Tungumálið á að vera valdatæki almennings

Tungumálið er valdatæki – eitt öflugasta valdatæki sem til er í lýðræðisþjóðfélagi, og við megum ekki láta valdhafana eina um að beita þessu tæki. Öfugt við flest önnur valdatæki er það sem betur fer að talsverðu leyti á valdi okkar sjálfra hversu gott og mikið vald við höfum á þessu tæki – við getum nefnilega þjálfað okkur upp í að beita því. En vitanlega getum við ekki, hvert og eitt, greint á virkan hátt nema lítið brot af því sem kemur frá valdhöfunum og þess vegna er mikilvægt að fjölmiðlar séu virkir á þessu sviði og stundi hvassa og markvissa orðræðugreiningu á því sem þaðan kemur. Og þess vegna er líka mikilvægt að þau sem fást við slíka greiningu nýti samfélagsmiðla til að miða henni til annarra.

Undanfarna daga hef ég dundað mér við það hér í sveitasælunni að skoða og greina ummæli og yfirlýsingar stjórnenda Íslandsbanka í framhaldi af skýrslu fjármálaeftirlits Seðlabankans. Ef marka má viðtökur hafa þessar greiningar verið gagnlegar og þeim hefur undantekningarlaust verið vel tekið – ég þykist þó vita að sumum hugnist þær ekki en frá þeim hefur ekkert heyrst. Ég hef kallað þetta orðræðugreiningu og vissulega er þetta orðræðugreining – í sinni einföldustu mynd, enda er ég enginn sérfræðingur á því sviði. En þetta eru engin geimvísindi. Þetta er ekkert flóknara en það sem við ættum öll að geta gert, án nokkurrar menntunar í orðræðugreiningu. Þetta er fyrst og fremst almenn skynsemi og gagnrýnin hugsun.

Það sem ég vonast til að ná fram með því að birta þessar greiningar er ekki að hrekja stjórnendur Íslandsbanka frá völdum, heldur að hvetja þau sem lesa þetta til að fara að mínu dæmi og skoða orðræðu hvers kyns valda- og áhrifafólks á þennan hátt. Það þarf ekki annað en spyrja fáeinna einfaldra spurninga, svo sem: Hvers vegna er þetta orð eða orðalag notað? Er þetta merkingarlaus klisja ætluð til þess að drepa málinu á dreif? Hvað merkir axla ábyrgð, draga lærdóm af, vegferð, í stóra samhenginu, sviðsmyndir, við þurfum öll að læra af þessu, o.s.frv.? Við þurfum líka að spyrja: Hvers vegna er verið að nefna þetta – hvað kemur það málinu við? Getur góð frammistaða á einu sviði afsakað eða réttlætt klúður eða lögbrot á öðru sviði? O.s.frv.

Ég held sem sagt að við getum öll auðveldlega gert þetta, en það tekur vissulega tíma – sem við höfum sjaldnast eða gefum okkur ekki, og þess vegna er samhjálpin mikilvæg eins og áður segir. Við hlustum á fólk spinna út í eitt, og spuninn fer inn um annað eyrað og út um hitt. En prófið nú að taka einhvern texta – viðtal við ráðherra eða bankastjóra, fréttatilkynningu fyrirtækis eða stofnunar, e.þ.h. – og brjóta hann upp. Skoðið efnisgrein fyrir efnisgrein eða málsgrein fyrir málsgrein og glöggvið ykkur á því hvað er verið að segja og hvað liggur að baki – spyrjið þeirra spurninga sem ég nefndi hér að framan, og annarra í sama dúr. Ég er sannfærður um að þið sjáið margt sem þið tókuð ekki eftir við fyrsta lestur eða fyrstu heyrn.