Tungumál í íslenskri ferðaþjónustu
Nýlega hafa verið gefnar út tvær merkar skýrslur um tungumál í íslenskri ferðaþjónustu, unnar í samvinnu Háskólans á Hólum og Árnastofnunar – höfundar eru Anna Vilborg Einarsdóttir, Ágústa Þorbergsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir. Önnur skýrslan heitir Staða málstefnu í stoðkerfi ferðaþjónustunnar. Skiptir hún máli?, og hin Nöfn fyrirtækja í íslenskri ferðaþjónustu. Óhætt er að segja að skýrslurnar dragi upp dökka mynd af stöðu íslensku innan ferðaþjónustunnar og viðhorfum til íslensku innan greinarinnar. Hér fylgja nokkrar tilvitnanir í skýrslurnar:
„Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingu um að andvaraleysi gagnvart stöðu íslensku sé ríkjandi hvort sem það er hjá opinberum aðilum eða stoðkerfi ferðaþjónustunnar.“
„Í viðræðum okkar við aðila, bæði innan og utan ferðaþjónustunnar, hafa komið fram meiningar um að hagstæðast væri að leyfa enskunni að taka við af íslenskunni.“
„[Þ]rátt fyrir að stjórnvöld hafi lagt fram þá kröfu til sveitarfélaganna að þau móti sína eigin málstefnu hafa þau yfirleitt ekki gert það og skipuleggjendur ferðaþjónustu og umsjónaraðilar hennar hafa ekki brugðist við ruðningsáhrifum ensku á íslensku í auglýsingum. Dæmi um þetta er stefnurammi Samtaka ferðaþjónustunnar til ársins 2030 undir fororðunum: Leiðandi í sjálfbærri þróun, þar sem ekkert er fjallað um tungumál.“
„Verði íslenska ekki gjaldgeng í ferðaþjónustu á Íslandi og enska verður tekin fram yfir hana mun hljómur og ásýnd landsins breytast. Þar með glatast mikilvæg sérstaða og um leið verðmæti. Það á auðvitað að kynna íslensku fyrir erlendum gestum landsins alveg jafnt og aðra íslenska menningu og það á að vera réttur íslenskumælandi fólks að geta fengið upplýsingar á sínu eigin tungumáli á ferð um landið. Íslenskan á að vera jafn fyrirferðarmikil í íslenskri ferðaþjónustu og enska eða hvaða annað tungumál sem er.“
Ég treysti því að Lilja Dögg Alfreðsdóttir sem er bæði ferðamálaráðherra og ráðherra íslenskunnar taki þetta mál föstum tökum.