Merkingarleg sambeyging

Í íslensku stjórnar frumlag í nefnifalli (yfirleitt nafnorð eða fornafn) venjulega persónu og tölu sagnar, sem og kyni og tölu sagnfyllingar (einkum með sögnunum vera og verða). Við segjum ég þetta, þú sérð þetta, hún sér þetta; við sjáum þetta, þið sjáið þetta, þau sjá þetta. Þarna breytir sögnin sjá um form eftir persónu og tölu frumlagsins. Við segjum líka hann er ungur, hún er ung, hán er ungt; þeir eru ungir, þær eru ungar, þau eru ung. Þar breytir sagnfyllingin ungur um form eftir kyni og tölu frumlagsins. Frá þessum reglum er þó sú undantekning að ef frumlagið er í aukafalli stendur sögnin alltaf í þriðju persónu eintölu og sagnfylling í hvorugkyni eintölu – okkur ber skylda til, ekki *berum; þeim er kalt, ekki *eru kaldir.

En það er líka vel þekkt að stundum getur merkingin tekið völdin af forminu í sambeygingu. Þótt orðið foreldrar vísi oftast til karls og konu er það karlkynsorð – það sjáum við á beygingunni og einnig á því að lýsingarorð og fornöfn sem standa með því eru í karlkyni. Við segjum góðir foreldrar, foreldrar mínir, en ekki *góð foreldrar, *foreldrar mín. En þegar orðið er frumlag og tekur með sér sagnfyllingu er hún iðulega í hvorugkyni – foreldrar mínir eru skilin, síður foreldrar mínir eru skildir. Einnig er eðlilegt að segja foreldrar mínir hötuðu hvort annað en miklu síður foreldrar mínir hötuðu hvor annan eins og þó mætti búast við af karlkynsorði. Í þessum dæmum er hvorugkynið eðlilegt út frá merkingu orðsins foreldrar.

Annars konar merkingarleg sambeyging frumlags og sagnfyllingar kemur fram í dæmum eins og ráðherra var viðstödd umræðuna, kennarinn varð ekki ánægð, forstjórinn er hætt störfum o.s.frv. Þarna er sagnfyllingin í kvenkyni þótt að frumlög setninganna, ráðherra, kennari og forstjóri, séu karlkyns og ekkert í orðunum sjálfum feli í sér kvenkynsmerkingu. Ástæðunnar fyrir því að sagnfyllingin er höfð í kvenkyni er því að leita utan málsins – kvenkynið byggist á þeirri vitneskju mælandans að kona gegni þeim störfum sem um er að ræða. Skoðanir málnotenda á þessari tegund merkingarlegrar sambeygingar eru mjög skiptar – mikil umræða varð t.d. um fyrirsögnina „Kennari leidd út í járnum“ á vef Ríkisútvarpsins fyrir nokkrum árum.

Merkingarleg sambeyging kemur einnig oft fram með orðum sem eru eintöluorð að forminu en fleirtöluorð að merkingu – orðum eins og fjöldi og fólk. Varað er sérstaklega við þessu í Málfarsbankanum: „Orðið fjöldi vísar til margra þótt það standi sjálft í eintölu. Beygingin miðast við form orðsins, þ.e. eintöluna, fremur en merkingu þess. Fjöldi skipa fékk góðan afla (ekki: „fjöldi skipa fengu góðan afla“).“ En merkingarleg sambeyging með fjöldi kemur þó fyrir þegar í fornu máli og hefur tíðkast alla tíð síðan. Í Ólafs sögu helga frá 13. öld segir t.d.: „Þá stukku enn fyrir honum fjöldi manna úr landi“ og í Tómass sögu erkibyskups frá því um 1300 segir: „Því að mikill fjöldi fátækra manna og sjúkra renna kallandi móti honum.“

„Sambeyging í íslensku er jafnan málfræðileg, tala og/eða kyn frumlags ræður ferðinni en ekki merking þess“ segir Jón G. Friðjónsson. Þetta er vissulega það sem hefur verið kennt og þannig er málstaðallinn, en það er þó ljóst að margs konar merkingarleg sambeyging er engin nýjung. Guðrún Þórhallsdóttir hefur bent á að merkingarleg sambeyging er algeng í einkabréfum frá seinni hluta 19. aldar og upphafi þeirrar 20., og ekki sé ólíklegt að tilurð og þróun íslensks málstaðals á þeim tíma hafi stuðlað að því að styrkja formlegt samræmi í sessi á kostnað merkingarlegs samræmis. Ljóst er að margs konar merkingarleg sambeyging er algeng í nútímamáli og engin ástæða til að amast sérstaklega við henni – hún á sér langa hefð.