Please use other door

Fyrir nokkrum dögum tók ég eftir handskrifuðum miða sem á stendur „PLEASE USE THE OTHER DOOR“ á útihurð vinsæls kaffihúss í Reykjavík. Auðvitað geta verið gildar ástæður fyrir því að miði sem er eingöngu á ensku var settur þarna í upphafi. Sumt starfsfólk kaffihússins er ekki íslenskumælandi og kannski bráðlá einhvern tíma á að setja miðann upp þegar enginn Íslendingur var þar að störfum – kannski var hríðarbylur sem stóð upp á dyrnar þannig að það þurfti að læsa í skyndi og vísa fólki á aðrar dyr. Vitanlega hlýtur samt einhver íslenskumælandi að hafa verið á vakt einhvern tíma eftir að miðinn var settur upp, og auðvitað hljóta eigendur kaffihússins að hafa komið þangað síðan og hefðu því getað breytt þessu.

Þótt ég gangi þarna fram hjá oft í viku gæti miðinn hafa verið þarna lengi án þess að ég tæki eftir honum fyrr en nýlega – ég er nefnilega orðinn ansi ónæmur fyrir ensku í almannarými eins og við erum líklega flest. Allavega hefur miðinn fengið að standa þarna óáreittur um tíma án þess að starfsfólk eða eigendur brygðust við og settu annan miða með íslensku samhliða enskunni. Væntanlega hafa gestir kaffihússins ekki heldur gert nokkra athugasemd – ég treysti því að þessu hefði verið breytt umsvifalaust ef bent hefði verið á það. Mér dettur ekki í hug að halda eða gefa í skyn að það sé af einhverju ræktarleysi eða virðingarleysi við íslenskuna sem þessi miði er eingöngu á ensku – þetta sýnir bara hugsunarleysi og ónæmi gagnvart enskunni.

Ég þykist vita að mörgum finnist þetta lítilfjörlegt atriði sem engin ástæða sé til að gera veður út af. Og það er rétt, út af fyrir sig – einn handskrifaður miði með fimm orðum á ensku skiptir auðvitað engu máli. En á sama tíma er þetta risastórt mál vegna þess að það sýnir í hnotskurn hvernig enskan laumast inn í umhverfi okkar án þess að við gerum okkur grein fyrir því. Hvernig má það vera að miði á ensku hangi uppi á fjölförnum stað tímum saman án þess að nokkrar athugasemdir séu gerðar við það? Annaðhvort er það vegna þess að við tökum ekki eftir því að hann er eingöngu á ensku eða vegna þess að okkur er alveg sama og finnst það bara eðlilegt. Hvort sem heldur er sýnir að viðnám okkar gegn enskunni er að fjara út.

Gestir veitingastaða skilja iðulega ekki íslensku og því er eðlilegt og sjálfsagt að auglýsingar og tilkynningar séu á ensku samhliða íslenskunni – en ekki í stað hennar eins og í þessu tilviki. Ég legg samt áherslu á að ég skrifa þetta ekki til að gagnrýna kaffihúsið sem um er að ræða enda fer því fjarri að það sé verra að þessu leyti en önnur fyrirtæki í þessum geira. Ég skrifa þetta til að minna okkur á að við berum öll ábyrgð á því að íslenska sé notuð alls staðar þar sem það er hægt. Ef við tökum eftir því að auglýsingar eða tilkynningar eru eingöngu á ensku eigum við að gera athugasemd við það. Ég trúi ekki öðru en slíku verði vel tekið. Ef við látum þetta yfir okkur ganga, eða ef brugðist er illa við athugasemdum, er íslenskan í hættu.