Mörg okkar tölum svona

Sagnir í íslensku hafa þrjár persónur eins og alkunna er, og persóna sagnar ræðst af frumlaginu. Það er þó aðeins fornafnið ég og fleirtala þess við sem tekur með sér fyrstu persónu sagna, og aðeins fornafnið þú og fleirtalan þið sem tekur með sér aðra persónu. Öll önnur frumlög – fornöfn, nafnorð og annað – taka með sér þriðju persónu sagna. Við segjum þið eruð sum búin með þetta þar sem sögn er í annarri persónu fleirtölu, eruð, og stjórnast af frumlaginu þið. Aftur á móti segjum við sum ykkar eru búin með þetta með sögnina í þriðju persónu fleirtölu, eru, vegna þess að þar er frumlagið óákveðna fornafnið sum. En þótt frumlagið sé formlega í þriðju persónu er það merkingarlega í annarri persónu – sum ykkar merkir u.þ.b. það sama og þið sum.

Það kemur þó fyrir að eignarfallsfornafn í fyrstu eða annarri persónu, okkar eða ykkar, ráði persónu sagnarinnar en ekki nefnifallsorðið, eins og Jón G. Friðjónsson hefur bent á. Þar má segja að merking ráði fremur en form. Þetta er ekki nýtt – dæmi má finna a.m.k. allt frá upphafi 20. aldar. Fáein dæmi: Í Ísafold 1909 segir: „flestir okkar höfum alist upp við önnur lífskjör en skrif og skraf.“ Í Tímanum 1920 segir: „Margir ykkar eruð með í samtökum þeim sem standa að þessu blaði.“ Í Tímanum 1987 segir: „Mörg okkar höfum séð um uppeldi á börnum okkar.“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Sum ykkar hafið kannski ekki heyrt um þann stað.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Mörg okkar eigum svo fallegar minningar frá þessum stöðum.“

Þetta er síður en svo sjaldgæft. Í Risamálheildinni eru alls 775 dæmi um að samböndin mörg / nokkur / sum okkar taki með sér sögn í fyrstu persónu fleirtölu, og 431 dæmi um að samböndin mörg / nokkur / sum ykkar taki með sér sögn í annarri persónu fleirtölu. Dæmi þar sem þessi sambönd taka með sér sögn í þriðju persónu eru þó hátt í sex sinnum fleiri, en persónusamræmi við eignarfallsorðið er samt of algengt til að það verði flokkað sem villa. Hlutfall dæma um fyrstu og aðra persónu er miklu hærra í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar en öðrum hlutum hennar sem sýnir að þessi setningagerð er miklu algengari í óformlegu máli en formlegu, og gæti bent til þess að hún væri í sókn þótt ekki sé hægt að fullyrða það.

Það er samt rétt að athuga að persónusamræmi við eignarfallsfornafnið kemur ekki alltaf til greina. Það er hægt að segja mörg okkar urðu hrædd og mörg okkar urðum hrædd en aðeins mörgum okkar varð bilt við, ekki *mörgum okkar urðum bilt við. Þótt eignarfallsfornafnið geti tekið völdin af frumlaginu í stjórn á persónu sagnarinnar er það eftir sem áður háð falli frumlagsins – ef frumlagið er ekki í nefnifalli verður sögnin í þriðju persónu eintölu, hvað sem eignarfallsfornafnið segir. Það kemur kannski ekki á óvart því að sögn samræmist aldrei aukafallsfrumlagi í persónu og tölu hvort eð er, en þó er athyglisvert að eignarfallsfornafnið skuli þannig geta náð valdi á sögninni að hluta til en verið eftir sem áður háð falli frumlagsins.