„Ólafsfjarðareignarfallið“

Í pistli hér nýlega var minnst á þá „almennu reglu að (í máli flestra) er ákveðinn greinir ekki hafður á nafnorði sem tekur með sér annað nafnorð í eignarfalli (eignarfallseinkunn)“. Þarna er vísað til þess að yfirleitt er ekki sagt bókin Jóns eða bíllinn Gunnu – annaðhvort verður að sleppa greininum og segja bók Jóns og bíll Gunnu eða skjóta persónufornafni inn á milli, bókin hans Jóns og bíllinn hennar Gunnu. En frá þessu eru þó undantekningar eins og svigagreinin „í máli flestra“ vísar til. Í máli sumra eru setningar eins og bókin Jóns og bíllinn Gunnu nefnilega fullkomlega eðlilegar. Þessi setningagerð gengur oft undir nafninu „Ólafsfjarðareignarfallið“ vegna þess að henni var fyrst lýst ítarlega í máli Ólafsfirðinga.

Þá lýsingu er að finna í samnefndri BA-ritgerð Gunnhildar Ottósdóttur frá 2006. Síðan þá hefur setningagerðin verið rannsökuð töluvert og komið í ljós að hún er ekki bundin við Ólafsfjörð þótt kjarnasvæði hennar virðist vera þar og í bæjum í grennd, Siglufirði og Sauðárkróki. Langbesta yfirlitið um þessa setningagerð (eins og margar aðrar) fékkst í viðamikilli rannsókn sem nefndist Tilbrigði í íslenskri setningagerð og Höskuldur Þráinsson stóð fyrir á árunum 2005-2007, en niðurstöður hennar birtust í þremur bókum á árunum 2013-2017. Í öðru bindinu, sem kom út 2015, er ítarlegur kafli um Ólafsfjarðareignarfallið. Þar er fjallað um tengsl þessarar setningagerðar við ýmsar breytur – aldur, menntun, kyn og búsetu þátttakenda.

Í rannsókninni, sem fór fram á 26 stöðum um allt land (Ólafsfjörður var reyndar ekki með), voru þátttakendur úr fjórum aldurshópum spurðir um mat á fjölda setninga þar sem fram komu ýmis hugsanleg tilbrigði í setningagerð. Þær setningar sem varða Ólafsfjarðareignarfallið voru: Tölvan mömmu var tekin en ekki mín; Peysan mömmu varð eftir á snúrunni; Bíllinn Jóns var á sumardekkjum; Loksins fann ég þá í vasanum mömmu; Þetta er boltinn pabba míns; Hesturinn stráksins var seldur um daginn; Nefið Magnúsar er ennþá bólgið eftir aðgerðina. Þáttakendur áttu að merkja við einn þriggja kosta: „Eðlileg setning. Svona get ég vel sagt“; Vafasöm setning. Ég myndi varla segja svona“; „Ótæk setning. Svona get ég ekki sagt“.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru: „Meirihluti þátttakenda [á bilinu 72-83%] hafnaði þessari setningagerð […]. Dómar þátttakenda sýndu ekki skýra fylgni við aldur, menntun eða kyn […] þótt jákvæðir dómar væru reyndar frekar algengari hjá þeim sem höfðu minni menntun og karlar væru frekar jákvæðari en konur. Dómarnir sýndu mjög skýra fylgni við búsetu. Þátttakendur frá Siglufirði og Sauðárkróki skáru sig úr en setningagerðin hlaut líka nokkuð jákvæða dóma á Patreksfirði og jafnvel Kirkjubæjarklaustri […]. Þetta staðfestir að nokkru leyti það sem vitað var áður, þótt vinsældir setningagerðarinnar á Patreksfirði (og Kirkjubæjarklaustri) hafi komið á óvart.“ (Tilbrigði í íslenskri setningagerð II, bls. 258.)

Þrátt fyrir að víða um land finnist stöku málnotendur sem samþykkja þessa setningagerð er þetta óvenju skýrt dæmi um landshlutabundinn mun í setningagerð sem virðist nokkuð stöðugur, þ.e. ekki er að sjá að hann sé á undanhaldi hjá yngri kynslóðinni nema síður sé. Ég er alinn upp á kjarnasvæði setningagerðarinnar, í Skagafirði, en fyrst þegar farið var að ræða um hana taldi ég mig ekki nota hana. En síðan hef ég stundum staðið mig að því að segja setningar af þessu tagi og áttað mig á því að þær eru alls ekki framandi fyrir mér. Ég held samt að ég myndi aldrei skrifa slíkar setningar og e.t.v. tengjast þær fremur óformlegu málsniði í huga málnotenda – hugsanlega hafa þær í einhverjum tilvikum verið leiðréttar í skóla þótt ég geti ekki fullyrt það.