Hvers vegna er karlkyn notað í hlutlausri merkingu?

Ef fólk byggir málflutning sinn og röksemdafærslu á málfræðilegum hugtökum er betra að vita hvað þau merkja. Frumlag og andlag koma þessu máli nákvæmlega ekkert við. Það sem greinarhöfundur á væntanlega við er að mörg í mörg komu saman og öll í öll velkomin vísi ekki til neins nafnorðs. Því er nefnilega oft haldið fram að í margir komu saman og allir velkomnir sé nafnorðið maður í raun undirskilið og þess vegna sé mörg komu saman og öll velkomin rökleysa því að ekki sé hægt að hugsa sér neitt hvorugkyns nafnorð sem gæti staðið á eftir mörg og öll. En það er misskilningur. Það er vissulega rétt að í hefðbundnu máli hefur verið notað karlkyn í slíkum setningum, en það er ekki vegna þess að orðið maður liggi að baki.

Fyrir því má færa ýmis rök en hér skal aðeins nefna eitt dæmi. Ef ég kem heim og á von á að hitta fyrir barnahóp en það er dauðaþögn gæti ég spurt: „Hvers vegna er svona hljótt?“ og fengið svarið „Sumir fóru í bíó en aðrir í sund“. Þar er ljóst að orðið maður er ekki undirskilið – sem sé, það væri fráleitt að segja „Sumir mennirnir fóru í bíó og aðrir í sund.“ Auðvitað væri hægt að halda því fram að karlkynsorðið krakki lægi að baki í því tilviki og það útskýrði karlkynið á allir. Þá mætti hins vegar spyrja hvers vegna hvorugkynsorðið barn gæti ekki eins legið að baki þannig að við fengjum „Sum fóru í bíó og önnur í sund“ – sem væri eðlilegt svar ef ég hefði spurt „Hvar eru öll börnin?“ því að þá vísa sum og önnur til hvorugkynsorðsins börnin.

Það er nefnilega eitt einkenni margra fornafna að vísun þeirra getur bæði verið innan málsins (endurvísun) og út fyrir málið (bendivísun). Þegar fornafn stendur með nafnorði og vísar til þess verður það að sambeygjast því – það er aðeins hægt að segja margir menn, ekki *mörg menn vegna þess að menn er karlkyn. En ef fornafnið stendur sjálfstætt vísar það út fyrir málið, til einhvers sem við vitum um eða gerum okkur hugmyndir um. Óákveðin fornöfn geta alveg staðið ein og sér, án þess að hafa nafnorð sér við hlið – og án þess að hægt sé eða nauðsynlegt að hugsa sér nokkurt nafnorð. Ef vísunin er til hóps sem ástæða er til að ætla að sé ekki allur af sama kyni, eins og hópur fólks sem ætlar í sund, er ekkert athugavert við að nota hvorugkyn.

Það er að segja, ekki nema eitt: Það hefur ekki verið venja og þar með ekki talist rétt, miðað við venjulega skilgreiningu á réttu máli og röngu – „Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju“. Í íslensku hefur karlkyn verið notað við slíkar aðstæður og fyrir því eru sögulegar ástæður. En venjur geta breyst, og ef nokkur fjöldi fólks fer að nota hvorugkyn í stað karlkyns í setningum af þessu tagi má halda því fram að til sé orðin ný málvenja – sem sé þá „rétt mál“ samkvæmt áðurnefndri skilgreiningu. Það má velta því fyrir sér hvort svo sé orðið nú þegar, en aðalatriðið í því sem ég er að segja hér er að notkun karlkynsins hefur ekkert með orðið maður að gera.