Ásættanlegt og óásættanlegt

Fáum orðum hefur verið hallmælt jafnoft og jafnmikið í málfarsþáttum undanfarna áratugi og lýsingarorðunum ásættanlegt og óásættanlegt. Málfarsbankinn segir: „Betra er að segja að eitthvað sé viðunandi eða hægt sé að fallast á það en að það sé „ásættanlegt“ og orðin hafa verið kölluð „leiðindaorð“, „orðaleppar“ og „orðskrípi“, og sögð „hvimleið tískuorð“ sem séu að útrýma ágætum orðum eins og (ó)viðunandi og þolanlegt. Árni Böðvarsson amaðist við orðunum í bókinni Íslenskt málfar, sömuleiðis Ari Páll Kristinsson í bókinni Handbók um málfar í talmiðlum, og Gísli Jónsson hnýtti í þau í á annan tug skipta í þáttum sínum sínum í Morgunblaðinu frá 1991-2001. Þá er ótalinn sægur athugasemda á samfélagsmiðlum.

Mér sýnist að fyrst hafi verið amast við þessum orðum í þætti Garra í Tímanum 1988 þar sem sagði: „En það var orðið „óásættanlegur“ sem Garri hnaut um. Líklega er þó ekki beinlínis hægt að segja að þetta sé málvilla […], en óskaplega er þetta þó ambögulega að orði komist.“ Víkverji segir í Morgunblaðinu 1990: „Á síðustu misserum hafa þessir menn komið sér upp nýju orði. Nú er allt ýmist ásættanlegt eða ekki ásættanlegt!“ Í Þjóðviljanum sama ár segir Árni Bergmann: „Við freistumst til að telja suma misskiptingu guðs gjafa „ásættanlega“ eins og það heitir“, og Í DV 1991 segir: „Falskur fiðluleikur er, svo notað sé tungutak landsfeðranna, ekki ásættanlegur nú til dags.“ Orðalagið í tveimur seinustu dæmunum sýnir að orðið er þarna nýtilkomið.

Elsta dæmi sem ég finn um ásættanlegt er í Vísi 1976: „Bann við notkun afkastamikils veiðarfæris eins og flotvörpu er einnig andstætt öllum vilja til framfara en hlýtur þó að vera ásættanlegra“. Frá 1977 og 1978 eru nokkur dæmi, öll úr Verkalýðsblaðinu, en um 1980 kemst orðið í töluverða notkun og verður mjög algengt eftir 1990. Andheitið óásættanlegt fylgir sama mynstri en kemur aðeins á eftir – elsta dæmi um það er í Morgunblaðinu 1979: „Fjölgun fulltrúa ríkisstjórnar í sjóðsstjórninni er óásættanleg fyrir sjávarútveginn.“ Örfá dæmi eru um orðið fram um 1990 en eftir það fjölgar dæmunum ört, einkum eftir miðjan tíunda áratuginn. Þetta rímar vel við að farið er að gera athugasemdir við orðin undir 1990 eins og áður segir.

Gísli Jónsson taldiásættanlegt væri „líklega þýðing á ensku acceptable“. En þótt ásættanlegt samsvari acceptable nokkurn veginn að merkingu til er það ekki næg ástæða til að kalla það „þýðingu“ og ég sé engin rök fyrir því að halda slíku fram – það endurspeglar ekki enska orðið að formi. Enda kæmi þá fleira til greina en acceptable – í Þjóðviljanum 1990 segir t.d.: „Niðurstaðan er sú að áhættan vegna Áburðarverksmiðjunnar er ásættanleg („tolerable risk“) fyrir íbúðarbyggðina eins og hún er í dag.“ Orðin ásættanlegt og óásættanlegt eru rétt mynduð íslensk orð, hliðstæð við t.d. áreiðanlegt og óáreiðanlegt eða viðráðanlegt og óviðráðanlegt sem allt eru gamalgróin orð sem engum kemur til hugar að amast við.

Í þættinum Íslenskt mál í Morgunblaðinu 2002 sagðist Karl Emil Gunnarsson ekki heldur amast við orðunum „á fagurfræðilegum forsendum“ heldur þætti sér slæmt „hversu herská orðin ásættanlegur og óásættanlegur eru og hafa nánast lagt undir sig merkingarsvið þar sem mörg eldri orð, sum þjálli og öll fallegri [...], hafa lengi deilt í sátt og samlyndi. Þar hefur viðunandi orðið einna harðast úti og andheiti þess, óviðunandi.“ Og Njörður P. Njarðvík sagði í Morgunblaðinu 1994: „Nú tala menn sífellt um „ásættanlega niðurstöðu“ eða jafnvel um „ásættanlega lendingu“ þegar deilu er lokið eða málalyktir hafa fengist. Það er langt síðan ég hef heyrt eða séð orðið viðunandi í þvílíku samhengi (og hefur það þó talist algengt orð).“

En þetta er misskilningur eða skynvilla – því fer fjarri að ásættanlegt og óásættanlegt hafi útrýmt viðunandi og óviðunandi. Í Risamálheildinni sem hefur einkum að geyma texta frá síðustu 20 árum eru 25.441 dæmi um ásættanlegt og 18.435 um óásættanlegt en 32.899 dæmi um viðunandi og 20.022 um óviðunandi. Síðarnefndu orðin hafa því enn vinninginn, þótt vissulega megi sjá á tímarit.is að þau fyrrnefndu hafa sótt á. En ásættanlegt og óásættanlegt eru rétt mynduð orð sem eiga sér skýrar hliðstæður í málinu, eru ekki þýðing eða eftiröpun enskra orða, og eru ekki að útrýma samheitum sínum. Þau eru viðbót við orðaforðann og auðga þannig málið. Þrátt fyrir það getur fólki vitanlega fundist þau ljót, og um það þýðir ekki að deila.