Að rutta/rútta til/út
Nýlega var spurt hér um uppruna sambandsins rútta til sem einnig er þekkt í myndinni rutta til. Í Íslenskri orðsifjabók kemur fram að sögnin rutta í merkingunni 'ryðja, hreinsa til' sé tökuorð, komin af dönsku sögninni rydde sem merkir 'ryðja'. Í Íslenskri orðabók er myndin rútta flettiorð en vísar á rutta sem er merkt „óforml.“ og fjögur sambönd með henni sýnd; rutta af, rutta frá, rutta til og rutta út. Tvö fyrrnefndu samböndin eru skýrð 'ljúka e-u (verki) í snatri' en rutta til er skýrt 'taka (lauslega) til' og rutta út er skýrt 'ryðja e-u út, rusla út'. Myndin rutta er flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og merkt „pop.“ Samböndin rutta af/frá eru skýrð á sama hátt og í Íslenskri orðabók, og rutta til er skýrt 'ordne i en Fart'.
Engin ástæða er til að efast um að skýring Íslenskrar orðsifjabókar á uppruna rutta sé rétt – merkingin er svipuð og í rydde og hljóðafar einnig. Eðlilegt er að í stað dansks y komi íslenskt u en hins vegar má velta fyrir sér hvers vegna íslenska sögnin hafi fengið -tt- og þar með aðblástur frekar en verða rudda sem myndi endurspegla danska ritháttinn eða ruða sem myndi endurspegla danska framburðinn. Óljóst er hvernig myndin rútta kom til en sögnin rútta var einnig til í málinu í merkingunni 'rússa, þjóra og slarka' – úr dönsku rutte með sömu merkingu. Hugsanlegt er að þessum sögnum hafi með einhverju móti slegið saman – framburðarmunur u og ú er ekki alltaf mikill og rutta studdist ekki við neina ættingja í málinu.
Elsta dæmi sem ég hef fundið um rutta er í Lögbergi 1897: „Það syrgir það ef gömlum blöðum er ruttað til og þau tekin úr vegi.“ Annars kemur orðið ekki fyrir fyrr en á fjórða áratugnum og fram um aldamót eru nokkur dæmi um það, en nær engin á þessari öld. Elsta dæmið um rútta er í Íslandi 1935: „Öllu er þar „rúttað“ til frá því sem áður var.“ Dæmum um rútta fer fjölgandi eftir 1970 þótt aldrei verði þau ýkja mörg, en um 50 dæmi eru þó í Risamálheildinni sem hefur aðallega að geyma texta frá þessari öld. Um helmingur dæmanna er af samfélagsmiðlum þannig að myndin rútta virðist vera lifandi í óformlegu máli. Myndin rutta virðist hins vera vera að hverfa – í Risamálheildinni eru aðeins þrjú dæmi um hana.
Sögnin kemur oftast fyrir í sambandinu rutta/rútta til sem merkir oft ekki beinlínis 'taka til' heldur fremur 'endurskipuleggja, færa til'. Þannig segir í Fálkanum 1961: „Þá notaði ég tækifærið og rúttaði dálítið til í geymslunni og henti út ónýtum pappakössum og öðru drasli.“ Og í Vikunni 1963 segir: „Nei, hún lætur hendur standa fram úr ermum og byrjar að rútta öllu til, þangað til allt húsið okkar er ein argasta ringulreið.“ Oft kemur fram að verið er að færa til húsgögn eða annað í þeim tilgangi að skapa rými. Þannig segir í Degi 1992: „Ruttað var til og dansinn stiginn til morguns í baðstofunni.“ Í Fréttablaðinu 2004 segir: „Læknishúsið rúmar 17 manns í kojum og stundum rútta menn til í stofunum tveimur og þétta raðirnar.“
Sambandið rutta/rútta út í merkingunni 'ryðja út, hreinsa út' er einnig algengt. Í Degi árið 2000 segir: „Tendraðu friðarljós og taktu til í hjartanu um leið og þú ruttar ruslinu út úr bílskúrnum.“ Í DV 2008 segir: „Við rúttuðum öllu út og bjuggum til þetta flotta svið.“ Dæmi eru einnig um rutta/rútta með í merkingunni 'ráðskast með'. Í Speglinum 1946 segir: „Nokkurn þátt mun það eiga í hressilegheitum stjórnarinnar, að nú hefur hún fengið Keflavíkurflugvöllinn til að rutta með.“ Í Vísi 1943 segir: „hún gerði það bara til þess að […] monta af, hvað hún væri efnuð og hefði ráð á að rútta með peningana.“ Sögnin kemur líka fyrir án fylgiorðs: „Verzlunarskjölum ruttað suður á Bessastaðakirkjuloft“ segir í Sögu 1982.
Ég hef hins vegar ekki rekist á nein dæmi um samböndin rutta af og rutta frá sem nefnd eru í orðabókum eins og áður segir og sögð merkja 'ljúka í snatri'. Aftur á móti er sambandið rubba af vel þekkt í þessari merkingu, og rubba frá kemur einnig fyrir þótt rubba upp sé langalgengasta sambandið með þessari sögn. Það er líka eina sambandið með sögninni sem nefnt er í Íslensk-danskri orðabók. Ef til vill hefur rutta af eitthvað verið notað áður en breyst í rubba af vegna merkingarlíkinda við rubba í sambandinu rubba upp. Elsta dæmið um rubba af er frá 1921, einmitt um þær mundir sem Íslensk-dönsk orðabók var að koma út. Íslensk orðabók hefur svo margt eftir þeirri íslensk-dönsku að hún er ekki sjálfstæð heimild.