Á að útrýma „óæskilegum“ orðum úr bókum?
Síðustu daga hefur talsvert verið rætt í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum um breytingar sem gerðar hafa verið í nýjum (enskum) útgáfum á bókum norsk/enska barnabókahöfundarins Roald Dahl, í þeim tilgangi „að fjarlægja móðgandi orðalag og gera sögurnar aðgengilegri nútímalesendum“. Eins og við var að búast hefur þessum breytingum verið misjafnlega tekið – sumum finnst þær eðlilegar en að mati annarra eru þær stórhættulegar. Svipuð dæmi hafa svo sem komið upp áður – ekki er langt síðan íslenskum titli Tinnabókarinnar Svaðilför í Surtsey var breytt vegna þess að hugsanlega mátti lesa rasisma úr titlinum og Tinni í Kongó hefur verið mjög umdeildur af sömu ástæðum og sums staðar hefur verið reynt að banna bókina.
Þótt endurritun af þessu tagi sé yfirleitt gerð af góðum hug er hún mjög varasöm af ýmsum ástæðum. Hún getur auðvitað verið brot á sæmdarrétti höfundar sem felur m.a. í sér að „[ó]heimilt er að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni“. Þá gildir einu þótt eigandi höfundaréttar hafi samþykkt breytingarnar, eins og virðist vera í tilviki Roald Dahl. Það er líka síbreytilegt hvaða viðhorf, orðalag eða framsetning þykir óviðeigandi á einhvern hátt. Ef hlaupið er eftir samfélagsstraumum hvað þetta varðar getur þurft að gera breytingar aftur eftir nokkur ár. Svo er auðvitað alltaf hætta á að breytingar séu ekki endilega eða eingöngu gerðar af góðum hug.
Vissulega er algengt að í bókum komi fram viðhorf eða orðalag sem nú þykir óviðurkvæmilegt og bera vott um fordóma enda þótt það hafi tíðkast og þótt eðlilegt á ritunartíma bókanna. Þegar um barnabækur er að ræða er eðlilegt að fólk vilji ekki að börn verði fyrir áhrifum frá slíku. En aðferðin til að koma í veg fyrir það er að halda slíku efni frá börnunum frekar en að breyta textanum og fjarlægja hið óæskilega úr honum. Oft er þó um að ræða efni sem er gott að öðru leyti og við viljum að börnin fái að njóta, og önnur leið er þá að lesa það með þeim – vekja athygli þeirra á því að tiltekin orð eða viðhorf eigi ekki lengur við og önnur séu komin í staðinn, og útskýra hvers vegna. Þá gefst líka gott tækifæri til að ræða við börnin um margvísleg efni.
Þegar um er að ræða stálpuð börn, unglinga og fullorðið fólk er vitanlega hvorki hægt að lesa bækur með þeim né halda bókunum alveg frá þeim. Þá er líka tilgangslaust að gefa út dauðhreinsaðar útgáfur eldri texta vegna þess að upphaflegu útgáfurnar eru til og fólk getur nálgast þær. En þá skiptir höfuðmáli eins og ég hef oft lagt áherslu á að beita orðræðugreiningu. Við þurfum að þjálfa börnin okkar og okkur sjálf í því að greina texta – átta okkur á merkingu orða og þeim tilfinningum sem þau geta vakið hjá málnotendum. En jafnframt þurfum við að skilja texta út frá þeim tíma og því umhverfi sem þeir eru sprottnir úr – átta okkur á því hvaða orð og viðhorf eru úrelt en forðast um leið að dæma textana út frá viðhorfum samtíma okkar.