Hringdu í fjögur þrjú tvö - eða fjóra þrjá tvo?

Nýlega varð hér umræða um það hvers vegna við höfum töluorðið í hvorugkyni í dæmum eins og skór í stærð fjörutíu og eitt enda þótt nafnorðið stærð sé kvenkyns. Ýmsum fannst eðlilegt að gera ráð fyrir að málnotendur væru með hvorugkynsorðið númer í huga, skór í stærð númer fjörutíu og eitt, og töluorðið samræmdist því. Þetta er svo sem ekki óhugsandi en ég sé engin rök fyrir því – önnur en hvorugkynsform töluorðsins sem hægt er að skýra á annan hátt. Ég tel að þetta stafi af því að töluorðið á ekki við stærð – þetta merkir ekki 'fjörutíu og ein stærð'. Töluorðið hefur því ekkert nafnorð til að samræmast og kemur þess vegna fram í hlutlausri mynd, hvorugkyni eintölu, af sömu ástæðu og við fáum hvorugkyn í klukkan er tvö, ekki *tvær.

Ef fyrri skýringin væri rétt yrði að gera ráð fyrir að sama máli gegndi um öll tilvik þar sem nafnorð er haft á undan tölu – blaðsíða tvö, kafli tvö, Stöð tvö, hluti tvö o.s.frv. Vissulega er hægt að halda því fram að málnotendur séu alltaf með númer í huga í þessum samböndum en mér finnst hitt samt mun trúlegra, m.a. vegna hliðstæðu við setningar eins og klukkan er tvö þar sem hægt er að færa ótvíræð rök fyrir því að tvö sé hlutlaust hvorugkyn. Athugið líka að þegar við lesum númer, t.d. símanúmer, sem staka tölustafi notum við karlkynsmyndir talnanna en ekki hvorugkyn, hvort sem orðið númer fer á undan eða ekki. Við segjum ég er í (númer) fjórir þrír tveir … og hringdu í (númer) fjórir þrír tveir … eða fjóra þrjá tvo ….

Þetta samræmist því að þegar við teljum, án þess að vera að telja nokkuð sérstakt, notum við karlkynsmyndir beygjanlegra töluorða – einn, tveir, þrír, fjórir. Í þessu samhengi er karlkynið sem sé hlutlaust. En ef við erum að telja eitthvað sérstakt fer kyn töluorðanna hins vegar eftir því nafnorði sem við erum með í huga, hvort sem það er nefnt eða ekki – eitt (barn), tvö (börn), þrjú (börn), fjögur (börn); ein (bók), tvær (bækur), þrjár (bækur), fjórar (bækur). Ef það væri samræmi við orðið númer sem ylli því að við segjum stærð (númer) fjörutíu og eitt mætti búast við því að slíkt samræmi kæmi líka fram í símanúmerunum og við segðum *ég er í (númer) fjögur þrjú tvö …eða *hringdu í (númer) fjögur þrjú tvö …. En það er útilokað í máli flestra.