Öll fólkin eru farin

Í Málfarsbankanum segir: „Orðið fólk vísar til margra þótt það standi sjálft í eintölu. Beygingin miðast við form orðsins, þ.e. eintöluna, fremur en merkingu þess. Allt fólkið, sem ég talaði við, ætlaði út að skemmta sér, svo sagði það a.m.k. (ekki: „allt fólkið, sem ég talaði við, ætluðu út að skemmta sér, svo sögðu þau a.m.k.“).“ En vegna þess hversu afbrigðileg hegðun orðsins er má búast við að hún hafi tilhneigingu til að breytast á ýmsan hátt. Í fyrsta lagi gæti verið vísað til orðsins með fornafni í fleirtölu eins og í dæminu úr Málfarsbankanum. Í öðru lagi gæti orðið fengið fleirtölubeygingu og stýrt fleirtölu á sögn og sagnfyllingu – fólkin eru góð. Í þriðja lagi gæti orðið fengið eintölumerkingu – eitt fólk. Dæmi um þetta allt má finna nú þegar.

Það fyrstnefnda er nokkuð algengt. Þannig segir í Morgunblaðinu 2009: „Það var frábært að fá þetta fólk til landsins, þau höfðu öll á orði hvað það væri mikill kraftur í fólkinu hérna og gert mikið úr litlu.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2017 segir: „Fólk var hrætt, eðlilega, en þau voru þurr og nokkuð vel haldin.“ Í Fréttablaðinu 2018 segir: „Þetta er öruggur staður þar sem fólk getur komið saman, hvort sem þau eru þolendur, aðstandendur eða einhver sem er á móti ofbeldi.“ Í DV 2018 segir: „Númer eitt, tvö og þrjú er að fólk brosi, ef þau gera það er markmiði mínu náð.“ Í Fréttablaðinu 2018 segir: „þau spurðu, meðal annars, af hverju fólk gerðist grænkerar, af hverju þau væru það enn og hvað þeim þætti erfiðast og best við að vera grænkerar.“

Þessi dæmi eru öll tekin úr fjölmiðlum sem sýnir að slíkrar vísunar gætir nokkuð í formlegu máli. Þetta er þó miklu algengara, og raunar mjög algengt, í óformlegu máli eins og það birtist á samfélagsmiðlum. En það er ekki víst að þau vísi alltaf í orðið fólk þótt svo virðist í fljótu bragði. Persónufornöfn hafa oft málfræðilega vísun, vísa til orða fyrr í textanum, eins og í ég mætti skáldinu og það var í góðu skapi, þar sem það vísar til hvorugkynsorðsins skáld. En þau geta líka vísað út fyrir málið, til einhvers í raunheiminum, eins og í ég mætti skáldinu og hún var í góðu skapi – þar væri notað kvenkyn vegna þess að skáldið sem um væri rætt væri kona. Í mörgum tilvikum þar sem þau er notað í vísun til fólks gæti verið um slíka vísun að ræða.

Í Risamálheildinni má finna mikinn fjölda dæma af samfélagsmiðlum um að fólk taki með sér fleirtölumyndir sagna. Þar má nefna „Fólk eru að tala vel um hann þessa stundina“ af fótbolti.net 2006; „Fólk eru hrædd um börnin sín“ af Bland.is 2004; „Fólk eru öryrkjar vegna margra ástæðna“ af Bland.is 2009; „fólk eru ennþá hrædd við töluna 13“ af Twitter 2014, „Fólk eru að fókusa alltof mikið á lagavalið“ af Twitter 2016; „Fólk eru ekki að ásaka upp á djókið“ af Twitter 2021. Einnig ber við að orðið taki fleirtöluendingar: „hin fólkin voru svo sein að koma“ af Hugi.is 2005; „Einu fólkin sem geta passað fyrir mig er mamma og pabbi“ af Bland.is 2006; „þyrlur þurftu að gera bið á því að bjarga fólkum af húsþökum heimila sinna“ í Vísi 2007.

Í þættinum Íslenskt mál í Morgunblaðinu 2002 sagði, í framhaldi af umræðu um fleirtölu ýmissa safnheita: „Hins vegar dettur engum í hug að segja „mörg fólk“ – enn sem komið er.“ Fyrir tveimur og hálfu ári var þó nefnt hér að ungt fólk væri farið að tala um eitt fólk og mörg fólk. Þá hafði ég aðeins óljósar spurnir af þessu en í Risamálheildinni er nú hægt að finna fáein dæmi um þetta. „Síðan eru líka mörg fólk sem að taka poka án þess að borga fyrir þá“ af Hugi.is 2004; „Ég veit um nokkra sem eru að fara þangað og eitt fólk sem er þar núna“ af Bland.is 2005; „þó er eitt fólk sem ég þekki vel hérna“ af Hugi.is 2006; „Það er afleitt að sum fólk geta ekki skemmt sér án vímuefna“ af Hugi.is 2009; „Ég var ekki að meina öll fólk með börn“ af Twitter 2020.

Dæmi af þessu tagi eru vissulega fá, en hins vegar má finna dæmi um það á samfélagsmiðlum að amast sé við þeim, t.d. „Svo þoli ég ekki heldur þegar fólk talar um mörg fólk“ á Bland.is 2010. Það bendir til þess að tíðni þessarar notkunar í talmáli gæti verið meiri en dæmafjöldinn bendir til. Dæmin um óhefðbundnar beygingarmyndir af fólk, s.s. fólkin og fólkum, eru líka mjög fá. Þar er þó þess að gæta að öll hvorugkynsorð önnur en þau sem hafa a í stofni eru eins í nefnifalli og þolfalli eintölu og fleirtölu, og því hugsanlegt að fyrir sumum sem segja fólk eru … sé fólk í raun í fleirtölu þar. En fleirtölumyndir sagna með fólk eru orðnar fastar í sessi, sem og vísun til fólk með þau, þótt þar gæti stundum verið um að ræða vísun út fyrir málið.