Fjórður á lista

Fyrirsögnin „Ómar fjórður á lista yfir bestu handboltamenn heims“ var um stund á vef RÚV – en var mjög fljótlega breytt í „fjórði á lista“ eins og við er að búast í hefðbundnu máli. En í fréttinni sjálfri í línunni fyrir neðan stóð alltaf „fjórði besti handboltamaður heims“. Þessi munur er í sjálfu sér eðlilegur – í fyrirsögninni var töluorðið fjórði upphaflega beygt eins og lýsingarorð og notuð sterk beyging vegna þess að orðið er sérstætt. Við segjum t.d. Ómar efstur á lista, ekki *Ómar efsti á lista. En þótt beyging töluorða sé að mörgu leyti hliðstæð lýsingarorðabeygingu hafa töluorðin, önnur en fyrstur og annar, ekki sterka beygingu í hefðbundnu máli. Í sambandinu „fjórði besti handboltamaður heims“ er töluorðið hins vegar hliðstætt með nafnorði og í þeirri stöðu hafa lýsingarorð veika beygingu, og því er engin tilhneiging til að setja fjórður þar.

Í fyrra skrifaði ég pistil út frá setningu í frásögn vefmiðils af söngvakeppni Sjónvarpsins: „Reykjavíkurdætur voru þriðjar á svið í kvöld með lagið Tökum af stað.“ Dæmið þriðjar á svið er alveg sams konar og fjórður á lista. Í pistlinum í fyrra sagði ég þetta „sýna að ákveðinnar tilhneigingar gætir til að fella raðtölurnar að beygingu lýsingarorða – gefa þeim sterka beygingu þegar þau eru notuð í setningarstöðu þar sem lýsingarorð (og fyrstur og annar) myndu hafa sterka beygingu. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt og raunar jákvætt að því leyti að það sýnir tilfinningu málnotenda fyrir kerfinu – sýnir að þeir átta sig á því að þarna „ætti“ ekki að vera veik beyging og leitast við að bæta úr því.

En jafnframt er þetta vissulega neikvætt að því leyti að þarna er gengið gegn málhefð – ekki bara búnar til orðmyndir sem ekki eru fyrir í beygingunni, heldur beinlínis búin til nýja málfræðilega formdeild í raðtölunum, sterk beyging. Ég get ekki neitað því að sem málfræðingi finnst mér þessi dæmi bæði merkileg og skemmtileg – og þau hljóma ekki sérlega óeðlilega í mínum eyrum. En þótt þau eigi sér eðlilegar og auðfundnar skýringar eru þau vissulega ekki í samræmi við málvenju og geta þess vegna ekki talist rétt mál.“ En ég legg áherslu á að ég er ekki að setja vekja athygli á þessari fyrirsögn til að hneykslast á henni, eða til að gefa öðrum tækifæri til að hneykslast. Þvert á móti – ég er að nefna hana til að skýra hvernig tilbrigði í máli geta komið upp.