Fyrrverandi

Lýsingarorðið fyrrverandi er eitt af þessum algengu hversdagslegu orðum sem við teljum okkur vita nákvæmlega hvað merki og hvernig sé notað, en leynir samt á sér. Í Íslenskri orðabók er það skýrt 'sem áður var (oftast þangað til nýlega)' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýringin 'sem var e-ð áður en er það ekki lengur'. Ég hugsa að við getum flest tekið undir þetta en ég varð samt hugsi þegar ég heyrði talað um Vilmund heitinn Gylfason sem „fyrrverandi alþingismann“ í útvarpsfréttunum áðan. Vissulega virðast orðabókarskýringarnar eiga við því að Vilmundur var áður alþingismaður en er það ekki lengur – hann lést fyrir tæpum 40 árum.

Það sem olli því hins vegar að ég fór að hugsa um þetta var að Vilmundur var alþingismaður þegar hann dó. Í lifanda lífi var hann aldrei fyrrverandi alþingismaður. Skiptir það máli? Getum við haldið áfram að tala um fólk með þeim titli eða starfsheiti sem það hafði við dauða sinn, eða er eðlilegt að bæta fyrrverandi framan við? Þarna bætist líka við að mörk milli starfsheitis og menntunar eru oft óljós. Það er hægt að vera fyrrverandi héraðslæknir og fyrrverandi menntaskólakennari vegna þess að þar er augljóslega vísað til starfa, en er hægt að vera fyrrverandi læknir eða fyrrverandi kennari? Það er hægt að skilja svo að vísað sé til menntunar og réttinda en ekki tiltekins starfs.

Vitanlega er fyrrverandi aldrei notað með skyldleikaorðum – fólk verður ekki fyrrverandi foreldrar barna sinna við dauða sinn. En tengdir fólks eru sérlega snúnar í þessu samhengi. Ef við hjónin skiljum og móðir konunnar minnar er á lífi verður hún fyrrverandi tengdamóðir mín, en ef við erum enn gift tala ég um móður konunnar minnar sem tengdamóður en ekki fyrrverandi tengdamóður þótt hún sé látin enda hætti hún aldrei að vera tengdamóðir mín. En ef við höfum verið gift þegar hún lést, en skiljum síðar, hvað þá? Ef hún væri enn á lífi yrði hún fyrrverandi tengdamóðir mín við skilnaðinn – en held ég áfram að miða við þau vensl sem voru milli okkar við dauða hennar?

Svo getur þetta verið misjafnt eftir afstöðu mælandans til þess sem um er rætt. Það getur t.d. verið eðlilegt að segja ég hitti Sigurð fyrrverandi nágranna minn í gær, en aftur á móti við Sigurður nágranni minn fórum stundum saman í veiði. Í seinna tilvikinu er verið að segja frá því sem við gerðum saman þegar við vorum nágrannar, og þá er mun minni ástæða til að bæta fyrrverandi framan við – þótt það sé vissulega hægt. Einnig má velta fyrir sér hvaða tímamörk séu á notkun fyrrverandi – hvað merkir „nýlega“ í áðurnefndri skýringu Íslenskrar orðabókar? Við myndum varla tala um Hannes Hafstein fyrrverandi ráðherra eða Magnús Stephensen fyrrverandi landshöfðingja, er það?

Við þetta bætist svo notkun fyrrverandi sem nafnorðs, einkum í samböndunum minn/mín fyrrverandi í merkingunni 'fyrrverandi maki'. Allt þetta sýnir að jafnvel hversdagslegustu orð geta sýnt ýmis tilbrigði þegar að er gáð. Það er ein af ástæðunum fyrir því hvað tungumálið er merkilegt og skemmtilegt.