„Íslenska hörfar sem móðurmál“
Ofangreind fyrirsögn er á frétt mbl.is í dag. Það mætti ætla að börn væru að skipta um móðurmál en auðvitað er ekki um slíkt að ræða, heldur fer þeim leikskólabörnum fjölgandi sem ekki eiga íslensku að móðurmáli. Það merkir ekki að íslenskan „hörfi sem móðurmál“ og slíkt orðalag getur ýtt undir misskilning, varnarviðbrögð og jafnvel útlendingaandúð. Það er skaði vegna þess að málefnið sem fjallað er um í fréttinni er mikilvægt og mjög brýnt. Formaður Kennarasambandsins segir: „Leikskólar þurfa nú að leggja meiri áherslu en áður á það að koma til móts við börn sem eiga ekki íslensku sem móðurmál. […] Við verðum að gera betur og bregðast hraðar við. Það er mikilvægt að fjölga leikskólakennurum og sérhæfðu starfsfólki.“
Í drögum að aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026 sem nú er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda segir: „Mótuð verði viðmið um íslenskuhæfni starfsfólks sem vinnur við uppeldi og menntun sem hvorki er með íslensku að móðurmáli né með leyfisbréf til kennslu í leik- og grunnskólum. Hæfniviðmið byggist á markmiðum laga um leik- og grunnskóla og aðalnámskrám viðkomandi skólastiga og taki mið af hæfniþrepi B samkvæmt Samevrópska tungumálarammanum. Jafnframt verði framboð á námskeiðum í íslensku fyrir þennan hóp aukið.“ Þetta er jákvætt, en það sem vantar er sérhæft starfsfólk sem hefur menntun og þekkingu til að vinna með börnum með annað móðurmál en íslensku og efla málþroska þeirra.