Gluggaveður

Á dögum sem þessum verður manni óneitanlega gripið til hins ágæta orðs gluggaveður sem er skýrt 'bjart og fallegt veður sem virðist gott þegar litið er út um glugga' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Elsta dæmi um þetta orð er í Morgunblaðinu 1985 þar sem það er bæði notað í fyrirsögn og inni í frétt: „En þó að sólin skíni veldur köld norðan golan því oft að úti er ískalt, það er sem sagt bara „gluggaveður“.“ Næsta dæmi er í Austra 1989: „Í Reykjavík er mjög oft svokallað „gluggaveður“ þegar sólin skín glatt, en kuldabelgingur er úti.“ Fyrstu árin er orðið oft haft innan gæsalappa eða talað um „svokallað gluggaveður“ sem sýnir að það er ekki orðið almennt þekkt. Væntanlega hefur það orðið til einhvern tíma á níunda áratugnum.

En orðið hefur þótt hitta í mark og breiddist fljótt út upp úr 1990. Á tímarit.is eru tæp 150 dæmi um það frá síðustu þremur áratugum og í Risamálheildinni eru dæmin á fjórða hundrað. Það er líka komið inn í orðabækur – ekki bara Íslenska nútímamálsorðabók, heldur líka Íslenska orðabók og ISLEX-orðabókina milli íslensku og Norðurlandamála. Árið 2016 var gerð úttekt í Morgunblaðinu á skrifum útlendinga á twitter um ýmis sérkenni íslensku og þar sagði: „Það vekur gjarnan athygli útlendinga að Íslendingar skuli eiga sérstakt orð yfir fyrirbærið „gluggaveður“. Twitter er þar ekki undanskilið en með vinsælli tístum tengt Íslandi hefur verið þetta bráðsnjalla orð […].“ Í greininni er svo birt íslensk þýðing á nokkrum tvítum um þetta.

Þetta er nefnilega eitt fárra íslenskra orða sem hafa orðið „útflutningsvara“. Í Urban Dictionary er flettiorðið window weather skilgreint á sama hátt og í íslensku og bætt við: „origin: An Icelandic expression: „Gluggaveður“ (literally: Window-weather).“ Orðið er líka á síðu sem heitir Does not Translate þar sem er að finna óþýðanleg orð – „Words and concepts that can't easily be translated to other languages“. Á netinu má finna fjölda greina og færslna um orðið, t.d. „How the Icelandic Word Gluggaveður Can Help You Appreciate Being at Home“, og „Embrace Icelandic concept Gluggaveður and appreciate outdoor weather from inside“. Á youtube má líka finna myndband á ensku um orðið í röðinni „Weird Icelandic Words“.