Kynhlutlaust mál og jafnrétti
Umræðu um kynhlutlaust mál hættir til að vera nokkuð stóryrt og ekki alltaf í takt við veruleikann. Sagt hefur verið að breytingar í þá átt hafi „ekkert með frjálslyndi eða kvenréttindi að gera“ og snúist „ekki um jafnréttisbaráttu heldur ýmist um ofstæki, sýndarmennsku eða ótta við álit þrýstihópa“, enda sé „hrein fásinna að líta á þessa afbökun tungumálsins sem mikilvægt vopn í baráttunni fyrir jafnrétti“.
Í nýrri grein kemur fram sá lífseigi misskilningur að verið sé að amast við karlkynsorðum almennt séð og þar er hvatt til þess „að hætta að afskræma tungu okkar með bjánalegum tilburðum til einhvers konar rétttrúnaðartilburða í orðfæri“. En við færslu þar sem umræddri grein var deilt rakst ég á athugasemd frá manni sem er sjóaður í rekstri sprotafyrirtækja. Hann sagði:
„Á sama tíma má sýna fram á það að ef fólk temur sér fjölbreyttara orðaval og sneiðir hjá að karlgera allan andskotann, alltaf, þá hefur það jákvæð áhrif. T.d. er það hvetjandi fyrir (ungar) konur að taka þátt í nýsköpun ef við hættum að segja „þeir hjá [tilteknu fyrirtæki]“ og segjum í staðinn „þau hjá [tilteknu fyrirtæki]“, svo dæmi sé tekið. Við höfum fengið fleiri umsóknir frá konum þegar starfslýsingin notar jöfnum höndum hann og hún – og tuðpósta frá körlum þegar við notum eingöngu kvenkyn. Þetta skiptir verulegu máli.“
Þetta er það sem málið snýst um. Þótt talað sé um karllægni íslenskunnar þýðir það ekki að verið sé að ætla fólki sem talar það mál sem það ólst upp við einhverja karlrembu eða vilja til að mismuna kynjunum. Þannig er það sjaldnast, og þess vegna verðum við að gæta okkar að fordæma það ekki þótt fólk tali hefðbundna íslensku – og vilji halda í hana.
En þetta snýst ekkert um það. Þetta snýst um það að með málnotkun okkar getum við verið að senda ákveðin skilaboð – algerlega ómeðvitað og án þess að ætla okkur það. Viðtakendur þessara skilaboða eru líka oft ómeðvitaðir um þau – en þau geta samt haft áhrif. Tungumálið hefur sannarlega með jafnrétti að gera.