Málumhverfi leikskólabarna

Í gær birtist á Vísi grein eftir reyndan deildarstjóra í leikskóla þar sem hún lýsti miklum áhyggjum af málumhverfi barna í leikskólum. Á leikskóla sem hún vísaði til er fjöldi ófaglærðs starfsfólks sem að meirihluta á annað tungumál en íslensku að móðurmáli og margt hefur litla kunnáttu í íslensku. Þetta starfsfólk á a.m.k. átta mismunandi móðurmál og þar af leiðir að enska verður helsta samskiptamál þess sín á milli. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt – Ísland er orðið fjölmenningarsamfélag, leikskólabörn eru af ýmsum þjóðernum, og mikilvægt að starfsfólkið sé það líka. Það skaðar ekki máltöku barnanna þótt þau heyri önnur tungumál en íslensku í umhverfi sínu, eða þótt þau heyri íslensku talaða af fólki sem hefur ekki fullkomið vald á henni.

EN – og þarna er stórt og mikilvægt EN – það er samt grundvallaratriði að íslenskan í málumhverfi barnanna sé nægileg til að þau geti byggt upp málkerfi sitt, öðlast trausta málkunnáttu og beitt málinu af öryggi. Það er vitað að til þess að byggja upp móðurmálsfærni þurfa börn að heyra ákveðið lágmark af málinu í umhverfi sínu, ekki síst í samtölum, þótt ekki sé hægt að negla það lágmark nákvæmlega niður. En þegar haft er í huga að mörg börn eru í leikskóla stóran hluta vökutíma síns á virkum dögum má vera ljóst að það er bráðnauðsynlegt að veruleg íslenska sé í málumhverfi þeirra í leikskólanum. Ef stór hluti starfsfólks leikskóla talar litla sem enga íslensku er hætta á að börnin fái ekki nægilega íslensku í málumhverfi sínu.

Til að vinna á móti þessu er því gífurlega mikilvægt að foreldrar nýti þann tíma sem þau hafa með börnum sínum sem best til málörvunar – einkum til að tala við börnin, en einnig til að lesa fyrir þau og með þeim. Það ætti að geta dugað börnum íslenskra foreldra, en aðaláhyggjuefnið í þessu eru börn nýbúa þar sem heimilismálið er annað en íslenska. Þau börn verða að reiða sig á leikskólann til að fá þjálfun í íslensku, en ef málumhverfið þar er að talsverðu leyti á öðrum málum er hætt við að þau séu ekki búin að ná fullu valdi á íslensku þegar þau koma í grunnskólann og verði alltaf á eftir. Og það er líka hætta á að þau fái ekki nægilega örvun í heimilismálinu og öðlist í raun ekki móðurmálsfærni í neinu tungumáli. Það er mjög alvarlegt.

Þetta snýst nefnilega ekki bara um íslenskuna og framtíð hennar þótt hún sé mikilvæg. Þetta snýst fyrst og fremst um börnin og velferð þeirra – hvernig máluppeldið leggur grunn að framtíð þeirra. Rannsóknir benda til þess að móðurmálsfærni í einhverju tungumáli sé forsenda þess að ná góðu valdi á öðrum tungumálum. En ekki bara það, heldur hafa líka verið færð rök að því að góður málþroski stuðli að og eigi þátt í margvíslegri annarri hæfni, svo sem félagsfærni, stærðfræðigreind, og skipulags- og verkgreind. Þess vegna skiptir öllu máli að tryggja að börnin öðlist móðurmálsfærni í íslensku (eða einhverju öðru tungumáli) á máltökuskeiði. Að öðrum kosti eigum við á hættu að möguleikar þeirra á ýmsum sviðum í framtíðinni séu skertir.

Ég hef oft heyrt frá útlendingum að besta aðferðin til að læra íslensku sé að fá sér vinnu í leikskóla og læra málið í fjölbreyttum samskiptum við samstarfsfólkið og börnin. Það er án efa rétt – en ef meirihluti starfsfólksins er erlendur og enska aðalsamskiptamálið er hætt við að lítið verði úr íslenskunámi og enskunám komi í staðinn. En þetta er mjög viðkvæmt og vandmeðfarið mál og ég hef orðið var við að erlendu leikskólastarfsfólki finnst stundum að sér vegið í þessari umræðu. Það er skiljanleg tilfinning og við megum ekki með nokkru móti láta umhyggju fyrir íslenskunni og leikskólabörnum snúast upp í útlendingaandúð sem alltaf er hætta á. Það er ekki erlenda starfsfólkið sem er vandamálið – það eru kjörin og skortur á íslenskukennslu.

Ég veit ekki hvort eða hversu dæmigerð sú staða er sem lýst var í áðurnefndri grein í Vísi en legg áherslu á að það er mjög æskilegt að í leikskólum starfi fólk með annað móðurmál en íslensku. Það þarf hins vegar að gæta þess vel að hlutfall þess starfsfólks sem ekki er íslenskumælandi verði ekki svo hátt að enskan verði aðalsamskiptamálið en íslenskan verði hornreka. Þar með eru kostir fleirtyngds umhverfis horfnir, bæði fyrir starfsfólkið og börnin. Það verður að vera sameiginlegt átak að tryggja gott málumhverfi leikskólabarna, bæði með því að bæta kjör starfsfólks og draga úr starfsmannaveltu, og með því að stórauka og bæta kennslu íslensku sem annars máls. Fátt skiptir meira máli fyrir framtíðina en máluppeldi barna okkar.