Um meint kynhlutleysi samsetninga með -maður

Þegar ég heyrði orðið Bandaríkjakona notað í íþróttafréttum í fyrrakvöld rifjaðist upp fyrir mér pistill sem ég skrifaði fyrir tveimur árum, þar sem ég sagði að mér væri lífsins ómögulegt að segja Bandaríkjamaðurinn X ef vísað væri til konu, og það stafaði ekki af „einhverri kynjapólitískri rétthugsun“. Nú fór ég að skoða málið nánar og komst að því að ég er ekki einn um þessa tilfinningu. Í Risamálheildinni eru 10.695 dæmi um orðið Bandaríkjamaðurinn á undan sérnafni. Ég fór í gegnum þau öll og taldi aðeins 42 dæmi sem vísuðu til konu – 0,4%. Nú er ekki óhugsandi að mér hafi skotist yfir einhver dæmi en hlutfallið er þó örugglega ekki yfir 0,5%, sem sýnir auðvitað gífurlega kynjaslagsíðu í fréttum fjölmiðla því að flest dæmanna eru komin úr fréttatextum.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Þegar vísað er til konu er stundum notað sambandið Bandaríkjakonan X eins og í fréttinni sem ég nefndi í upphafi – um þetta er 141 dæmi í Risamálheildinni. En þar að auki er stundum notað nafnorðið kona og lýsingarorð sem vísar til þjóðernis eða laus greinir og lýsingarorð í stað eins nafnorðs. 133 dæmi eru um sambandið bandaríska konan X og 834 dæmi um hin bandaríska X – en ekkert dæmi er um bandaríski kvenmaðurinn X. Samtals eru því 1.210 dæmi um að Bandaríkjakonan X, bandaríska konan X og hin bandaríska X sé notað í staðinn fyrir Bandaríkjamaðurinn X í vísun til kvenna. Þegar 42 dæmum um Bandaríkjamaðurinn X í vísun til konu er bætt við kemst hlutfall kvenna upp í næstum 10%.

Þegar vísað er til konu með einhverri framangreindra aðferða er sambandið Bandaríkjamaðurinn X því aðeins notað í tæplega 3,5% tilvika. Þetta snýst hins vegar algerlega við þegar notkun sambærilegra sambanda um karla er skoðuð. Aðeins er eitt dæmi um bandaríski maðurinn X, eitt um banda­ríski karlmaðurinn X og ekkert um bandaríski karlinn X – en 408 um hinn bandaríski X. Ef vísað er til karls er sambandið Bandaríkjamaðurinn X því notað í 96% tilvika. Þetta er sláandi munur og sýnir glöggt að mörgum málnotendum finnst ekki eðlilegt að nota samsetningu með -maður í vísun til konu heldur leita annarra leiða – ýmist nota samsvarandi orð sem endar á -kona eða nota lýsingarorð sem er sjaldgæft í vísun til karla.

Þetta er ekki nýtt – ég fann m.a.s. dæmi um bandaríska konan X í grein eftir sjálfan mig frá 1980, löngu áður en nokkuð var farið að ræða kynjamál í þessu sambandi. Í þessu tilviki vill svo til að orðið Bandaríkjakona var til í málinu allt frá því um aldamótin 1900 og því auðvelt að grípa til þess. Slíku er ekki til að dreifa í öðru íbúaheiti sem endar á -maður Norðmaður. Þar er ekki hægt að grípa til orðsins *Norðkona því að það á sér enga hefð í málinu en að öðru leyti eru hliðstæð sambönd notuð þótt hlutföllin séu aðeins önnur – Norðmaðurinn X er notað í um 8% vísana til kvenna en í um 85% vísana til karla. Þessi dæmi sýna svo skýrt sem verða má að því fer fjarri að íbúaheiti sem enda á -maður séu kynhlutlaus í huga málnotenda.