Örlög orðanna
Orðið loftskeytamaður er gamalgróið í íslensku – elstu dæmi um það eru frá 1906, og á tímarit.is eru hátt í tíu þúsund dæmi um orðið. Þetta orð var lengi að finna í lögum um áhafnir skipa, síðast í Lögum um áhafnir íslenskra kaupskipa nr. 59/1995 en þau lög féllu úr gildi við gildistöku Laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001. Í þeim lögum kemur orðið loftskeytamaður ekki fyrir, en í greinargerð með frumvarpinu segir: „Nokkur ný hugtök eru skilgreind sem hafa ekki verið skilgreind eða notuð í íslenskri löggjöf áður, t.d. fjarskiptamaður […]“ sem er „lögmætur handhafi skírteinis sem er gefið út eða viðurkennt af Siglingastofnun Íslands samkvæmt ákvæðum alþjóðaradíóreglugerðarinnar.“
Vissulega eru engir sérmenntaðir loftskeytamenn eftir lengur því að formlegt nám undir þeim hatti hefur ekki verið í boði frá 1980, en þegar lögin tóku gildi fyrir meira en 20 árum voru vitanlega margir menntaðir loftskeytamenn enn að störfum. En þótt menntunin væri önnur hefði verið hægt að halda starfsheitinu, enda ýmis dæmi þess að mismunandi menntun liggi á bak við sama starfsheiti – t.d. er starfsheitið hjúkrunarfræðingur notað bæði um þau sem útskrifuðust úr Hjúkrunarskóla Íslands og þau sem hafa háskólanám að baki. Það hefði mátt búast við háværum mótmælum við því að þetta gamalgróna starfsheiti væri fellt úr lögum, en ég finn engin dæmi um mótmæli frá þessum tíma, eða fjarskiptamaður sé kallað „orðskrípi“.
Þrátt fyrir að orðið fjarskiptamaður hafi þannig verið í lögum í meira en 20 ár verður ekki séð að það hafi komist inn í daglegt mál. Á tímarit.is eru innan við 20 dæmi um það frá þessum 20 árum, og í Risamálheildinni innan við 30 dæmi (að frátöldum dæmum úr þingskjölum). Aftur á móti eru yfir þúsund dæmi um orðið loftskeytamaður frá þessum sama tíma á tímarit.is og rúm 1600 í Risamálheildinni þannig að brottnám þess úr lögum hefur ekki drepið það. Það má líka nefna að hvorki háseti né kokkur koma fyrir í nýjum Lögum um áhafnir skipa án þess að gerðar hafi verið athugasemdir við það – fyrrnefnda orðið var í fyrri lögum en féll út núna en það síðarnefnda hefur ekki verið í lögum en er sprelllifandi í málinu.
Af þessu má draga tvær ályktanir. Önnur er sú að það þurfi ekki að vera mikið samhengi milli þeirra orða sem notuð eru í lögum sem eins konar íðorð og þeirra sem notuð eru í daglegu máli. Það er engin ástæða til annars en ætla að fiskimaður lifi jafngóðu lífi og áður þótt fiskari sé komið inn í lög í þess stað – og tilvist síðarnefnda orðsins í lögum tryggir því ekki líf í daglegu máli. Hin ályktunin er sú að breytingar á einstökum orðum í lögum veki yfirleitt litla athygli almennings og mæti ekki almennri mótstöðu – það sé fyrst þegar breyting á orðalagi er gerð undir þeim formerkjum að draga úr karllægni málsins sem allt fer upp í loft. Það er mjög athyglisvert.