Gott viðtal um íslenskukunnáttu

Það er margt gott í viðtali Vísis í dag við Adriönu Karolinu Pétursdóttur formann Mannauðs, og ég get tekið undir flest af því sem þar kemur fram um íslenskukunnáttu og íslenskukennslu, svo sem þetta: „Adriana talar sjálf fyrir því að íslenskukennsla sé aðgengileg öllum sem koma hingað til að vinna og búa, helst á vinnutíma ef vinnutími er þannig að hægt er að skipuleggja slík námskeið“. Hún segir: „Ég vil sjá kennsluna á vinnutíma eða með sambærilegum hætti eftir því hver hefðbundinn vinnutími starfsfólks er. En það á ekki bara að ætlast til þess af atvinnulífinu að standa undir þessu. Stjórnvöld mega líka skoða hvernig þau geta komið að þessum málum. Því það hlýst svo margt gott af því að hjálpa fólki við að læra tungumálið.“

En þrátt fyrir þetta bendir Adriana á að það sé „mikilvægt að alhæfa ekki um of um nauðsyn íslenskunnar. Það er staðreynd að ekki öll störf krefjast þess að við kunnum íslensku. Oft þarf þess hreinlega ekki eða að það hreinlega telst ekki mikilvægt atriði í samanburð við hæfni eða menntun.“ Það er alveg rétt að íslenskukunnátta er ekki nauðsynleg forsenda þess að sinna ýmsum störfum fullkomlega, og í slíkum tilvikum er ástæðulaust og ómálefnalegt að krefjast hennar eða mismuna umsækjendum á grundvelli kunnáttu í málinu. En það má samt ekki gleyma því að þótt ekki reyni á íslenskukunnáttu í starfi fólks getur hún eftir sem áður verið mikilvæg til að fólkið geti tekið fullan þátt í samfélaginu og fest rætur í því.

En Adriana bætir við: „Á samfélagsmiðlunum ætlaði hins vegar allt um koll að keyra fyrir stuttu þegar Áslaug Arna ráðherra auglýsti starf án þess að fara fram á íslenskukunnáttuna. Fæstir pældu í því til hvers þyrfti að kunna íslensku í þessu starfi.“ Það er vissulega rétt að oft eru gerðar kröfur um íslenskukunnáttu án þess að fyrir því séu málefnaleg rök. En varðandi þetta tiltekna dæmi tek ég fram að ég skoðaði einmitt starfslýsinguna og gat ekki betur séð en íslenskukunnátta væri nauðsynleg til að gegna starfinu. Mér sýndist líka að íslenskukunnátta væri beinlínis lagaleg forsenda fyrir ráðningu í störf hjá ríkinu, en vissulega er ástæða til að taka það til endurskoðunar í ljósi mikillar fjölgunar nýbúa með fjölbreytta menntun og reynslu.