Að reiða – eða reita til reiði?

Í gær sá ég á vefmiðli fyrirsögnina „Haaland eldri reiddi stuðningsmenn Real“, og í fréttinni sjálfri stóð „Alfie Haaland, faðir stjörnuframherjans Erlings Haaland hjá Manchester City, reiddi stuðningsmenn Real Madrid er liðin mættust í fyrri leik sínum í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í gær“. Setningarstaða orðsins reiddi sýnir að þetta er sögn og formið bendir til þess að nafnhátturinn sé reiða – sbr. beiddi, leiddi, sneiddi af beiða, leiða, sneiða. Af samhenginu var ljóst að reiddi merkti þarna 'gerði reiða' og nú hefur þessu verið breytt í hið hefðbundna orðalag reitti til reiði, bæði í fyrirsögn og fréttinni sjálfri. En var nauðsynlegt að breyta þessu? Getur upphaflega orðalagið staðist eða er það argasta málvilla?

Sögnin reiða er vitanlega til í málinu og í Íslenskri nútímamálsorðabók eru fimm merkingar hennar skilgreindar, en sú sem hér um ræðir er ekki þar á meðal. Í safni Ordbog over det norrøne prosasprog eru hins vegar tvö dæmi frá 13. öld um sögnina í þessari merkingu: „Þó að konunginum mislíkaði ræða hans þá vildi hann þó eigi reiða hann“ og „móti því er eg hefi svo lengi reitt hann“. En bæði dæmin eru úr Baarlams sögu ok Jósafats sem er talin norsk þýðing þótt vissulega hafi ekki verið mikill munur á norsku og íslensku á þessum tíma. Í dæmi eins og „vær villdum alldri þig nu reitt hafa“ í Einni kristilegri handbók frá 16. öld gæti verið um sögnina reiða að ræða, en einnig er hugsanlegt að þetta sé af sögninni reita (til reiði).

Hvað sem þessu líður er reiða ekkert óeðlileg sögn í þessari merkingu. Hún er þá leidd af lýsingarorðinu reiður á sama hátt og greiða í merkingunni 'gera greiðara' (t.d. greiða úr flækju) er leidd af lýsingarorðinu greiður og heiða í merkingunni 'birta' (t.d. heiða til) er leidd af lýsingarorðinu heiður. Merkingarvenslin milli lýsingarorðs og sagnar eru hliðstæð í þessum tilvikum. Við það bætist að til er miðmyndarsögnin reiðast í merkingunni 'verða reiður' og þótt þess séu vissulega dæmi að miðmyndarsögn sé til en ekki samsvarandi germyndarsögn, svo sem ferðast en ekki *ferða, eru þau dæmi mjög fá. Því er ekkert undarlegt að málnotendum finnist að sögnin reiða sé til – eða ætti að vera til – í merkingunni 'gera reiðan'.

Er þá eitthvað á móti því að nota sögnina reiða á þann hátt sem upphaflega var gert í áðurnefndri frétt? Auðvitað má benda á að sögnin hafi aðrar merkingar, en það ætti alveg að vera hægt að bæta einni við, og samhengið ætti oftast að skera úr um hver þeirra á við. Það sem fólk gæti helst haft á móti reiða í þessari merkingu er annars vegar að um nýjung sé að ræða, og nýjungum er oft mætt með tortryggni; og hins vegar að til sé hefðbundið orðalag sem hafi einmitt þessa merkingu, reita til reiði. Því sé sögnin reiða í sömu merkingu óþörf og stefnt gegn hinu hefðbundna orðalagi. Mér finnst almennt séð æskilegt að halda sig við málhefð, en því fer samt fjarri að notkun sagnarinnar reiða í merkingunni 'gera reiðan' sé einhver málspjöll.