði með mér „miðað við hvað?“ og tjáði konunni að ég væri nú Íslendingur.“

Mér finnst líklegast að þessi málnotkun eigi uppruna sinn í óákveðni málnotenda um hvaða orð eigi að nota um viðmiðið, og þess vegna sé oft hikað eða viðmiðinu alveg sleppt. Til þess bendir það að í dæmum þar sem haft er orðrétt eftir fólki er mjög algengt að miðað við sé tvítekið. Þannig segir t.d. í fréttum Bylgjunnar 2014: „við vorum þá undan vindi þannig að við höfðum vindinn í bakið miðað við, miðað við hraunið.“ Í fréttum RÚV 2016 segir: „Þetta er reyndar býsna stór skáli miðað við, miðað við aðra sem við þekkjum.“ Í fréttum Bylgjunnar 2021 segir: „Ekki miðað við, nei náttúrulega ekki miðað við stöðuna í dag.“ Í rituðu máli fara oft þrír punktar á eftir miðað við sem bendir til hins sama – óákveðni eða hiks.

Hliðstæð dæmi þar sem fallorði forsetningar sleppt ef merkingin er augljós eru fjölmörg í málinu. Þannig segir í Íslenskri málfræði Björns Guðfinnssonar: „Forsetningar verða að atviksorðum þegar fallorð þeirra falla brott. Dæmi: Báturinn er kominn . Hesturinn sökk í. Ég þakka fyrir.“ Þarna er sleppt t.d. land eða bryggja á eftir , mýri á eftir í, og matur á eftir fyrir. Ég sé ekki betur en sambandið miðað við falli alveg að þessu. Merkingin er þar augljós – 'miðað við aðstæður, miðað við það sem við er að búast, eftir atvikum'. Þegar fallorðinu er sleppt færist áherslan sem það hefði borið yfir á forsetninguna sem annars er áherslulaus, og í sambandinu miðað við fær lýsingarhátturinn miðað líka oft áherslu.

Sambandið miðað við fellur að þeim viðmiðum sem ég hef notað um hvenær tiltekið málbrigði sé orðið málvenja og þar með „rétt mál“ – það er orðið a.m.k. 20 ára gamalt, fjöldi fólks notar það, það er farið að sjást á prenti, og engin ástæða er til að ætla annað en börn sem tileinka sér það á máltökuskeiði haldi því á fullorðinsárum þótt ég hafi ekki sannanir fyrir því. Vitanlega þarf að venjast því eins og annarri nýbreytni í máli en það á sér ýmsar hliðstæður og merkingin ætti ekki að þvælast fyrir fólki. Eins og ég hef áður sagt finnst mér að við eigum almennt að fagna nýjungum í málinu að því tilskildu að þær gangi ekki beinlínis gegn málkerfinu. Og ekki förum við að fordæma texta Jónasarverðlaunahafans Braga Valdimars.