Í hverju felst karllægni íslenskunnar?

Hér var áðan sett inn skemmtilegt kvæði eftir Þórarin Eldjárn með þeim ummælum að það væri „ágætt innlegg í umræðuna um kynjuð orð og kynjaorð, sem töluvert hefur farið fyrir á þessu spjalli“. En reyndar kemur þetta kvæði sem ég hef séð víða á Facebook í dag þeirri umræðu nákvæmlega ekkert við. Í því er hrúgað saman kvenkynsorðum, væntanlega í þeim tilgangi að vekja athygli á að því fari fjarri að íslenska sé jafn karllæg og stundum er haldið fram. Þar birtist sá útbreiddi og lífseigi misskilningur að barátta gegn karllægni málsins beinist eitthvað gegn karlkynsorðum almennt. En svo er ekki. Málið snýst ekkert um önnur orð en þau sem notuð eru í vísun til fólks og undir það falla aðeins tvö kvenkynsorðanna í kvæðinu – hetja og kempa.

Eins og hér hefur margsinnis verið rakið, m.a. í nokkrum pistlum í síðustu viku, birtist karllægni íslenskra nafnorða einkum á tvennan hátt. Annað er tvíeðli orðsins maður sem er notað í almennri vísun, bæði sem tegundarheiti og um óskilgreindan hóp, en einnig sem eins konar óákveðið fornafn. En þar fyrir utan er það vitanlega mjög oft notað sem andstæða við kona, þ.e. í merkingunni ʻkarlmaðurʼ. Þrátt fyrir hina almennu merkingu hefur orðið maður alla tíð tengst karlmönnum mjög nánum böndum og þess vegna tengja ýmsar konur og kynsegin fólk sig ekki við það eða samsetningar af því, finnst það ekki eiga við sig. Eins og ég hef sýnt fram á byggist þessi staðhæfing ekki á tilfinningu, heldur birtist greinilega í málnotkun í textum.

Hitt er að meginhluti starfsheita, hlutverksheita, íbúaheita o.fl. er karlkyns, og þegar vísað er til þeirra með fornafni er því notað karlkynsfornafn. Mörg þeirra hafa ‑maður sem seinni lið, svo sem vísindamaður, námsmaður, stýrimaður,  formaður, Norðmaður og fjölmörg fleiri, en ýmis önnur karlkynsorð eru líka seinni liður í mörgum starfsheitum, svo sem ‑stjóri í forstjóri og bílstjóri; ‑herra í ráðherra og skipherra; ‑þjónn í lögregluþjónn og barþjónn; o.m.fl. Mörg starfsheiti eru einnig mynduð með karlkynsviðskeytum eins og -ari og -ingurljósmyndari. kennari; tölvunarfræðingur, heimspekingur. Þótt þessi starfsheiti séu málfræðilega karlkyns eru þeim ætlað að vera kynhlutlaus, í þeirri merkingu að þau eru eða hafa verið notuð um öll kyn.

Fólk getur haft mismunandi skoðanir á því hvort tal um karllægni íslenskunnar eigi rétt á sér, en sé um einhverja karllægni að ræða felst hún a.m.k. ekki í tilvist eða notkun karlkynsorða almennt – orða eins og stóll, lampi, bíll, vagn, heili, fótur, vindur, bylur, vetur, dagur, vegur, stígur, skuggi, litur, pallur, stallur, gluggi, veggur, hugur, harmur o.s.frv. Þótt þessi orð séu öll karlkyns dettur engum í hug að halda því fram að þau stuðli á einhvern hátt að karllægni málsins. Þess vegna kemur það málinu ekkert við þótt auðvelt sé að yrkja heilt kvæði með eintómum kvenkynsnafnorðum. Að halda því fram eða gefa í skyn að karllægnin felist í fjölda karlkynsorða almennt er að misskilja málið hrapallega eða afvegaleiða umræðuna.