Góss

Í gær rakst ég á það í Málvöndunarþættinum að spurt var um orðið góss – hvort það væri til bæði í eintölu og fleirtölu. Fyrirspyrjandi þekkti það bara í eintölu en í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er þó fleirtala einnig gefin upp. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'eignir' og tekið fram að það sé „gamalt“ sem merkir væntanlega að það sé lítið notað í nútímamáli. Svo virðist þó ekki vera – í Risamálheildinni er á þriðja þúsund dæma um það, bæði úr formleg og óformlegu máli. Orðið er töluvert notað í lagamáli og á því eru þrjár skilgreiningar í Lögfræðiorðasafninu: 'Eignasafn, samsafn smárra sem stórra hluta og eigna'; 'Stórbýli'; og 'Farmur, sbr. stykkjagóss' sem tekið er fram að sé „einkum í eldra sjóréttarmáli“.

Eins og kemur fram í Íslenskri orðsifjabók er orðið góss upphaflega góðs, eignarfall eintölu af lýsingarorðinu góður, í samböndum eins og eiga nokkuð góðs í merkingunni 'eiga eitthvað af (einhverju) góðu'. Í Ordbog over det norrøne prosasprog er hátt á annað hundrað dæma um orðið sem er skrifað með ýmsu móti í fornum textum: godz, goðs, goz, goðz, góðs, góz, o.fl. Í sumum þessara dæma væri hugsanlegt að greina orðið sem eignarfall lýsingarorðs út frá setningarstöðu – „gekk hann fyrir jarl ok bauð fyrir Flosa allt þat góðs, er hann átti“ segir t.d. í Njálu. En í flestum tilvikum er það þó greinilega notað sem nafnorð og bætir iðulega við sig nafnorðsendingum – „stalu þiofar micklu godzi“ segir t.d. í Þorláks sögu helga.

Í langflestum tilvikum er orðið notað í eintölu í fornu máli, en fleirtala kemur þó fyrir – „Hæringr tók við gózum Þorgils“ segir í Flóamanna sögu og í máldaga frá 1408 er talað um að „skoða góssin“. Fáein dæmi eru um fleirtölu frá síðari öldum – „Öll þau godtz og peningar“ segir í bréfi frá 1542, og í Vallaannál segir árið 1720: „hafði gefið amtmanni mestan hlut góssa sinna, fastra og lausra.“ Nokkur dæmi eru um fleirtölu á tímarit.is. „Prestekknasjóðinn getur ríkið auðvitað tekið með ofríki og allar eignir kirkjufjelagsins, líkt og fornu góssin voru tekin“ segir í Kirkjublaðinu 1895. „Hann ólst upp á góssum feðra sinna, m.a. í Graditz“ segir í Morgunblaðinu 1987. „Kaflinn um íslensku góssin er fróðlegur“ segir í Sögu 1976.

Fleirtalan var þó alla tíð mjög sjaldgæf og eingöngu notuð í merkingunni 'jarðeign, stórbýli' Eintalan getur einnig haft þá merkingu sem sést þó sjaldan í nútímamáli, sem og samsetningin stórgóss sem er væntanlega tekið beint úr Storgods í dönsku – sama gildir um gósseigandi af Godsejer. Ýmsar fleiri samsetningar af orðinu eru til, margar notaðar í (eldra) lagamáli og skilgreindar í Lögfræðiorðasafninu svo sem erfðagóss 'Erfðafé', jarðagóss 'Jarðeignir', kirkjugóss 'Kirkjueignir, fjármunir í eigu kirkju', lausagóss 'Lausafé', stykkjagóss 'Laus farmur, einstakar flutningseiningar' o.fl. Farmur strandaðra skipa var nefndur strandgóss – „Uppboð var haldið í gær á strandgóssinu frá »Rigmor« segir í Verkamanninum 1921.

En í nútímamáli er orðið góss langoftast notað um samsafn ýmissa (oft óskyldra) hluta og iðulega talað um „allt góssið“. „Ójá, það var stundum mikið umstang meðan klakka þurfti allt góssið og reiða á hestum yfir langa fjallvegi“ segir í Austra 1957. „Ég átti bágt með að fela hneykslun mína þegar ég sá allt góssið; geislaspilara, fullt af diskum, hátalara, rosalegt magn af sælgæti og svo áfengi“ segir í Vikunni 2000. „Hún skilur eftir sig slóð leyndarmála og auðæva og það má búast við hörðum deilum erfingja um hver hljóti allt góssið“ segir í Fréttablaðinu 2011. Mjög algengt er líka að nota góss um ránsfeng – „Það er alveg nýtt að þjófar steli beinlínis til að flytja góssið á haugana“ segir í Morgunblaðinu 2010. Skýringin 'eignir' er því ófullkomin.