Að leggja af stað eða leggja á stað

Ég er alinn upp við að nota forsetninguna á í samböndum sem merkja 'hefja ferð' eins og leggja á stað, fara á stað, halda á stað, komast á stað o.fl. Einhvern tíma hef ég lært að það sé „réttara“ að nota forsetninguna af í þessum samböndum og skrifa þess vegna alltaf leggja af stað, fara af stað, halda af stað, komast af stað, o.s.frv. en held að ég noti samt venjulega á í töluðu máli. Bæði sambönd með á og af eru gömul og koma fyrir í fornsögum – dæmi með á að vísu aðeins í 17. aldar handritum en finna má dæmi um af frá 14. öld. Samböndin með á hafa þó alltaf verið mun sjaldgæfari – 10-20 sinnum færri dæmi um þau á tímarit.is. Það er athyglisvert að hlutfall á var margfalt hærra í vesturíslensku blöðunum – málstaðallinn náði ekki til þeirra.

Ég átta mig ekki á því hvar eða hvenær ég lærði að af væri „rétta“ forsetningin í þessum samböndum og finn það ekki í kennslubókum. Í Íslenskri orðabók er bæði á stað og af stað gefið athugasemdalaust, en á þó innan sviga. En einstöku athugasemdir um að af sé hið rétta má þó finna á tímarit.is. Í Eimreiðinni 1941 segir Þorsteinn Stefánsson t.d.: „Fara á stað (t. d. í ferðalag), á að vera: Fara af stað. (Hér er átt við, að farið sé af eða frá einhverjum stað, en ekki verið að tiltaka, að farið sé til neins eða á neinn stað).“ Í Morgunblaðinu 1973 segir Sigurður Haukur Guðjónsson: „Ég veit, að víða er sagt „að leggja á stað“ í merkingunni að hefja för, en jafnrangt er það engu að síður og má ekki vera í bókum, sem börn læra málið af.“

Í bréfi sem Gísli Jónsson birti í þætti sínum í Morgunblaðinu 2001 segir: „Nákvæmnismaður sagði mér að ég mætti ekki tala um að fara á stað eða leggja á stað þegar um væri að ræða ferð til einhvers óákveðins staðar, t.d. ætti ekki að taka svo til orða að e–r hafi farið á stað til leitar, þá ætti tvímælalaust að segja að hann hefði farið af stað. Af er allt annað en á, sagði maðurinn og er það að vísu rétt. Ég er hins vegar vanur því, ég held frá barnæsku, að nota þessar forsetningar – af – og – á – jöfnum höndum um upphaf ferðar, á líklega öllu frekar […].“ En Gísli vildi ekki fordæma á og sagði: „Ég held af stað og á stað hvort tveggja jafnrétthátt.“ Og Málfarsbankinn segir: „Bæði þekkist að fara/leggja af stað og fara/leggja á stað“.

Ástæðurnar fyrir því að amast var við á eru væntanlega annars vegar að af hafi verið talið eldra, eins og heimildir benda vissulega til, og hins vegar að af hafi verið talið „rökréttara“ eins og fram kemur í tilvitnunum hér á undan. Það má vissulega til sanns vegar færa ef litið er til grunnmerkingar þessara forsetninga – af er notuð 'um stefnu eða hreyfingu frá e-m stað/í áttina frá e-u' en á er notuð 'um hreyfingu til staðar (með þf.) […]'. Málið er hins vegar ekki alltaf rökrétt og samböndin með á hafa fyrir löngu unnið sér hefð eins og Málfarsbankinn viðurkennir. Samkvæmt tímarit.is verða þau þó sífellt sjaldgæfari í formlegu máli en þau eru hins vegar tiltölulega algeng í óformlegu máli ef marka má samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar.