Hvað segist á því?

Nýlega rakst ég fyrir tilviljun á setningar sem komu mér undarlega fyrir sjónir, þar sem miðmyndin segjast var notuð í sambandinu segjast á – dæmi eins og „Hvað segist á því að bera það upp á saklausan mann?“ í Ísafold 1892 og „Er það þá við þessi einu lög, sem ekkert segist á að hjálpa til að brjóta?“ í Lögréttu 1919. Við nánari athugun sýndist mér þetta merkja 'vera refsivert' eða 'vera refsað fyrir' og það staðfestist í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924: „það segist á e-u, n-t er strafbart“ þ.e. 'eitthvað er refsivert'; „mikið segist á e-u, n-t bliver dömt haardt, n-t medfører en haard Straf“, þ.e. 'eitthvað er dæmt hart, eitthvað leiðir til þungrar refsingar'. Ég hef ekki fundið þetta samband í öðrum orðabókum.

Elsta dæmi um þetta samband sem ég hef fundið er úr Hentug handbók fyrir hvörn mann eftir Magnús Stephensen frá 1812 þar sem segir: „en brúki húsbændur formælíngar og blygðunarlaus ærukreinkjandi orð við hjú sín, segist á því, sem við óviðkomandi, eptir áðursögðu“. Þarna merkir segist á því greinilega 'er refsað fyrir það'. Í Alþingistíðindum 1857 segir: „það segist meira á öllum afbrotum gegn tilskipuninni, þegar þau eru framin um messutímann.“ Þarna merkir segist meira á 'er refsað harðar fyrir'. Í Manni og konu eftir Jón Thoroddsen frá því fyrir 1870 segir: „Það segist ekki lítið á því að ráðast á saklausa menn.“ Fjölda dæma má svo finna um þetta orðalag frá síðari hluta 19. aldar og fram um 1920 á tímarit.is.

Elsta dæmið er í Þjóðólfi 1860: „Þ.e. að mega við hafa lækníngar og læknismeðöl, án þess á því segist, þótt hann sé ekki útlærðr læknir.“ Í Lögfræðingi 1899 segir: „Í Englandi er það venja, að eigi segist á ummælum um siðleysi annara, nema því að eins að sá, sem fyrir verður, bíði tjón í atvinnu sinni, embætti eða sýslan.“ Í Fréttum 1918 segir: „Yfirleitt er auk þess meðvitund manna þannig farið, að virðing þeirra fyrir lögunum virðist mjög fara að því, hve mikið segist á því að brjóta þau.“ Iðulega er notað sambandið hvað segist á því? í merkingunni 'hvernig er refsað fyrir það' eða 'hver er refsingin við því'. Í Ísafold 1891 segir: „Hvað segist á því, að uppnefna saklausa menn með ósæmilegum nöfnum og yrkja um þá níð?“

Eftir 1920 eru aðeins stöku dæmi á stangli um sambandið segjast á á tímarit.is og ég hef aðeins fundið tvö dæmi yngri en 50 ára. Annað er í Vísi 1975: „En það er einkennilegt, ef ekkert segist á því að beita mig atvinnurógi og valda mér margföldum skaða í fjölda ára.“ Þetta er haft eftir Jóni Þorleifssyni sem þarna var hátt á sjötugsaldri. Hitt dæmið er í DV 1982: „En ekki segist á því að nefna tvennt, sem í hugann kemur af þessu tilefni.“ Þetta er í bréfi frá Guðmundi Guðmundssyni sem ég veit ekki deili á en trúlegt að hafi verið vel fullorðinn. Ekkert dæmi fannst í Risamálheildinni. Þetta sérkennilega orðasamband, sem ég átta mig ekki á hvernig hefur komið til, virðist því vera með öllu horfið úr málinu en gaman að vita hvort þið kannist við það.