Unnið að jarðgangnagreftri

Ég býst við að einhverjum þyki fyrirsögn þessa pistils stinga í stúf við það sem lengi hefur verið boðað í kennslu og málfarsþáttum. Í Málfarsbankanum segir t.d.: „Gröftur: þgf. grefti, ef. graftar. Í þágufalli væri síðri kostur „greftri“ og í eignarfalli „graftrar“.“ Í Þjóðviljanum 1955 segir: „Á sama hátt ber að segja grefti í þágufalli, en ekki greftri. Og væri gaman ef rétta orðmyndin gæti sigrað í fljótheitum.“ Í Morgunblaðinu 2014 segir: „Þá er tvennt til: frá grefti og frá greftri, til graftar og til graftrar. Málfræðingar mæla með fyrri kostinum en sumum þykir hinn flottari.“ Báðar beygingarnar eru gefnar upp í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls en bent á að greftri og graftar séu mun algengari myndir en grefti og graftrar.

Einnig eru oft gerðar athugasemdir við eignarfallið (jarð)gangna. Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir: „Sagt var: Hafin er vinna vegna jarðgangna. Rétt væri: ... vegna jarðganga. (Eignarfall af göng er ganga, en gangna er eignarfall af göngur.)“ Gísli Jónsson sagði í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1987: „Enn er ótrúlega algengt í fréttum, ég held ég megi segja ráðandi, að orðið göng sé ranglega beygt. Ég hef einkum tekið eftir þessu í samsetningunni jarðgöng. Eignarfallið er jarðganga, ekki jarðgangna. Aftur á móti er kvenkynsorðið ganga í eignarfalli fleirtölu gangna.“ Einnig er hnykkt á þessu í kverinu Gott mál eftir Ólaf Oddsson frá 2004 og klykkt út með því að segja: „Þetta ætti því að vera einfalt.“

En er þetta svo einfalt? Tvö elstu dæmi um myndina jarðgangna á tímarit.is eru frá 1888 og 1889, en elsta dæmið um n-lausu myndina jarðganga er nokkrum árum yngra, frá 1896. Öll þessi dæmi eru úr vesturíslensku blöðunum enda lítil umræða um jarðgöng á Íslandi á þessum tíma. Allt fram til 1980 er jarðgangna algengari mynd – samtals 141 dæmi um jarðganga en 149 um jarðgangna. En eftir 1980 siglir jarðganga hratt fram úr og fram til 2023 eru 3000 dæmi um jarðganga á tímarit.is en aðeins 375 um jarðgangna. Í Risamálheildinni er munurinn enn meiri – 2833 dæmi um jarðganga en aðeins 125 um jarðgangna. Ekki er ótrúlegt að hnignun myndarinnar jarðgangna stafi að einhverju leyti af kennslu og leiðréttingum.

Ekki er málið einfaldara í orðinu gröftur. Elsta dæmi um -r-lausu þágufallsmyndina grefti er frá 1784 en það elsta um greftri hundrað árum yngra, frá 1884. En allt frá aldamótunum 1900 er greftri algengari mynd – samtals 1969 dæmi en 718 um grefti. Í Risamálheildinni eru dæmin 618 á móti 107. Elstu dæmi um eignarfallsmyndirnar graftar og graftrar eru álíka gamlar, en -r-myndin þó aðeins eldri, frá 1790 – -r-lausa myndin frá 1797. Alla tíð hefur graftar þó verið mun algengari en graftrar – 537 dæmi á móti 164 en í Risamálheildinni eru dæmin 74 á móti 8. Í Þjóðviljanum 1955 segir: „Margir nota orðið greftrun og greftra. Þetta mun vera rangt –segja ber greftun og grefta.“ En greftun er ekki í neinni orðabók, og sárafá dæmi til um það.

Vitanlega er það rétt að myndirnar ganga, jarðganga, grefti, graftar og greftun eru það sem við væri að búast út frá málkerfinu. Það eru bara veik kvenkynsorð (þau sem enda á -a í nefnifalli eintölu) sem „eiga að“ fá -n- í eignarfalli fleirtölu, og -r- er ekki stofnlægt í orðinu gröftur eins og sést á því að þolfallið er gröft, og þess vegna „ætti“ -r- ekki að koma fram í þágufalli og eignarfalli né heldur í afleidda orðinu greftrun. En það breytir því ekki að málnotendum finnst þessar „röngu“ myndir greinlega eðlilegar, og þær eru allar gamlar og algengar í málinu. Þess vegna er engin ástæða til að amast við þeim. Það er nefnilega misskilningur að tungumálið sé, eigi að vera eða þurfi að vera fullkomlega reglulegt. Óregluleg beyging er alveg eðlileg.