Aðlögun tökuorða – grúppa eða grúbba?

Elsta dæmi um orðið grúppa á tímarit.is og í Ritmálssafni Árnastofnunar er úr Framsókn 1898 þar sem lýst er heimsókn í Glyptotekið í Kaupmannahöfn: „Svo þegar lengra er gengið, verða fyrir manni margar líkneskjur eptir annan franskan listamann Bárrías að nafni, þar er t. a. m. ein grúppa (grúppa kallast það, ef að 3. 4. osv. frv. myndir standa saman á einni plötu) sem er tekin úr sögu Rómverja.“ Ýmislegt sýnir að þessi texti er þýðing og þarna er liggur augljóslega danska orðið gruppe að baki. En næsta dæmi er úr vesturíslenska blaðinu Heimskringlu 1933 þar sem stendur „þessir þorpakofar voru bygðir saman í “grúppum”“ og er væntanlega af enska orðinu group. Orðið grúppa í íslensku styðst því bæði við danskar og enskar samsvaranir.

Þegar erlend orð eru tekin inn í íslensku þarf yfirleitt að laga þau eitthvað að málinu, einkum í framburði og stafsetningu. Áður fyrr komu langflest tökuorð í gegnum ritmálið og því eðlilegt að það hafi verið ráðandi í aðlöguninni. Til að fella gruppe að íslensku þurfti einungis að breyta stofnsérhljóðinu u í ú og endasérhljóðinu e í a. En tvíritað -pp- í íslensku er borið fram með svokölluðum aðblæstri, eiginlega h-hljóði á undan lokhljóðinu [kruhpa], eins og skrifað væri grúhpa. Í dönsku er hins vegar enginn aðblástur – þar er framburðurinn [gʁubə] þar sem stutt b kemur á eftir stuttu ú. Sú atkvæðagerð er ekki til í íslensku og stutta sérhljóðið veldur því að við skynjum yfirleitt langt bb í slíkum tilvikum – eins og borið væri fram grúbba.

Nýlega var sagt hér í færslu „nú skrifa allir „grúbba““. Þetta er reyndar mjög ofmælt en vissulega er það rétt að þarna tíðkast tvenns konar ritháttur. Eins og skýrt er hér að framan er grúppa það sem búast mætti við út frá rituðu máli og er viðurkenndur ritháttur, en út frá framburði liggur grúbba beinast við. Risamálheildin bendir til þess að sá ritháttur sé nær eingöngu bundinn við óformlegt málsnið þótt grúppa sé líka aðalmyndin þar. Nú á tímum heyrum við mjög mikið af erlendum málum, bæði á ferðalögum, í fjölmiðlum og á netinu, og því má búast við að framburður sé mun þungvægari í aðlögun og meðferð tökuorða en áður. Vissulega heyrum við aðallega ensku en ekki dönsku, en þar er framburðurinn líka án aðblásturs, [ɡruːp].

Annað svipað en þó svolítið frábrugðið dæmi má taka af orðinu túpa í merkingunni 'hólkur úr plasti eða málmi fyrir kremkennt efni' sem er tökuorð úr dönsku, tube. Elstu dæmi um orðið í þeirri merkingu eru frá því 1911. Í Norðra stendur „Skócreame í túpum á svarta, brúna og gula skó“ en í Gjallahorni stendur „Filscreme í túbum á svarta, brúna og gula skó“. Þarna er orðið sem sé ýmist ritað með p eða btúpa eða túba. Rithátturinn túba samsvarar dönskum rithætti, og raunar dönskum framburði líka. Hins vegar er hann í ósamræmi við íslenskar ritvenjur þar sem b er yfirleitt ekki haft milli sérhljóða heldur p. Þar við bætist að í norðlenskum (harðmælis)framburði er aldrei borið fram ófráblásið b í slíkri stöðu heldur fráblásið p.

Þótt túpa viðurkenndur ritháttur orðsins í samræmi við íslenska rithefð hefur rithátturinn túba einnig verið algengur alla tíð (og er viðurkenndur sem heiti á hljóðfæri). Í sunnlenskum framburði stendur p milli sérhljóða fyrir ófráblásið hljóð, eins og í tapa, þannig að þetta olli engum vandkvæðum þar. En til að fella orðið túba að norðlensku hljóðkerfi voru farnar tvær mismunandi leiðir. Annars vegar var lokhljóðið gert fráblásið, p, [tʰuːpʰa] og þannig náðist venjulegt samræmi milli ritunar og framburðar. En hin leiðin var að lengja lokhljóðið b og bera orðið fram [tʰupːa] túbba, því að langt bb milli sérhljóða fellur að norðlensku hljóðkerfi þótt stutt b geri það ekki. Fáein slík dæmi má finna á tímarit.is, flest úr norðlenska blaðinu Degi.