Kreðs(a)

Hér sköpuðust í gær nokkrar umræður um orðið kreðs sem var þátttakendum í umræðunni misjafnlega tamt á tungu. Þetta er augljóslega tökuorð úr dönsku og Helgi J. Halldórsson nefnir það í upptalningu á dönskuslettum sem séu „með öllu óþarfar“ í grein í Skírni 1975. Orðið er gefið í Íslenskri orðabók í tveimur myndum, karlkynsmyndinni kreðs og kvenkynsmyndinni kreðsa, sagt óformlegt og merkja 'óformlegur hópur manna, klíka'. Elsta dæmi Ritmálssafns Árnastofnunar er frá 1895 en á tímarit.is eru þó ekki eldri dæmi en frá 1951. Trúlegt er að orðið hafi lengi verið eitthvað notað í málinu þótt það hafi ekki komist á prent á fyrri hluta 20. aldar, og það er raunar mjög sjaldgæft á prenti fram um 1980 en töluvert notað eftir það.

Af einhverjum ástæðum er orðið langmest notað í þágufalli fleirtölu, í samböndum eins og í þessum kreðsum – um tveir þriðju hlutar dæmanna eru um þá beygingarmynd, og hún getur verið hvort heldur af kreðs eða kreðsa. En af þeim myndum sem sýna kynið ótvírætt, s.s. kreðs og kreðsinn í karlkyni, kreðsu og kreðsur í kvenkyni, sýnist mér að aðeins u.þ.b. tíundi hluti sé karlkyns. Það er því ljóst að kvenkynsmyndin kreðsa er aðalmynd orðsins. Alls er um hálft sjöunda hundrað dæma um orðið eitt og sér á tímarit.is, en auk þess kemur það fram í ýmsum samsetningum, ekki síst orðum sem tengjast listum – orðum eins og bókmenntakreðsum, skáldakreðsum, listamannakreðsum o.fl.

Þetta kemur vel fram í elsta dæminu um orðið á tímarit.is, í grein um William Faulkner í Lífi og list 1951: „Hann hefur um nokkurt skeið notið mikilla vinsælda í Evrópu en verið lítt kunnur í heimalandi sínu nema meðal starfsbræðra sinna og í þröngum hópum andlega sinnaðra manna (í intellektúölum kreðsum).“ Orðið hefur greinilega unnið sér hefð í íslensku, en auðvitað má deila um hversu vel það falli að málinu. Í fljótu bragði finn ég ekki fleiri karlkynsnafnorð sem enda á -ðs nema lóðs, sem líka er tökuorð úr dönsku, og ég finn engin kvenkynsnafnorð sem enda á -ðsa. Hins vegar eru til sagnirnar lóðsa sem er vitanlega af lóðs, og gliðsa sem er mjög sjaldgæf. Hvað sem því líður finnst mér kreðs(a) saklaus sletta.