Að færa fram

Nýlega sá ég hjá Facebookvini umræður um það hvað færa fram merkti þegar vísað er til tíma. Auðvitað er enginn vafi á því hvað fram í tímann merkir, t.d. sjá fram í tímann – en hvað merkir fundurinn sem boðaður var klukkan eitt verður færður fram um klukkutíma? Verður fundurinn haldinn fyrr eða síðar en áformað var – klukkan tólf eða klukkan tvö? Um þetta er fólk alls ekki sammála og það er í sjálfu sér skiljanlegt. Oft merkir fram 'fyrr‘ eða 'á undan' – ef við færumst fram eða framar í biðröð komumst við fyrr að og ef fólk treðst fram fyrir okkur í röðinni verður það á undan okkur. Þess vegna er eðlilegt að fundurinn verður færður fram um klukkutíma sé skilið þannig að fundurinn verði haldinn fyrr en til stóð – og það virðist líka vera venjulega merkingin.

Ýmis dæmi má þó finna þar sem færa fram merkir 'seinka'. Í Tímariti iðnaðarmanna 1928 segir: „Sýningin var opnuð í Gagnfræðaskólanum á Akureyri 26. júní 1906 kl. 12. á hádegi og stóð hún til 1. júlí s. á. Stóð til að loka henni 30. júní, en var fært fram um einn dag.“ Í Alþýðublaðinu 1935 segir: „Frönsk blöð segja, að í frumvarpinu sé auk lengingar herþjónustutímans herskyldualdurinn færður fram um eitt ár, eða frá 20 til 21 ára.“ Í Vísi 1956 segir: „Hundadagar byrjuðu í gær 13. júlí. […] Þessi trú var að sjálfsögðu bundin við gömlu hundadagana, sem byrja 2.-3. júlí, – en upphaf hundadaga var fært fram um 10 daga 1924.“ Í DV 2001 segir: „Upprunalegur leikdagur var á laugardaginn en viðureigninni hefur nú verið frestað og færð fram um einn dag.“

Fáein fleiri má finna á tímarit.is og í Risamálheildinni en það virðist ljóst að þessi merking sé fremur sjaldgæf. Frá því er þó ein skýr undantekning. Þegar klukkunni er flýtt við upphaf sumartíma er alltaf sagt að hún sé færð fram. Þannig segir t.d. í Tímanum 1950: „Í nótt sem leið, var tekinn upp sumartími hér á landi og klukkunni flýtt um eina klukkustund, þannig, að þegar hún var eitt, var hún færð fram um eina klukkustund.“ Klukkan er sem sé færð fram frá því að vera eitt til að vera tvö og þess vegna er ekkert undarlegt þótt sumum finnist að fundur sem er færður frá klukkan eitt til tvö sé líka færður fram. Merkingin 'seint' eða 'seinka' felst iðulega í orðinu fram um tíma, t.d. þegar sagt er að komið sé langt fram á daginn, eitthvað frestist fram eftir degi og það sé framorðið.

Í óformlegri könnun Facebookvinarins sem vísað var til í upphafi völdu rúmlega 4/5 merkinguna 'flýta'. En það er athyglisvert að í óformlegri könnun sem Ari Páll Kristinsson gerði fyrir nokkrum árum og sagt er frá á Vísindavefnum voru niðurstöður þveröfugar. Þar voru 34 þátttakendur beðnir að botna eftirfarandi setningu: Fundurinn, sem vera átti 10. mars, hefur verið færður fram um viku og verður – og möguleikarnir voru 3. mars og 17. mars. Niðurstaðan var sú að u.þ.b. ¾ þátttakenda völdu 17. mars – skildu færður fram sem seinkun. Jafnframt voru sjö þátttakendur spurðir hvað það merkti ef sagt væri að klukkan hafi verið færð fram um tvo tíma og allir sögðu það merkja að hún hefði verið færð til baka, t.d. frá 15 til 13 en ekki til 17 – öfugt við það sem sést í blöðum.

En báðar merkingar sambandsins færa fram eru skiljanlegar og eiga sér langa sögu í málinu, og ekki er hægt að segja að önnur sé réttari en hin. Á hinn bóginn er vissulega óheppilegt og getur komið sér illa að fólk skilji sambandið ekki á sama hátt. Þótt það sé mjög algengt að orð og orðasambönd hafi fleiri en eina merkingu sker samhengið venjulega úr og þetta leiðir því sjaldan til misskilnings. Undantekningar eru þó til, eins og með sambandið helmingi meira sem fólk skilur ýmist sem 'tvöfalt meira' eða '50% meira'. Þett er annað dæmi þar sem samhengið sker ekki alltaf úr. Í ljósi þess að merkingin 'flýta‘' virðist (oftast) vera algengari en 'seinka' í sambandinu færa fram væri æskilegt að málnotendur kæmu sér saman um hana – eða töluðu um að flýta og seinka.