Allareiðu

Ég var að lesa vísu frá seinustu áratugum 19. aldar þar sem orðið allareiðu kom fyrir. Það var augljóst að þetta væri af danska orðinu allerede sem merkir ‚nú þegar‘ og ég hef svo sem séð þetta áður í íslenskum textum en aldrei heyrt það notað svo að ég muni. En ég fór að forvitnast um orðið og komst að því að þetta er gamalt tökuorð – kemur fyrir í fyrstu bók sem prentuð var á íslensku, Nýja testamentinu í þýðingu Odds Gottskálkssonar þar sem segir: „Því að sú vonska hreyfir sér allareiðu heimuglega utan það alleinasta sá sem því nú inniheldur, hlýtur burt tekinn að verða.“ Í nýjustu þýðingu Biblíunnar er þetta: „Því að leyndardómur lögleysisins er þegar farinn að starfa en fyrst verður að ryðja þeim burt sem stendur í vegi.“

Allmörg dæmi eru svo um allareiðu úr ýmsum textum frá 17.-19. aldar. Orðið er í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 en merkt með spurningarmerki. Það er hins vegar gefið athugasemdalaust í Íslenskri orðabók, en ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í Risamálheildinni eru aðeins sex dæmi um það, öll úr gömlum textum, þannig að það virðist vera horfið úr nútímamáli. En ég varð mjög hissa þegar ég sá að um 900 dæmi um orðið er að finna á tímarit.is – sérlega mörg frá því kringum 1900, en orðið virtist þó hafa verið algengt fram á áttunda áratug síðustu aldar þegar tíðnin datt skyndilega niður. Mér fannst því undarlegt að ég skyldi ekki þekkja orðið betur eða hafa heyrt það notað.

Skýringin kom þó þegar ég fór að skoða betur hvaðan dæmin kæmu. Þá kom í ljós að meginhluti dæmanna – yfir 700 af um 900 – var úr vesturíslensku blöðunum. Þar virðist orðið hafa verið sprelllifandi fram til 1980 – yngsta dæmið úr Lögbergi-Heimskringlu er frá því ári. Öll yngri dæmi í íslenskum blöðum eru úr gömlum textum. Yngstu samtímadæmi sem ég hef fundið eru í grein eftir Sigurð Magnússon, blaðafulltrúa Loftleiða, í Morgunblaðinu 1973. Þar segir að „Spánn […] sé allareiðu orðinn ægilega útbíaður af Íslendingum og öðrum, sem gist hafa það sólarland að undanförnu“ og þar yrðu Íslendingar í framtíðinni „í hópi 800 milljón túrista í allareiðu útsvínuðu landi“.

Málhreinsunarstefnan sem ríkti á Íslandi mestalla 20. öldina náði lítið til Vesturheims og það er oft til þess vitnað hvernig málfarseinkenni sem vesturfarar báru með sér og þóttu óæskileg hafi blómstrað í vesturíslensku þótt þeim hafi verið útrýmt úr málinu hér heima – „flámælið“ svokallaða er oft tekið sem dæmi um það. Mér finnst allareiðu skemmtilegt dæmi um það hvernig dönskusletta sem hafði lifað í málinu í fjögur hundruð ár en er nú alveg horfin átti sér framhaldslíf í vesturíslensku þar sem hliðstæðan already kann einnig að hafa hjálpað til. Örugglega er hægt að finna ýmis fleiri dæmi um slíkt ef betur er að gáð.