Ósmekkleg orðanotkun

Andstæðingar breytinga á tungumálinu í átt til kynhlutleysis leggja venjulega áherslu á að málfræðilegt kyn og kynferði fólks sé tvennt óskylt. Þess vegna sé það misskilningur að málfræðilegt karlkyn tengist körlum eitthvað sérstaklega og því sé engin ástæða til að amast við notkun þess í almennri vísun, í samböndum eins og allir velkomnir o.þ.h. Þar sé karlkynið aðeins ákveðið form, en hafi engin tengsl við karlmenn umfram önnur kyn. Það er auðvitað rétt að það er ekki hægt að setja samasemmerki milli málfræðilegs kyns og kynferðis fólks, þótt tæpast sé heldur hægt að neita því að málfræðilegt karlkyn skapi iðulega hugrenningatengsl við karlmenn, a.m.k. hjá sumum málnotendum. En látum það vera.

En í ljósi þessarar afneitunar á tengslum málfræðikyns og kynferðis fólks er það mjög sérkennilegt svo að ekki sé meira sagt að í baráttu gegn breytingum í átt til kynhlutleysis skuli gripið til orða eins og afkynjun, gelding og (mál)vönun. Það eru orð sem eiga við sviptingu líffræðilegra kyneinkenna eða kynhvatar og með notkun þeirra verður ekki betur séð en einmitt sé verið að viðurkenna tengsl málfræðilegs kyns og kynferðis. En að því slepptu er notkun þessara orða um málbreytingar í átt til kynhlutleysis óheppileg og óviðeigandi af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að hún gefur ranga mynd af því sem um er að ræða, og hins vegar vegna þeirra neikvæðu hughrifa sem þessi orð vekja hjá flestum.

Fólk sem er svipt ákveðnum kyneinkennum eða kynhvöt með áðurnefndum aðgerðum hvorki missir kyn sitt né breytir um kyn – karlar halda áfram að vera karlar og konur halda áfram að vera konur. Breytingar á máli í átt til kynhlutleysis felast hins vegar iðulega í því að eitt málfræðilegt kyn kemur í stað annars. Í staðinn fyrir karlkynið allir velkomnir kemur hvorugkynið öll velkomin og í staðinn fyrir karlkynsorðið maður kemur kvenkynsorðið manneskja eða hvorugkynsorðið man. Stundum helst karlkynið m.a.s., eins og þegar fiskari kemur í stað fiskimaður. En við notum málfræðilegt kyn eftir sem áður – kvenkyn og hvorugkyn eru ekkert minni kyn en karlkynið. Þetta er engin afkynjun, gelding eða vönun.

Aðgerðunum afkynjun, geldingu og vönun er oftast beitt sem sérlega ógeðfelldum og grimmilegum refsingum eða hefndaraðgerðum í þjóðfélögum þar sem mannréttindi eru ekki á háu stigi – þótt reyndar væri einnig heimilt að beita þeim sem fyrirbyggjandi aðgerðum á Íslandi á síðustu öld. En óhætt er að segja að í huga flestra nútímamálnotenda veki þessi orð hrylling og ógeð. Augljóslega er það ástæðan fyrir því að andstæðingar breytinga í átt til kynhlutlausrar málnotkunar nota þau – þeim er í mun að tengja þessar breytingar við eitthvað sem málnotendum býður við. Þeim er þetta auðvitað í sjálfsvald sett, en þessi orðanotkun er einkar ósmekkleg og ómálefnaleg og ég efast um að hún sé málstaðnum til framdráttar.