Menningarnám – eða eitthvað annað?

Orðið menningarnám skýtur sífellt oftar upp kollinum og hefur verið áberandi undanfarið í umræðu um uppsetningu Íslensku óperunnar á Madame Butterfly. Þar er þetta notað yfir cultural appropriation sem „merkir þegar við tökum eitthvað að láni úr menningu annarra og hugsum ekki út í eða yfirfærum hvaða gildi það hefur í þeirri menningu“. Elsta dæmi sem ég hef fundið um orðið í þessari merkingu er í grein Kristjáns Kristjánssonar í Morgunblaðinu 1997 þar sem segir m.a.: „Menningarnám („cultural appropriation“) er orðið yfir þetta; og „nám“ vísar þá til hernáms, ekki lærdóms!“ En eins og bent var á hér í gær er hægt að skilja orðið á fleiri en einn veg og það hefur einnig verið notað í öðrum merkingum.

Orðið menningarnám er nefnilega að finna í tveimur íðorðasöfnum í Íðorðabankanum og í báðum tilvikum þýðing á acculturation sem er allt annað en cultural appropriation. Í þessum söfnum er það skilgreint 'aðlögun að nýju menningar-umhorfi' eða 'aðlögun barns að menningarháttum samfélagsins'. Sú er greinilega merking orðsins í Uppeldi og menntun 2000: „Um leið og barnið verður þátttakandi í málsamfélagi fær það einnig aðgang að menningu viðkomandi tungumáls. […] Þegar barnið eldist og fer í skóla fer það eftir menningu skólans hvernig barninu gengur. Sé menning heimilisins og ráðandi menning innan skólans sú sama eða svipuð, heldur menningarnám og máltaka barnsins yfirleitt áfram án erfiðleika eða árekstra.“

En orðið hefur einnig verið notað í enn annarri merkingu. Í Mosfellingi 2008 segir að í nýjum framhaldsskóla í Mosfellsbæ verði lögð „Áhersla á heilsu-, íþrótta- og menningarnám auk umhverfis- og orkufræða“ og í Morgunblaðinu 2015 segir: „Ég fór að læra viðskiptafræði og þaðan í þverfaglegt tungu- mála-, viðskiptafræði- og menningarnám í Danmörku.“ Í þessum tilvikum er augljóslega verið að lýsa þeirri tegund skólanáms sem um er að ræða – hvorki aðlögun barna að samfélagi né yfirtöku menningar. Það eru sem sé til dæmi um orðið í þremur mismunandi merkingum en að undanförnu hefur fyrstnefnda merkingin (cultural appropriation) þó verið yfirgnæfandi eins og marka má bæði af tímarit.is og Risamálheildinni.

Nú er auðvitað algengt að orð í almennu máli séu notuð í fleiri en einni merkingu og veldur sjaldan vandræðum. En í þessu tilviki er um að ræða íðorð notuð yfir nákvæmlega skilgreind hugtök, og íðorð lúta dálítið öðrum reglum en orð í almennu máli – þurfa m.a. að vera ótvíræð. Þess vegna er óheppilegt að menningarnám skuli notað í þessum mismunandi merkingum. Erfitt er að sjá í hvaða merkingu orðið hafi fyrst verið notað en tilvist þess í tveimur íðorðasöfnum bendir þó til þess að sú merking sem þau hafa þar (acculturation) sé elst. Svo má líka velta fyrir sér hversu heppilegt það sé að nota menningarnám yfir cultural appropriation í ljósi þess að „námið“ er yfirleitt án samþykkis eða í óþökk „eigenda“ viðkomandi menningar.

Í þessu samhengi má benda á að fyrir löngu er hætt að tala um landnámsbyggðir Ísraelsmanna á Vesturbakkanum og í staðinn talað um landtökubyggðir. Hliðstætt því mætti hugsa sér að tala um menningartöku en menningarrán er líka lipurt og lýsandi orð. Jafnvel mætti hugsa sér menningarhrifs (hrifs er gamalt orð þótt það sé sjaldgæft í seinni tíð) – öll þessi orð komu fram í umræðu hér í gær. Ég hef vissulega margsinnis lýst þeirri skoðun að almennt sé óheppilegt að hrófla við orðum sem hafa unnið sér hefð í málinu enda þótt okkur finnist þau ekki alls kostar heppileg. En menningarnám er ekki gamalt í málinu og hefur lítið verið notað þangað til mjög nýlega, þannig að spurningin er hvort það sé orðið of fast – tíminn verður að skera úr um það.