Áhrif kyns á setningagerð

Í pistli sem ég skrifaði fyrir tveimur árum sagðist ég ómögulega geta sagt Bandaríkjamaðurinn Valerie Allman, þ.e. ég gæti ekki haft kvennafn með Bandaríkjamaðurinn, en aftur á móti gæti ég alveg sagt Valerie Allman er Bandaríkjamaður og bætti við: „Það skiptir sem sé máli fyrir mig hvort Bandaríkjamaður stendur hliðstætt nafninu – á undan því – eða sem sagnfylling með sögninni vera.“ Í umræðum hér undanfarna daga hefur komið fram að fleiri hafa þessa sömu tilfinningu – það virðist vera auðveldara í máli margra að nota karlkyns íbúaheiti til að skipa konum í hóp eða tegund (Valerie er Bandaríkjamaður) en til að lýsa þeim eða einkenna (Bandaríkjamaðurinn Valerie). En þegar að er gáð er samt líka kynjamunur á sagnfyllingum.

Ég skoðaði átta íbúaheiti – Dani, Norðmaður, Svíi, Finni, Englendingur, Þjóðverji, Frakki og Pólverji. Ég leitaði að dæmum um <sérnafn> er/var<íbúaheiti> og fékk dæmi eins og Olsen er Dani. Einnig skoðaði ég samsvarandi lýsingarorð – leitaði að dæmum eins og <sérnafn> er/var X-skur/X-sk, þ.e. leitaði bæði að lýsingarorðum í karlkyni og kvenkyni, og fékk dæmi eins og Jeppe er danskur og Janne er dönsk. Ég tók bara með þau dæmi þar sem hægt hefði verið að nota þjóðaheitið í staðinn fyrir lýsingarorðið, segja Jeppe er Dani og Janne er Dani, en sleppti dæmum þar sem lýsingarorðið stóð með nafnorði sem ákvarðaði kyn þess, eins og Rask var danskur málfræðingur og Harder er dönsk landsliðskona.

Þarna eru sem sé tvær mismunandi aðferðir til að tengja fólk við ákveðna þjóð – íbúaheiti sem eru notuð í 30% tilvika og lýsingarorð sem eru notuð í 70% tilvika. Fyrir fram mætti búast við að aðferðirnar væru notaðar álíka mikið hvort sem um karl eða konu væri að ræða – að bæði íbúaheitin og lýsingarorðin vísuðu til kvenna í u.þ.b. 30% tilvika, því að um það bil 30% þeirra sem fyrir koma í þeim dæmum sem ég skoðaði eru konur en 70% karlar. En því fer fjarri – íbúaheitin vísa til kvenna í innan við 5% tilvika, en aftur á móti vísa lýsingarorðin til kvenna í um 40% tilvika. Það er því greinilegt að þegar val er um að nota íbúaheiti eða samsvarandi lýsingarorð kjósa margir málnotendur fremur lýsingarorðið þegar vísað er til kvenna.

Á íbúaheitunum og lýsingarorðunum er auðvitað sá grundvallarmunur að íbúaheitin eru öll í karlkyni, en lýsingarorðin ýmist í karlkyni eða kvenkyni. Það er erfitt að sjá aðra ástæðu fyrir þessum kynjamun en að ósamræmi milli karlkyns íbúaheitanna og kvenkyns þeirra sem þau vísa til trufli marga málnotendur sem velji fremur að nota lýsingarorð þar sem hægt er að hafa samræmi. Þetta leiðir til þeirrar óvæntu en skemmtilegu niðurstöðu að kyn þeirra sem um er rætt hefur áhrif á setningagerð. Nafnorðin vísar langoftast til karlmanna (Daninn X, X er Dani) en þegar rætt er um konur eru nafnorðin frekar sjaldgæf en lýsingarorðin oftast notuð í staðinn (danska konan X, hin danska X, X er dönsk). Íslensk íbúaheiti eru sannarlega ekki kynhlutlaus.