Um karlmenn og kvenmenn

Það er stundum nefnt sem rök fyrir notkun orðsins maður í kynhlutlausri merkingu að af því séu til hliðstæðar og jafngildar samsetningar – karlmaður og kvenmaður. Þetta er auðvitað rétt svo langt sem það nær, eins og fram kemur í lýsingum orðanna í Íslenskri nútímamálsorðabók. Um karlmaður segir þar: „ORÐHLUTAR: karl-maður“ og skýring 'karlkyns mannvera' og um kvenmaður segir: „ORÐHLUTAR: kven-maður“ og skýring 'kvenkyns mannvera'. Þetta er vissulega hliðstætt, en dæmin sem eru tekin um orðin segja aðra sögu. Dæmi um kvenmaður er „hann mætti á árshátíðina með nýjan kvenmann upp á arminn“ en um karlmaður eru tekin dæmin „það þurfti fjóra fíleflda karlmenn til að lyfta skápnum“ og „vera sannur karlmaður“.

Augljóslega er gerólíkur blær á þessum dæmum, en ég er ekki að gagnrýna orðabókina fyrir að mismuna kynjunum. Þvert á móti – ég fæ ekki betur séð en þarna komi dæmigerð notkun orðanna einmitt vel fram. Orðið karlmaður tengist oft jákvæðum eiginleikum eins og styrk, afli, hreysti o.þ.h., sbr. líka orðin karlmenni og karlmennska, en orðið kvenmaður tengist oft einhverju sem talið er neikvætt, svo sem í útliti, skapgerð eða hegðun. Ég legg áherslu á að þetta er fjarri því að vera algilt, og vitanlega eru orðin oft notuð sem hliðstæður hlutlausrar merkingar, án einhverra aukamerkinga af því tagi sem hér voru nefndar. En það þarf ekki annað en skoða dæmi um samböndin þessi karlmaður og þessi kvenmaður á tímarit.is til að sjá muninn.

Um sambandið þessi kvenmaður eru 712 dæmi – hér eru nokkur gömul. Í Morgunblaðinu 1914 segir: „Þessi kvenmaður þarna eða bæjarfulltrúi (Bríet) ætti ekki að hlæja að þessu.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1932 segir: „Eða átti hann að láta alla kunningja sína, allan bæinn sjá hvernig þessi kvenmaður hafði farið með hann?“ Í Alþýðublaðinu 1941 segir: „Þessi kvenmaður hefir gert svo mikið hneyksli hér.“ Í Vikunni 1942 segir: „Þér ættuð að gæta orða yðar, því að þessi kvenmaður hefir illt í hyggju.“ Í Samtíðinni 1942 segir: „Mér fannst vægast sagt, að þessi kvenmaður væri þrátt fvrir allt hæglæti sitt óþægilega gustmikill.“ Í Vikunni 1945 segir: „Aldrei hefir mér fundizt nokkur manneskja tala eins mikið og þessi kvenmaður.“

Einnig má taka dæmi frá þessari öld. Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Heyrðu, hvern mann hefur þessi kvenmaður að geyma? Er þetta ekki skass?“ Í Fréttablaðinu 2003 segir: „Þessi kvenmaður er með HORMOTTU!“ Í DV 2009 segir: „„Það er ekki vitað hvað þessum kvenmanni gengur til með þessu en líklegt er talið að hún sé veik á geði.“ Í Fréttablaðinu 2012 segir: „Ég mætti þessum kvenmanni nokkrum mínútum síðar – þá í fötum – í röð á skemmtistað. Hún var reykjandi, einsömul og í stuttbuxum og hlýrabol.“ Í DV 2013 segir: „Að sögn bróður Lennie var ekki óvanalegt að Lennie sæist ekki í tvo daga eða svo sem hann eyddi hjá þessum kvenmanni eða hinum.“ Meirihluti nýlegra dæma um sambandið virðist vera í þessum dúr.

Vissulega getur oft verið matsatriði hvort samhengið sé neikvætt og eðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir á einstökum dæmum, en það er þó enginn vafi að gífurlegur munur er á samböndunum þessi kvenmaður og þessi karlmaður. Um það síðarnefnda eru aðeins 83 dæmi eða rétt rúm 10% af samanlögðum dæmafjölda um samböndin tvö. Vissulega eru þar einstöku dæmi sem hægt er að túlka neikvætt, eins og „Jeg vil ekki hafa að þessi karlmaður kyssi þig svona, sagði faðirinn, þegar dóttirin kom upp“ í Morgunblaðinu 1949, en það er samt augljóst að slík dæmi eru ekki nema örfá miðað við dæmin um neikvæða merkingu í þessi kvenmaður. Það er í raun himinn og haf milli dæmigerðrar notkunar orðanna karlmaður og kvenmaður.