Hvað merkir ráðgast við?

Í tengslum við miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins er nú uppi áhugaverður ágreiningur um textatúlkun. Í Ályktun miðstjórnar ASÍ um miðlunartillögu Ríkissáttasemjara frá því í gær segir: „ASÍ telur heimild sáttasemjara jafnframt bundna við að átt hafi sér stað náið samráð við aðila um efni hennar og að hún eigi ekki að leggjast fram án þess að hafa a.m.k. þegjandi samþykki beggja aðila. Hvorugt þessara skilyrða sé uppfyllt.“ Þar er vísað til 27. greinar Laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 þar sem segir: „Sáttasemjara ber að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann ber fram miðlunartillögu.“ Málið snýst um það hvernig eigi að skilja orðalagið ráðgast við.

Í Morgunblaðinu er haft eftir Sindra M. Stephensen dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík: „Í lögunum segir að ríkissáttasemjari eigi að ráðgast við samninganefndir aðila um tillöguna áður en hún er lögð fram en þar er ekki kveðið á um hve langt það á að ganga. Ekki verður ráðið að gerð sé sérstaklega ströng krafa um inntak samráðsins eða samtalsins, en ætla má að kynna þurfi efni miðlunartillögunnar sannanlega fyrir báðum aðilum áður en lengra er haldið og óska eftir afstöðu þeirra til hennar.“ Sindri telur sem sé að orðalagið ráðgast við „gefi ekki til kynna að báðir aðilar vinnudeilu þurfi að hafa veitt efni miðlunartillögu þegjandi samþykki sitt“. En á hverju byggist sú túlkun – og er hún hafin yfir efa?

Í Íslenskri orðabók er sögnin ráðgast skýrð 'bera e-ð undir e-n, leita ráða hjá e-m' og í Íslenskri nútímamálsorðabók 'leita ráða hjá'. Meðal samheita sagnarinnar sem talin eru í Íslenskri samheitaorðabók eru 'bera saman bækur sínar, bera saman ráð sín' gera ráð sín, hafa samráð við‘. Sambandið ráðgast við kemur fyrir þegar í fornu máli og af dæmum um það í eldri og yngri textum er alveg skýrt að það felur í sér samtal þar sem skipst er á skoðunum. Það þýðir ekki endilega að aðilar séu allir samþykkir niðurstöðunni úr því samtali, en sætta sig a.m.k. við hana. Það væri mjög óeðlilegt að segjast hafa komið með tillögu eftir að hafa ráðgast við einhvern ef viðmælandinn hefði lagst eindregið gegn tillögunni.

Nú veit ég auðvitað ekkert hvernig samtal ríkissáttasemjara við samningsaðila var. En hafi samninganefnd Eflingar lýst eindreginni andstöðu við framlagningu miðlunartillögu getur ríkissáttasemjari ekki sagst hafa ráðgast við samninganefndina um tillöguna. Þá er einfaldlega um tilkynningu að ræða og ef hugsun löggjafans var sú hefði væntanlega staðið „ber að tilkynna samninganefndum“ en ekki „ber að ráðgast við samninganefndir“ eins og raunin er. Ef lögfræðingar telja að það sé hægt að ráðgast við einhvern um tiltekið mál en gera síðan eitthvað sem gengur í berhögg við það sem viðmælandinn segir þurfa þeir að sýna fram á að sú túlkun samræmist venjulegri notkun orðasambandsins í íslensku máli.