Ekkert er fjarri sanni

Í gær birtist á vefmiðli fyrirsögnin „Ekkert er fjarri sanni í þeim efnum“ (sem var reyndar bein tilvitnun í Facebook-færslu þar sem fjarri hefur nú verið breytt í fjær). Orðið fjarri er frumstig atviksorðs sem stigbreytist – miðstigið er fjær og efsta stig fjærst. En það er ekki algengt að frumstig endi á -ri – einu atviksorðin sem gera það eru fjarri og nærri (og samsetningar af þeim). Aftur á móti er -ri dæmigerð ending miðstigs eins og bet-ri, stær-ri, falleg-ri o.s.frv. Þar er að vísu um lýsingarorð að ræða en ekki atviksorð en milli þeirra orðflokka er náinn skyldleiki, og ástæðan fyrir því að ekkert er fjarri sanni er notað þar sem búast mætti við ekkert er fjær sanni er væntanlega sú að málnotendur skynja fjarri sem miðstig.

Á tímarit.is eru 88 dæmi um orðarununa ekkert er fjarri, það elsta frá 1907. Í mörgum þeirra kemur samanburðarliður eða samanburðarsetning tengd með en á eftir, eins og í Siglfirðingi 1937, „Ekkert er fjarri Bjarna Benediktssyni en einræði og fasismaháttur“, eða í Tímanum 1959, „Ekkert er fjarri Framsóknarmönnum en að fylgja slíku fordæmi Sjálfstæðismanna“, eða í DV 1988, „Ekkert er fjarri honum en að fara í hnapphelduna á unga aldri“. Í slíkum tilvikum er augljóst að fjarri er notað eins og það væri miðstig því að samanburðartengingin en krefst miðstigs, og vegna þess að en kemur þarna á eftir er ekki hægt að skilja setningarnar á annan hátt en þarna sé notuð „röng“ beygingarmynd atviksorðsins án þess að það breyti merkingu.

En öðru máli gegnir um þau 37 dæmi af þessum 88 þar sem ekkert er fjarri sanni eða ekkert er fjarri sannleikanum er notað án þess að en fari á eftir. Ef þessi dæmi eru skilin bókstaflega, þannig að fjarri sé frumstig, ættu þau að merkja 'ekkert er langt frá sannleikanum' eða 'ekkert er ótrúlegt'. En það gera þau auðvitað ekki, enda væri slíkt eiginlega merkingarleysa. Þegar dæmin eru skoðuð sést að fjarri er þar líka notað í miðstigsmerkingu, t.d. í Morgunblaðinu 1956: „Í fyrirsögninni segir, að „íhaldið“ hafi misst fundinn úr höndum sér. […] Ekkert er fjarri sanni.“ Sama gildir um dæmi úr Þjóðviljanum 1975: „Auðvitað er það líkt og að snúa faðirvorinu uppá andskotann að kalla auðvaldsstefnuna húmanisma. Ekkert er fjarri sanni.“

Ég sé ekki betur en hvert einasta af þessum 37 dæmum um ekkert er fjarri sanni / sannleikanum hafi merkinguna 'ekkert er fjær sanni' en ekki 'ekkert er ótrúlegt' eins og væri í samræmi við orðanna hljóðan. Sama gildir um öll 25 dæmin um þessi sambönd í Risamálheildinni. Það þýðir auðvitað að samböndin merkja 'ekkert er fjær sanni' – hafa þá merkingu í huga málnotenda, alveg sama þótt því megi halda fram að hún sé ekki „rökrétt“. Merking fastra orðasambanda er nefnilega ekki alltaf sú sem búast mætti við út frá merkingu orðanna sem mynda þau. Annað þekkt dæmi um það er sambandið ekki ósjaldan sem undantekningarlítið merkir 'alloft' en ekki 'sjaldan'. Það veldur engum misskilningi þótt sagt sé ekkert er fjarri sanni.