Kjarabarátta er málrækt
Í kjaraumræðu þessa dagana er mikið gert úr því að í tiltekinni starfsgrein séu heildarlaun að meðaltali rúmlega 890 þúsund krónur á mánuði sem sé býsna gott og vel yfir meðallagi. En í fréttum hefur einnig komið fram að föst laun eftir fimm ára starf á þessu sviði eru ekki nema rúmlega 390 þúsund krónur á mánuði. Yfirvinnulaun eru um fjögur þúsund krónur á tímann þannig að til að ná rúmlega 890 þúsund króna heildarlaunum þarf u.þ.b. 125 yfirvinnutíma. Það eru rúmir fjórir tímar á dag að meðaltali alla daga mánaðarins, jafnt virka daga sem frídaga – eða tæpir sex tímar á dag ef þessu er dreift á virka daga eingöngu. Það er því ljóst að það segir ekki nema hálfa söguna að tala eingöngu um heildarlaun.
Í fljótu bragði mætti kannski ætla að þetta væri eingöngu kjaramál sem ætti ekki erindi inn í þennan hóp, en það er misskilningur. Í bókinni Alls konar íslenska sem ég gaf út í fyrra segir: „Grundvöllur að framtíð íslenskunnar er lagður á máltökuskeiði. Það er ekkert jafnmikilvægt og samtal við fullorðið fólk til að byggja upp auðugt málkerfi og styrka málkennd barna. Þess vegna er stytting vinnutímans eitt af því mikilvægasta sem við getum gert til að styrkja íslenskuna – að því tilskildu að foreldrar verji auknum frítíma ekki í eigin snjalltækjum heldur til samveru og samtals með börnum sínum. Þannig stuðlum við að því að börnin okkar geti áfram notað íslensku á öllum sviðum – og vilji gera það.“
Það segir sig sjálft að fólk sem vinnur 12-14 tíma á dag á ekki mikinn tíma aflögu til samvista með börnum sínum – og er ekki endilega í stuði til mikilla samræðna þegar það kemur dauðþreytt heim að loknum vinnudegi. Því er hætt við að börn þessa fólks, og annars láglaunafólks sem verður að vinna mikla yfirvinnu til að ná endum saman, fari að verulegu leyti á mis við einn mikilvægasta þátt máluppeldisins – samtal við foreldra sína um hvaðeina. Í staðinn fyrir að vera að byggja upp málkerfi sitt sem virkir þátttakendur í samtali er hætta á að þessi börn leiti í afþreyingu sem er meira og minna á ensku þar sem þau eru aðallega óvirkir viðtakendur, svo sem sjónvarpsáhorf, snjalltækjanotkun og tölvuleikjaspilun.
Íslenskan á undir högg að sækja um þessar mundir vegna margvíslegra þjóðfélags- og tæknibreytinga. Það er hvorki æskilegt né raunhæft að berjast gegn þessum breytingum en við þurfum að berjast gegn þeim áhrifum sem þær gætu haft á íslenskuna. Það gerum við ekki síst með því að búa börnunum betra málumhverfi á máltökuskeiði, einkum með samtali og lestri. Ef við getum ekki sinnt því er voðinn vís. Þess vegna eru lág laun og sá langi vinnutími sem af þeim leiðir mesta hættan sem steðjar að íslenskunni. Við þessu er sem betur fer hægt að bregðast. En ef það verður ekki gert er alveg ljóst að við stefnum hraðbyri inn í samfélag með mikilli málfarslegri stéttaskiptingu. Það má ekki gerast.